Skoðanir og kannanir

Skoðanakannanirnar um Framsóknarflokkinn og viðhorf til formanns og varaformanns flokksins sem komu út í dag eru áhugaverðar fyrir nokkurra hluta sakir.

Í fyrsta lagi eru þær sammála um eitt: Að Sigmundur Davíð hafi stuðning meirihluta kjósenda Framsóknarflokksins. Það er ánægjulegt að sjá í ljósi þeirra breiðu spjóta sem hefur verið beint að honum að undanförnu.

Í annan stað kemur svolítið á óvart að svona löngu undirbúinni stuðningsmannakönnun skuli vera plantað á forsíðu Fréttablaðsins á þessum tíma á svo augljósan hátt.

Í þriðja lagi er hins vegar ekkert sérstakt undrunarefni að kjósendur annarra flokka vilji sjá annan formann í Framsóknarflokknum en Sigmund Davíð. Hann er ekki beinlínis óumdeildur náungi. Fólk sem fer sínar eigin leiðir og nær árangri með þeim eignast ekki bara vini og viðhlægjendur.

Svo er almennt áhugaverð spurning hvað mikið má lesa úr þeim þætti svona kannana sem spyrja fólk almennt af handahófi um forystufólk einstakra stjórnmálaflokka.

Lítum til dæmis á könnunina sem var birt í apríl fyrir formannskjörið hjá Samfylkingunni. Það var sams konar könnun, handahófsúrtak hjá Gallup, allir flokkar og skoðanir undir.

Oddný Harðardóttir hlaut þar afgerandi stuðning – könnunin sagði skýrt að „flestir landsmenn teldu Oddnýju best til þess fallna að leiða Samfylkinguna“.

Öllum er hins vegar ljóst að Samfylkingin hefur ekki sópað að sér fylgi flestra landsmanna í kjölfar þess að Oddný var kjörin formaður flokksins. Þvert á móti hefur fylgi flokksins nánast ekki hreyfst, það stendur í sömu 8 prósentunum og í apríl.

Athugasemdir:

Leave a Reply