Traustur vinur kvikmyndagerðar

Björn B. Björnsson kvikmyndagerðarmaður skrifar furðulega grein í Fréttablaðið á föstudag þar sem staðreyndum um stuðning ríkisins við kvikmyndagerð er enn og aftur snúið á haus. Björn nefnir helst þrennt sem rök fyrir því að Framsókn og ríkisstjórnin hafi komið illa fram við kvikmyndagerð:

  1. Að ríkistjórnin hafi staðið fyrir gríðarmiklum niðurskurði til kvikmyndasjóða og að sá niðurskurður standi enn yfir. 
  2. Að viðvarandi óvissa ríki um kvikmyndagerð á Íslandi vegna þessa niðurskurðar
  3. Að þingmenn og ráðherrar Framsóknar hafi ekki staðið við það sem þeir sögðu

Byrjum á fyrsta atriðinu. Fyrir nokkru síðan skrifaði ég pistil um framlög til kvikmyndagerðar þar sem ég sýndi fram á að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hlytu að laða að fleiri erlenda kvikmyndagerðarmenn til Íslands en ekki færri. 

Í þeim pistli birti ég þessa mynd, sem sýnir að ef frá er talið 450 milljóna aukaframlag vegna fjárfestingaráætlunar ríkisstjórnarinnar árið 2013 (rauða súlan) hafa framlög ríkisins til kvikmyndasjóða aldrei verið hærri á fjárlögum en á þessu ári. Árið 2015 hækka framlögin enn og verða 724,7 milljónir.  

Framlög til kvikmyndasjóða 2001-2014 deilt

Það er einfaldlega ekki hægt að nota árið 2013 sem eðlilegt viðmið um framlög í kvikmyndasjóði. 

Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2013 gerði aðeins ráð fyrir 570 milljóna framlagi ríkisins, ekki þeim rúma milljarði sem fjárfestingaáætlunin bjó til og Björn Björnsson og fleiri hamast nú við að halda fram að skuli vera hið alltumlykjandi viðmið. 

Fjárfestingaáætlunin, og þar með þessi mörg hundruð milljóna hækkun, var ófjármagnað risakosningaloforð Samfylkingar og Vg. Það fyrsta sem ný ríkisstjórn þurfti að glíma við var að þetta kosningaloforð var ekki í neinu sambandi við raunveruleikann í ríkisfjármálunum, eins og skýrt hefur komið fram síðan. Það var því aldrei innistæða fyrir sjálfkrafa framlengingu á þessu og alls ekki hægt að nota slíka augljósa einsskiptisaðgerð sem eðlilegan samanburð um framlög á fjárlögum til kvikmyndasjóða til framtíðar.

Þrátt fyrir það var ákveðið að hækka framlög í kvikmyndasjóði í frumvarpi til fjárlaga 2014 miðað við það sem verið hafði í fjárlagafrumvörpum 2012 og 2013. Staðreyndin er því sú að framlög til kvikmyndasjóða í frumvarpi til fjárlaga hafa aldrei verið hærri í sögunni en á árunum 2014 og 2015.  

Annað atriðið sem Björn talar um er að óvissa ríki um kvikmyndagerð vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar. Það er einfaldlega ekki rétt. Óvissa myndi mögulega ríkja ef framlög til kvikmyndasjóða væri á miklu flakki upp og niður milli ára. Það eru þau ekki, því að ef frá er talin sveiflan vegna aukaframlags fjárfestingaráætlunarinnar hafa framlög til kvikmyndasjóða hækkað mjög stöðugt, eins og myndin hér að ofan sýnir augljóslega.

En óvissa myndi mögulega ríkja þrátt fyrir þessa stöðugu hækkun ef stjórnmálamenn töluðu um eða gæfu í skyn að skera þyrfti niður framlög til kvikmyndagerðar. Það er hins vegar þvert á móti mikil samstaða um það milli nánast allra stjórnmálamanna að það sé skynsamlegt að styrkja kvikmyndagerð enn frekar.

Varðandi þriðja atriðið skil ég hreinlega ekki hvað Björn er að tala um. Framsókn hefur stöðugt stutt kvikmyndagerð og minnt á mikilvægi hennar síðastliðin ár og ætíð talað fyrir meiri stuðningi ríkisins við greinina, bæði hvað varðar framlög til kvikmyndasjóða og varðandi endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar.

Í þingsályktunartillögunni sem Björn vísar í mótmæltu þingmenn Framsóknar því að framlög í kvikmyndasjóði voru skorin niður í 450 milljónir, í stað þeirra 700 milljóna sem samkomulag um eflingu íslenskrar kvikmyndagerðar (2007-2010) gerði ráð fyrir. Þingmennirnir hvöttu til þess að samkomulagið yrði tekið upp að nýju og framlögin færð í 700 milljónir eins og gert hafði verið ráð fyrir.

Núna, á vakt Framsóknar, eru þessi framlög til kvikmyndasjóða komin yfir 700 milljónir, eru 724,7 milljónir á fjárlögum ársins 2015.

Þar að auki er gert ráð fyrir að endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar hækki um 300 milljónir á næsta ári og verði rúmar 1137,2 milljónir.

Þingmenn og ráðherrar Framsóknar hafa því staðið við það sem þeir sögðu.

Og eiginlega rúmlega það, því að þetta þýðir nefnilega að samanlögð framlög ríkisins til kvikmyndasjóða og endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar á árinu 2015 eru tæpir tveir milljarðar, eða 1861,9 milljónir. Það gefur færi á athygliverðum samanburði, því að samanlögð framlög ríkisins til þessara tveggja liða á árinu 2013 (sem Björn og fleiri vilja miða við) voru 1870 milljónir.

Því er staðreyndin sú að ef miðað er við þessa tvo liði eru framlög ríkisins árið 2015 aðeins 8 milljónum lægri en árið sem búið var til sérstakt 450 milljóna aukaframlag upp úr engu. Það eru 8 milljónir af tæpum tveimur milljörðum eða rétt um 0,4%. Það er nú allur niðurskurðurinn á fjárlögum 2015,

Þessi staðreynd segir mjög sterka sögu um skýran vilja ríkisstjórnar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks til að styðja mynduglega við bakið á kvikmyndagerð á Íslandi og sýnir einfaldlega að fullyrðingar Björns um geigvænlegan niðurskurð byggja á einhverju öðru en staðreyndum.

Við þetta má svo bæta, vegna þess að Björn nefnir til samanburðar að Rannsóknasjóður og Tækniþróunarsjóður hafi fengið aukin framlög á ný en ekki kvikmyndagerð, að framlög í Rannsóknasjóð aukast um 360 milljónir, framlög í Tækniþróunarsjóð aukast um 390 milljónir en framlög til kvikmyndagerðar, þ.e. kvikmyndasjóða og endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar, aukast um 400 milljónir.

Í lokin má því draga saman nokkrar staðreyndir sem Björn Björnsson og fleiri velunnarnar kvikmyndagerðar mættu að hafa í huga næst þegar þeim dettur í hug að sparka í Framókn:

  • Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar hækka um 300 milljónir á næsta ári
  • Framlög í kvikmyndasjóði hækka um 100 miljónir á næsta ári
  • Samtals hækka framlög ríkisins til kvikmyndagerðar því um 400 milljónir á næsta ári
  • Frá því þessi ríkisstjórn tók við
  • Framlög í kvikmyndasjóði árið 2015 eru 154 milljónum hærri en fyrri ríkisstjórn gerði ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi ársins 2013.
  • Milljarðurinn sem BJörn Björnsson miðar við var einsskiptisaðgerð byggð á afar sérstæðum og hæpnum forsendum.
  • Þrátt fyrir það eru framlög til kvikmyndasjóða og endurgreiðslu árið 2015 nánast jafn há og þau urðu að lokum árið 2013, eða tæpar 1870 milljónir.
  • Í þingsályktuninni sem Björn vísar til leggja þingmenn Framsóknar til að framlög í kvikmyndasjóði verði 700 milljónir á ári. Framlögin á næsta ári eru 724,7 milljónir
  • Það er engin óvissa um framlög ríkisins til kvikmyndagerðar. Þau eru nú þau hæstu sem þekkst hafa í fjárlagafrumvörpum nokkurrar ríkisstjórnar í sögunni. og hækka um 100 milljónir á milli ára. Forsætisráðherra, fjármálaráðherra og menntamálaráðherra hafa einnig lýst því yfir að ríkið hyggist áfram styðja myndarlega við kvikmyndagerð og um mikilvægi greinarinnar ríkir nokkuð góð sátt.

Þegar staðreyndirnar eru skoðaðar kemur nefnilega í ljós að Framsókn hefur reynst kvikmyndagerð á Íslandi traustur vinur.  

Athugasemdir: