Björn Valur og appelsínurnar

Það er ekki einleikið hvernig Birni Val Gíslasyni tekst að misskilja flest varðandi þetta bankasölumál. Þegar fréttir bárust af því rétt fyrir páska að til stæði að selja hlut erlendra kröfuhafa í bönkunum til lífeyrissjóðanna korteri fyrir kosningar, og framsóknarmenn vöruðu við því og sögðu það ótímabært og varasamt, þá misskildi hann allt saman og fór mikinn í fjölmiðlum um að ekki stæði til að selja hlut ríkisins í bönkunum.

Þetta var svona eins og Framsókn hefði varað við því að selja epli, en Björn Valur hefði skammast yfir því að það stæði ekki til að selja neinar appelsínur.

Í dag hleypur Björn Valur aftur á sig á álíka vandræðalegan hátt. Hann heldur því fram að hin þverpólitíska nefnd um afnám hafta sé á einhvern hátt að gagnrýna stefnu Framsóknar gagnvart erlendu kröfuhöfunum í bréfi sínu til ráðherra.

Hið rétta er að nefndin bendir þvert á móti á að afnám fjármagnshafta verði að nálgast með heildrænum hætti og að lausnir á afmörkuðum vanda innan hafta geti seinkað afnámi þeirra í heild og jafnvel ógnað fjármála- og stöðugleika. Svo segir um bankasöluna í bréfi nefndarinnar:

Nefndin telur rétt að koma þessu sjónarmiði á framfæri á þessum tímapunkti þar sem að fréttaflutningur hefur verið af áhuga fjárfesta, m.a. lífeyrissjóða, á kaupum á hlutum í Arion banka eða Íslandsbanka. Slíkar vangaveltur eru þó með öllu ótímabærar enda getur svo veigamikil breyting innan fjármagnshafta ekki átt sér stað nema fyrir liggi með hvaða hætti þau verða afnumin í heild.

Nefndin segir semsagt að það sé ótímabært  og varasamt að ætla að nú að selja hlut erlendra kröfuhafa í bönkunum til lífeyrissjóða án þess að það sé hluti af heildarlausn um afnám hafta.

Það er nákvæmlega það sama og Framsókn hefur haldið fram. Nefndin er semsagt ótvírætt að taka undir málflutning Framsóknar í bréfinu, ekki gagnrýna hann.

Björn Valur hefur því enn á ný misskilið, tekist á óskiljanlegan hátt að lesa appelsínur úr bréfi sem fjallar um epli.

Er til of mikils mælst að fráfarandi formaður fjárlaganefndar og varaformaður annars ríkisstjórnarflokkanna setji sig betur inn í mál tengd fjármagnshöftum og sölu bankanna en svo að hann stökkvi í fjölmiðla aftur og aftur með upphrópanir og staðhæfingar byggðar á misskilningi?

Athugasemdir: