Semur Icesave stjórnin af sér enn og aftur?

Nú virðist eiga að að semja um að koma gróða vogunarsjóðanna í skjól rétt fyrir kosningar. Í því sambandi er rétt að rifja aðeins upp staðreyndir um árangur í samningum á vakt fráfarandi ríkisstjórnar. 

Í júní 2009 samþykkti ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna Icesave samninga Svavars Gestssonar, Icesave 1, án þess að lesa þá fyrst. Vaxtakostnaðurinn fyrir íslenska skattgreiðendur hefði aldrei orðið minni en um 250-300 milljarðar í erlendum gjaldeyri. Með harðri baráttu tókst stjórnarandstöðunni og fleiri aðilum að takmarka skaðann með því að þvinga fram efnahagslega fyrirvara sem voru svo fastir fyrir að Bretar og Hollendingar tóku þá ekki í mál.

Í október 2009 samþykkti þessi sama ríkisstjórn viðaukasamninga við Svavarssamninginn, Icesave 2, sem gerði þessa fyrirvara að engu. Vaxtakostnaðurinn fyrir íslenska skattgreiðendur hefði aldrei orðið minni en 150-200 milljarðar í erlendum gjaldeyri. Íslenska þjóðin hafnaði þessum samningi ríkisstjórnarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu í mars 2010.

Í desember 2010 samþykkti þessi sama ríkisstjórn þriðja Icesave samninginn, Icesave 3, sem var töluvert skárri en hinir tveir en hefði samt í dag verið búinn að safna vaxtakostnaði fyrir íslenska skattgreiðendur upp á a.m.k. 60 milljarða í erlendum gjaldeyri. Íslenska þjóðin hafnaði þessum samningi ríkisstjórnarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu í apríl 2011.

Í gærkvöldi birtist frétt á RÚV um að verið sé að reyna að losa erlendu kröfuhafa bankanna úr snörunni með því að Framtakssjóður Íslands kaupi af þeim bankana á afslætti og greiði fyrir með erlendum eignum, erlendum gjaldeyri. Þessi frétt setti að mér hroll.

Stærsti eigandi Framtakssjóðsins er Landsbanki Íslands. Landsbanki Íslands er í um 80% eigu ríkissjóðs. Fjármálaráðherra í ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri græna fer með þennan eignarhlut fyrir hönd ríkisins. Til að þessi kaup gangi í gegn með greiðslu í erlendum eignum þarf Seðlabankinn að koma að málinu. Seðlabanki sem t.d. fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave 2 samningana 2010 gaf út upplýsingar sem sýndu okkur allt annað en raunveruleikann.

Er það furða þótt við sem höfum fylgst mjög náið með framkomu og aðgerðum þessarar ríkisstjórnar í Icesave málinu frá árinu 2008 spyrjum núna: Um hvað er verið að semja? Af hverju eru þessir samningar komnir í gang núna rétt fyrir kosningar? Er verið að segja okkur allt sem skiptir máli? Er allt uppi á borðinu? Er aftur verið að semja burt svigrúmið sem annars gæti nýst heimilunum í landinu, eins og var gert þegar ríkisstjórnin afhenti kröfuhöfunum bankana árið 2009?

Getur það verið að það sé pólitískt heppilegt fyrir Samfylkinguna og Vinstri græna að koma fram rétt fyrir kosningar og segjast vera í þann mund að leysa snjóhengjuvandann með svona samningum? Koma kröfuhöfunum í skjól með gommu af gjaldeyri fyrir kosningar svo þeir þurfi ekki að hafa áhyggjur af því sem gerist eftir kosningar?

Við hljótum að velta þessu fyrir okkur. Við höfum ekki gleymt því að í Icesave málinu samþykkti ríkisstjórnin í upphafi algerlega ónýtan samning, bara til að semja. Samningurinn var ekki einu sinni lesinn fyrst, þótt hann hefði haft skelfileg áhrif á lífskjör í landinu. Svona mistök mega ekki endurtaka sig.

Erlendu kröfuhafarnir eru gríðarsterkir andstæðingar. Þeir hafa yfir miklum fjármunum að ráða og þeir eru með margt bráðgáfað og harðduglegt fólk í vinnu fyrir sig hér á Íslandi. Þræðir þeirra liggja nú orðið mjög víða í samfélaginu, jafnvel víðar en flestir átta sig á. Vogunarsjóðunum er alveg sama um lífskjör Íslendinga. Þeir vilja bara passa upp á gróðann sinn. Og þeim líst ekki á það sem gæti komið fyrir þennan gróða eftir kosningarnar. Þess vegna vilja þeir komast í skjól núna.

Við unnum Icesave orrustuna að lokum. Baráttan við erlendu kröfuhafana er orrusta um lífskjör Íslendinga í framtíðinni, alveg eins og baráttan um Icesave. Við þurfum að heyja þá orrustu saman af jafn mikilli einurð og jafn mikilli hörku.

Og í þeirri baráttu er eitt algerlega skýrt:

Ríkisstjórnin sem ítrekað samdi af sér í Icesave málinu má ekki semja af sér gagnvart hrægammasjóðunum korteri fyrir kosningar. Það má ekki líðast.