D.reifararnir gangsettir

Þegar Framsóknarflokkurinn lyftist yfir 18% markið í skoðanakönnunum virðast Sjálfstæðismenn hafa fengið hland fyrir hjartað. Allt í einu hafa skrif helstu áróðursvefja hægri manna skipt í ofboði um stefnu á útblástursopum mykjudreifaranna, sem nú vísa öll í átt að miðjunni.

Hér hefur áður verið fjallað um að landsfundur Sjálfstæðisflokksins bar þess merki að flokkurinn sá álíti framsóknarmenn sína helstu andstæðinga í komandi kosningum. Nýjustu skoðanakannanir virðast hafa treyst þá skoðun í sessi. Að minnsta kosti virðist frjálshyggjuarmurinn hafa hrokkið algerlega af hjörunum við þær fréttir að Framsókn sé orðin “of” stór.

Nýjasta útspilið er gamalkunnugt stef um að vinstristjórn Jóhönnu sé Framsóknarflokknum að kenna. Frjálshyggjuboltarnir á bæði Vefþjóðviljanum og bloggsíðu Óla Björns Kárasonar eru byrjaðir á þessum söng og þá má brátt búast við að smáfuglarnir byrji að bera á túnin.

Tilgangurinn er augljós, að hræða sjálfstæðismenn til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.

Þetta örþrifaráð felur í sér algera uppgjöf gagnvart málefnalegri rökræðu. Og það heilum átta vikum fyrir kosningar. Ég átti von á meiru, hafði til dæmis gert mér vonir um að hægri menn væru tilbúnir til að ræða málefnalega um muninn á stefnu Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins um skuldaleiðréttingu og afnám verðtryggingar “í þágu heimilanna”. Þess í stað virðist rökþrotið hafa náð tökum á þeim fyrirfram.

Það er ósköp sorglegt að hægri flokkur þori ekki að treysta á sínar eigin hægri-málefnaáherslur til þess að fá hægrimenn til að kjósa sig heldur grípi til hræðsluáróðurs.

Staðreyndin er sú að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sækir umboð sitt til alþingiskosninga í apríl 2009, ekki til Framsóknarflokksins. En það er svo sem skiljanlegt ef Óli Björn, Glúmur og félagar hafa reynt að gleyma þessum kosningum, þær voru ekki beinlínis hápunkturinn á sögu Sjálfstæðisflokksins.

Þeir gætu líka rifjað upp að ein af stóru ástæðunum fyrir því að Framsókn veitti minnihlutastjórninni hlutleysi (með skilyrðum sem öll voru svikin) var að Sjálfstæðismenn komu í veg fyrir að hægt væri að mynda þjóðstjórn fram að kosningum. Geir Haarde þverneitaði því nema Sjálfstæðisflokkurinn færi með þar með forsæti. Landið mátti heldur vera stjórnlaust fram að kosningum rétt eftir hrunið en að Sjálfstæðismenn gæfu afslátt á eigin forgangi.

Það var heldur kaldrifjað hagsmunamat. Ískalt jafnvel.

Athugasemdir: