Tveir + tveir = króna

Árni Páll Árnason hefur farið mikinn í fjölmiðlum (nema á meðan hann var týndur) um að “gömlu kerfisflokkarnir” boði óraunhæfar lausnir í efnahagsmálum. Samkvæmt honum og hinum í Samfylkingunni og Bjartri framtíð, eru allar aðrar lausnir en upptaka evru óraunhæfar.

Evran skal allt leysa. Evran skal galdra burt gjaldeyrishöftin. Evran skal koma í veg fyrir lífskjaraskerðingu vegna gengisfellinga. Evran skal lækka vexti til jafns við það lægsta í ESB.

Allt eru þetta yfirborðsloforð. Aldrei er farið dýpra í það hvernig þetta allt á að gerast. Aldrei er útskýrt hvernig evran mun töfra burt skuldir ríkisins og snjóhengjuna í einu vetfangi. Aldrei er sýnt fram á hvernig evran mun koma í veg fyrir að hér verði innri gengisfelling launa og atvinnuleysis á sama hátt og í evruríkjunum sem gátu ekki nýtt ytri gengisfellingu gjaldmiðilsins í niðursveiflunni. Aldrei er það útskýrt hvers vegna litla evrulandið Ísland muni sjálfkrafa fá á silfurfati sömu lágu vexti og stóru evruríkin, en ekki sömu háu vexti og hin litlu evruríkin. Einn lærdómur evrukrísunnar er jú að sama vaxtastig fyrir alla er ekki raunhæft.

Staðreyndin er sú að það eru Samfylkingin og stóra systir hennar, Björt framtíð, sem boða algerlega óraunhæfar lausnir í efnahagsmálum. Ástæðan er fyrst og fremst þessi:

Það þarf að taka af festu á efnahagsvanda Íslands á næsta kjörtímabili. Næstu fjórum árum.  Og það er algerlega ljóst að evra verður ekki tekin upp á Íslandi á næstu fjórum árum.

Ekki taka mín orð ein fyrir því, Samfylkingin hefur sjálf skrifað undir þessa staðreynd í þverpólitískri nefnd um peningastefnu og gjaldmiðlamál. Það gerðu hinir boðberar evrunnar, ASÍ og SA líka. Fjármálaráðherra tók við skýrslunni athugasemdalaust og enginn hefur andmælt henni.

En það þarf í raun engar skýrslur til að sjá þetta. Þetta er jafn einfalt og að tveir plús tveir eru fjórir.

Jafnvel þó allt gangi upp verður samningum við ESB, þjóðaratkvæðagreiðslu og inngöngu í Evrópusambandið héðan af ekki lokið fyrr en í fyrsta lagi eftir tvö ár. Þá er kjörtímabilið hálfnað. Áður en ESB ríki fá að taka upp evru þurfa þau svo að vera a.m.k. tvö ár í ERMII myntsamstarfinu, (þar sem kostnaðurinn við að halda gengi krónunnar innan vikmarka skrifast á Seðlabanka Íslands).

Tvö ár plús tvö ár eru fjögur ár. Og þá er kjörtímabilið búið. 

Það þarf því ekki nema grunnfærni í stærðfræði til að átta sig á að þegar Samfylkingin og Björt framtíð segja fyrir kosningar 2013 að Evra leysi efnahagsvandann á næstunni er það rangt. Þau eru að lýsa langtímamakrmiði en láta það líta út eins og það sé raunhæft á næsta kjörtímabili þó að þau viti betur. Og hvað er það er kallað þegar maður segir eitthvað sem maður veit að er ekki satt? Einmitt.

Fyrir utan þessa staðreynd mun Ísland þurfa að uppfylla Maastricht skilyrðin til að fá evru. Eftir því þarf að bíða enn lengur. Aftur er óþarfi að taka mín orð fyrir því, AGS hefur ítrekað bent á að Ísland muni ekki uppfylla skuldaskilyrði Maastricht fyrr en í fyrsta lagi 2020-2025. Það er eftir tvö til þrjú kjörtímabil.

Evruflokkarnir hafa með öðrum orðum ekki sagt kjósendum hvernig þeir ætla að gera það sem þarf að gera í efnahagsmálum á Íslandi næstu fjögur ár. Loforðin um að evran leysi vandann eru óraunhæf, blekking.

Það er ekkert að því að stjórnmálaflokkar hafi það að langtímamarkmiði að ganga í ESB og taka upp evru. Ég er ekki sammála því langtímamarkmiði en ber fulla virðingu fyrir þeirri skoðun. Þessir sömu stjórnmálaflokkar verða hins vegar að horfast í augu við staðreyndir og tala við kjósendur í landinu á grundvelli staðreynda. 

Minnugir kjósendur geta rifjað upp málflutning Samfylkingarinnar árið 2009 um hraðferð inn í ESB og lausn efnahagsvandans með skjótri upptöku evru. Síðan eru liðin fjögur ár.

Eftir kosningar 2013 þarf að taka á vandanum strax. Það er ekki hægt að bíða í fjögur ár eða lengur eftir evru.

Ef þessi sömu óraunhæfu loforð verða aftur það eina sem Samfylkingin og Björt framtíð geta boðið íslenskum heimilum og atvinnulífi er hætt við að margir kjósendur muni fara á kjörstað í apríl með It Could Have Been You með Journey í huganum:

I can’t wait all my life, on a street of broken dreams.”

Athugasemdir: