Að gefnu tilefni

Á laugardaginn birtist enn ein yfirlýsingin frá Reykjavík Media, Kastljósi og fleirum þar sem undirritaðir stilla sjálfum sér upp með geislabaug og vængi og öðrum sem lygurum.

Það minnti mig á það þegar svipuð yfirlýsing birtist frá sömu aðilum í vor þar sem farið var rangt með samtal sem ég átti við Nils Hanson ritstjóra hjá sænska ríkissjónvarpinu þann 11. mars síðastliðinn. Þar er reyndar farið rangt með fleira en byrjum á þessu. Í kjölfarið birti Ríkisútvarpið tvær fréttir með viðtölum við Hanson þar sem hann krítaði áfram liðugt um þetta samtal. Ég hef ekki kosið að tjá mig mikið um það eða annað varðandi þetta opinberlega en held að þegar öllu er á botninn hvolft sé rétt að fara aðeins yfir nokkra hluti varðandi samskipti mín við þetta fjölmiðlafólk.

Í byrjun mars fékk ég símtöl og tölvupósta frá Jóhannesi Kristjánssyni þar sem óskað var eftir viðtali við forsætisráðherra fyrir sænska ríkissjónvarpið. Jóhannes kynnti sig sem milligönguaðila og það staðfestu Svíarnir.  Það var lygi.

Í kjölfarið sendi Sven Bergman til mín yfirlit um hvað SVT vildi ræða í viðtalinu. Þar var vel útlistað að þeir vildu fjalla um sænska húsnæðismarkaðinn og heyra um reynslu Íslendinga í því efni, uppbyggingu eftir efnahagshrunið og hversu vel Ísland væri búið undir aðra niðursveiflu. Þá hefðu þeir áhuga á að heyra af baráttu forsætisráðherra gegn Icesave og kröfuhöfum föllnu bankanna.

Allt í þessum samskiptum var líka lygi.

Það er skemmst frá því að segja að í tæpar tvær vikur var allt sem kom fram í símtölum, tölvupóstum og persónulegum samtölum við mig af hálfu þessara manna lygi. Allt fram til þess að rétt í þann mund sem viðtalið var að hefjast sagði Jóhannes Kristjánsson við mig að fyrra bragði að það „væri ný reynsla fyrir sig að vera bara skrifta“ í svona viðtali.

Óheiðarleikinn hélt svo áfram eftir að viðtalinu lauk. Þá ræddi ég við þá báða, bað um skýringar á þessari hegðun (sem lítið var um) og óskaði skýrt eftir því að þeir hættu að mynda það samtal enda hafði ég ekki samþykkt að vera í mynd eða viðtali. Eftir að Bergman samþykkti það sá ég að myndatökumaður þeirra hélt áfram að mynda og ég þurfti að krefjast þess sérstaklega til að hann hætti loks, mjög fýldur á svip, eins og ég hefði tekið af honum sleikjó.

Í þessu samtali komst ég að því fyrir tilviljun að nota ætti myndefnið í fleiri miðlum, og augljóst var að ekki hafði staðið til að segja mér frá því, enda handritið allt byggt á lygum og blekkingum.

Að þessu loknu hringdi ég í ritstjóra þáttarins hjá SVT, téðan Nils Hanson.

Ég dreg enga dul á það að í þessu símtali kom ég á framfæri megnri óánægju minni með þessi óheiðarlegu vinnubrögð SVT. Ég var enda reiður og lái mér hver sem vill. Eða er einhver sem tæki því bara vel að láta ljúga markvisst upp í opið geðið á sér í símtölum, tölvupósti og persónulegum samtölum í tæpar tvær vikur?

Það er alveg rétt sem Hanson segir við Ríkisútvarpið að ég hafi sagt honum að ég hafi aldrei upplifað önnur eins vinnubrögð. Ég hef á síðustu átta árum farið sjálfur í og skipulagt fyrir aðra mörg hundruð viðtöl við íslenska og erlenda fjölmiðla, frá þeim smæstu hér heima til hinna stærstu á alþjóðavísu. Meirihluti þeirra samskipta hefur verið einkar ánægjulegur og faglegur þó að stundum hafi verið læst hornum um hitt og þetta eins og eðlilegt er.

Ég hef aldrei, aldrei, kynnst viðlíka óheiðarleika, virðingarleysi og lygum af hálfu fjölmiðlamanna gagnvart viðmælendum eða starfsfólki eins og SVT og Jóhannes Kristjánsson sýndu af sér í þessu tilfelli. Satt að segja á ég erfitt með að finna annað eins dæmi í lífi mínu almennt um fólk sem hefur sýnt af sér hegðun sem kemst í hálfkvisti við þetta.

Það vill til að fólk þarf ekki að taka mín orð fyrir því hvernig óheiðarleikinn var skipulagður í þaula, því að þeir félagar gátu ekki setið á sér að hreykja sér af því í sérstökum sænskum sjónvarpsþætti.

Nils Hanson segir að aðferðin hafi verið óvenjuleg. Ég segi að hún sé óheiðarleg.

Í þætti Kastljóss sagði Sven Bergmann um samtal mitt við Hanson að ég hafi „farið þess á leit við okkur að sýna ekki þann hluta viðtalsins“.

Það sýnir ágætlega hversu umhugað fólki er um að koma staðreyndum rétt á framfæri að í yfirlýsingunni í byrjun júní var ákveðið að gefa í með meira krassandi orðalagi og sagt að ég hafi „krafist þess að þeim hluta viðtalsins sem sneri að Wintris Inc, yrði eytt“.

Látum liggja milli hluta að ef ég myndi gefa tvær svo ólíkar yfirlýsingar  um sama hlutinn þætti það líklega fréttnæmt misræmi sem benti til ósanninda.

En þetta er bara rangt.

Hið rétta er að ég hringdi í Nils Hanson til að fá skýringar á framkomu sænska ríkissjónvarpsins gagnvart forsætisráðherra og mér sjálfum. Til að fá skýringar á því hvers vegna fréttamenn SVT hefðu logið að mér í tæpar tvær vikur og hvort að þetta væru að hans mati siðleg og heiðarleg vinnubrögð?

Ég spurði Hanson hvort SVT teldi að hagsmunum almennings væri best þjónað með slíkum aðferðum og hvort þeir hefðu í hyggju að birta myndefnið á þennan hátt? Ég lýsti þeirri skoðun minni að ég teldi það óheiðarlegt rétt eins og vinnubrögðin öll.

En ég bað ekki um neitt af því tagi. Því að ég vissi að ég hefði enga stjórn á því og að fátt myndi þessu fólki líklega þykja meira djúsí.

Hins vegar þótti mér ástæða til að nefna að Sven Bergman hefði lofað mér að ekki yrði birt myndefni af samtali mínu við hann sem tekið var upp án samþykkis. Vera má að Hanson rugli þessu tvennu saman.

 

Smávegis um öflun gagna og meðferð upplýsinga

Í yfirlýsingunni frá því í vor var það fullyrt að Sigmundur, ég og fleiri höfum ekki aflað gagna og reynt að svara spurningum. Það er rangt. Í fyrradag var búið að draga úr og sagt að “lykilspurningum” hefði ekki verið svarað.

Þeir sem skrifa undir þessar yfirlýsingar gætu t.d. rifjað upp að ég bað ítrekað fyrir hönd forsætisráðherra og eiginkonu hans um að fjölmiðlafólkið afhenti okkur eða leyfði okkur að sjá þau gögn sem þau höfðu undir höndum til að þau gætu kynnt sér gögnin og komið upplýsingum betur á framfæri.

Allir neituðu því.

Ég bað ritstjóra Kastljóss nokkrum sinnum um þetta og bað fréttastofu RÚV um það sama.

Alltaf kom neitun. Það var alveg skýrt að viðmælendur áttu ekki að fá að kynna sér það sem verið var að óska svara um.

Því þurfti að afla þessara gagna á tímafrekan hátt frá mörgum aðilum erlendis frá til að skýrt væri um hvað verið væri að spyrja. Mörg þessara skjala höfðu Sigmundur og Anna aldrei einu sinni séð. Þarna var því skýr aðstöðumunur milli þeirra sem spurðu og þeirra sem spurðir voru og tók auk þess töluverðan tíma, eins og ég nefndi í tölvupóstum og símtölum við flesta þessara aðila, suma ítrekað.

Í yfirlýsingunni frá í vor segir einnig að handrit þáttarins hefði orðið öðruvísi ef Sigmundur Davíð hefði útskýrt aðkomu sína að félaginu og að hann hafi kosið að gera það ekki.

Nú er það svo að í nútímanum eru fleiri aðferðir til að koma máli sínu á framfæri við fólk en í gegn um viðtöl við fjölmiðlamenn sem sýnt hafa af sér fádæma óheiðarleika í fyrri samskiptum.

Á Páskadag birtu Sigmundur og Anna tólf blaðsíðna yfirlit um aðkomu sína að félaginu þar sem farið var yfir hvers vegna og hvernig félagið var stofnað, hvers vegna það var staðsett þarna, hvernig skattskilum af eignum og tekjum var háttað, hvernig eignarhaldi félagsins var háttað, hvernig og hvers vegna skráð eignarhald var lagfært árið 2009, hvernig hagsmunaskráningu gagnvart Alþingi var háttað, hvort eignir félagsins hefðu áhrif á hæfi forsætisráðherra, hvernig kröfur félagsins á gömlu bankana voru tilkomnar, hvenær þær urðu til, hvert áætlað tjón af þeim væri og margt fleira.

Áður (þann 15. mars) var komin fram staðfesting frá endurskoðendum þeirra hjóna hjá KPMG á því að félagið, eignir þess og tekjur hefðu frá upphafi verið færð á skattframtöl á Íslandi og greiddur af þeim skattur.

Þeir sem horfðu á Kastljósþáttinn sáu hvernig var farið með þessar upplýsingar þar. Ekki var t.d. minnst orði á formlega staðfestingu KPMG á skattgreiðslum, þó meint skattsvik væru lykilatriði í þættinum. Og úr því minnst var á lykilspurningar má benda á að lykilspurningin sem þessir aðilar spurðu oftast var hvort að skattar hefðu verið greiddir af eignunum? Undirrituð yfirlýsing KPMG svaraði þeirri spurningu strax.

Síðan þá hafa svo verið birtar ítarlegar upplýsingar úr skattframtölum þeirra hjóna þar sem fram koma skattgreiðslur þeirra mörg ár aftur í tímann. Þær upplýsingar eru í fullu samræmi við upphaflega yfirlýsingu KPMG og skattayfirvöld hafa ekki séð neina ástæðu til að gera athugasemdir við þær.

Breska blaðið Guardian, sem hafði aðgang að öllum sömu upplýsingum og Kastljós, SVT og RME birti umfjöllun sína sama dag s.l. vor. Þar á bæ þótti blaðamönnum hins vegar ástæða til að taka sérstaklega fram að Guardian hafi ekki séð neinar sannanir fyrir skattaundanskotum eða óheiðarlegum ávinningi Sigmundar Davíðs, Önnu Sigurlaugar eða Wintris.

The Guardian has seen no evidence to suggest tax avoidance, evasion or any dishonest financial gain on the part of Gunnlaugsson, Pálsdóttir or Wintris. … There is no suggestion of tax avoidance in the case of Wintris

Eitt dæmi um meðferð upplýsinga langar mig að nefna.

Í vikunni áður en Kastljósþátturinn var sýndur barst mér tölvupóstur þar sem fyrrverandi starfsmaður Landsbankans í Lúxembúrg vildi koma því á framfæri að starfsmaður Kastljóss hefði haft samband við hann til að spyrja hvort það gæti verið rétt sem Sigmundur og Anna sögðu, m.a. um að bankinn hefði gert mistök við stofnun félagsins þegar það var skráð á þau bæði?

Bankamaðurinn sagði að hann hefði staðfest það, vel gæti verið að bankinn hefði gert mistök og að hann hafi m.a. farið yfir hvernig þeirri vinnu var háttað á sínum tíma þar sem BVI félög voru almenn ráðgjöf bankans, sem og að benda t.d. á þar sem eigandinn hefði átt kröfu á félagið á móti eignum hefði hlutafé þess verið verðlaust.

Með öðrum orðum þá staðfesti þessi starfsmaður bankans orð Sigmundar og Önnu.

Ég sendi í kjölfarið tölvupóst á ritstjóra Kastljóss þar sem ég benti meðal annars á að ég hefði fengið upplýsingar um þetta samtal. Í svari ritstjóra Kastljóss var engum mótbárum hreyft við því. Ég kom einnig á framfæri þeirri skoðun minni að í umfjöllun þáttarins hlyti því að verða tekið tillit til þessara upplýsinga og að það hlyti að koma fram að frásögn þeirra hjóna hefði verið staðfest af þriðja aðila. Í svarinu var ekki minnst á þetta.

Enda kom á daginn að algerlega var litið fram hjá þessari staðfestingu í þættinum.

Aftur þarf ekki að taka mín orð fyrir þessu. Þann 9. apríl birti blaðamaður Morgunblaðsins, eftir samtal við bankamanninn sem um ræðir, að þegar svörin til starfsmanns Kastljóss hefðu ekki verið á þann veg sem hentaði hafi ekki verið brugðist vel við því:

„Blaðamaður ræddi við sérfræðing í erlendri fjármálamiðstöð, sem sjónvarpsfólk á RÚV ræddi við, sem sagði það ekki hafa haft áhuga á upplýsingum sem ekki studdu þeirra nálgun að málefninu.“ – Morgunblaðið 9. apríl 2015, bls 4.

Lærum af þessu

Það hefur mikil umræða farið fram um traust í samfélaginu að undanförnu. Traust byggir á heiðarleika og virðingu manna á milli. Ég get sagt það persónulega að traust mitt á þeim sem fóru fram svo óheiðarlega í samskiptum við mig, eins og að ofan er lýst, er ekki mikið. Ég á þess vegna svolítið bágt með að gleypa þetta með geislabauginn og vængina.

Á sama hátt veit ég að ég hef ekki gert allt rétt og mun gera mitt besta til að vinna traust fólks sem ég vinn með og hef samskipti við í mínu starfi, jafnt fjölmiðlafólks og annarra.

Varðandi ágreining okkar Nils Hansonar um símtalið bendi ég á að það er hann sem hefur borið ábyrgð á, og fjölmiðill hans hreykt sér af, markvissum lygum í minn garð en ekki öfugt. Fólk verður svo að gera upp við sig sjálft hvorum okkar það trúir.

Fólk sem vinnur við stjórnmál er ekki óskeikult. Ég er það sannarlega ekki og geri fullt af mistökum sem ég reyni að læra af, biðjast afsökunar á og bæta mig.

En fólk sem vinnur við fjölmiðla er það ekki heldur.

Þegar ég hef nefnt yfirlýsingu endurskoðenda KPMG um skattgreiðslur hef ég merkilega oft heyrt fréttamenn segja eitthvað á þá leið að það sé lítið mark takandi á því, ég verði að gera mér grein fyrir því að öll endurskoðendastéttin hafi beðið afhroð í hruninu. Það þykir mér nokkuð djörf staðhæfing.

Og mér hefur flogið í hug þegar þetta er nefnt við mig að ef þetta eru rökin sem fjölmiðlafólk tekur sér í munn til að afskrifa trúverðugleika heillar stéttar manna og neita að taka mark á því sem þeir senda frá sér, ættu þeir sömu mögulega að staldra við og líta í eigin barm og fletta upp köflunum um fjölmiðla í Rannsóknarskýrslu Alþingis um hrunið.

Við höfum nefnilega öll gott af að bæta okkur.

 

Athugasemdir:

Leave a Reply