Vill hinn raunverulegi Ólafur Jón Sívertsen vinsamlegast standa upp?

Fréttagúrkan getur af sér sitthvað skemmtilegt.

Einn af pistlahöfundum fréttaveitunnar Hringbrautar er hinn yfirlýsingaglaði Ólafur Jón Sívertsen. Honum er mjög í nöp við ríkisstjórnina enda fjalla nánast allir pistlar hans um hana á einhvern hátt. Þá fer Ólafur Jón þessi  ekki í grafgötur með að hann hafi sérstakan ímigust á Framsóknarflokknum.

Hinn geðþekki dagskrár- og ritstjóri Hringbrautar, Sigmundur Ernir Rúnarsson, fyrrum alþingismaður Samfylkingarinnar, hefur nokkrum sinnum skrifað fréttir úr pistlum Ólafs þessa.

Tvær þeirra tróna nú á forsíðu fréttamiðilsins og báðar fara þær lofsamlegum orðum um téðan Ólaf Jón og gefa orðum hans vægi, segja hann sérlegan innanbúðarmann í utanríkismálum og diplómasíu.

Þetta er athyglivert, ekki síst þar sem það er t.d. nokkuð augljóst að það sem hinn leyndardómsfulli Ólafur Jón skrifar um nýlega Brusselför forsætisráðherra, og Hringbraut birti sérstaka frétt upp úr, er ósköp skringilegt rugl.

Jafnvel í samanburði við suma aðra sem reglulega reyna að gera flest sem snýr að samskiptum ríkisstjórnarinnar við Evrópusambandið tortryggilegt á hæpnum forsendum er þetta satt að segja alveg grátlega lélegt stöff.

Það er því frekar spes að sjá hinn reynda Sigmund Erni vitna í slíkt þunnildi með svo uppskrúfuðum hætti. Það verður ekki minna undarlegt þegar til þess er litið að umtalaður Ólafur Jón Sívertsen virðist barasta ekki vera til.

Nú er það reyndar  svo að ég hef svolítið gaman af dularfullum gátum. Las enda Dularfullu bækurnar og Nancy Drew upp til agna í æsku. Frank og Jóa og Ævintýrabækurnar í bílfömum. Svo ég setti upp Enid Blyton svipinn, hugsaði um hvað matur bragðast alltaf betur þegar maður borðar úti, og gerði smá leit að  manninum.

En það var stutt gaman. Hann bara  finnst ekki, hvorki hér á landi né í Svíþjóð þar sem hann þó segist í pistlum sínum hafa alið manninn í tugi ára. Hvorki þjóðskrá né internetið virðast kannast við að til sé maður með þessu nafni.

Myndin af Ólafi Jóni Sívertsen á vef Hringbrautar er enda skv. internetinu eina myndin sem til er af honum og merkilegt nokk eru vefir Hringbrautar eini staðurinn á internetinu öllu þar sem þessi mynd hefur birst. Sama má segja um nafn mannsins. Það virðist hvergi til nema á Hringbraut.is.

Þá datt mér í hug að senda honum póst, enda auðvitað best að spyrja fólk bara beint hvort það sé til í alvörunni. En viti menn, netfang hins leyndardómsfulla Ólafs, olafur@hringur.is, er ekki til heldur. Lénið hringur.is er reyndar til og skráð á Ingólf Örn Guðmundsson og í eigu Vina Hrings, hinna góðu hollvinasamtaka Barnaspítala Hringsins. Þess sjást hins vegar engin merki hví þessi Ólafur þykist eiga hjá þeim póstafdrep.

Nú er það vel þekkt að reglulega dúkka upp alls konar platmenni í stjórnmálaumræðunni. Facebook og kommentakerfi fjölmiðlanna eru full af slíkum draugum, sem yfirleitt hafa þann tilgang að segja eitthvað sem alvöru fólk vill ekki af ýmsum ástæðum segja undir eigin nafni.

En ég man ekki til þess að það hafi gerst áður að fjölmiðill veiti pláss slíkum platpistlahöfundi innan um vel þekkt andlit og skrifi ofaníkaupið sérstakar fréttir upp úr pistlunum þar sem reynt er að skrúfa upp vægi hans í umræðunni. Það er merkileg nýbreytni.

En svo er það auðvitað alveg mögulegt að ég hafi ekki lesið dularfullu bækurnar nægilega vel og að Ólafur Jón sé alveg til eftir allt saman, en sé bara svo óvenju hæfileikaríkur í feluleik að internetið finnur hann ekki. Það er því vissara að hafa vaðið fyrir neðan sig og biðja Sigmund Erni og félaga á Hringbraut um að koma þessum skilaboðum til feluleikjameistarans:

Vill hinn raunverulegi Ólafur Jón Sívertsen vinsamlegast standa upp?

Athugasemdir: