Tekjujöfnuður á Íslandi 2014 var sá mesti frá upphafi mælinga

Hagstofa Íslands birti í morgun þá frétt að árið 2014 var tekjujöfnuður á Íslandi sá mesti frá upphafi mælinga. Þetta eru niðurstöður lífskjararannsóknar Hagstofunnar, þar sem fram kemur að tekjujöfnuður eykst milli áranna 2013 og 2014. Gini stuðullinn lækkar úr 24 niður í 22,7 (en var hæstur 29,6 árið 2009).

Gini stuðullinn 2014

Þetta eru frábær tíðindi og með þeim er rækilega staðfest að jöfnuður á Íslandi hefur aukist á þessu kjörtímabili. Hagstofan bendir á að ástæða þessa árangurs sé að ráðstöfunartekur þeirra sem hafi lægstar og miðtekjur hafi hækkað á meðan hæsti tekjuhópurinn hafi staðið í stað.

Einnig kemur fram í rannsókninni að árið 2014 mældist lægsta hlutfall fólks undir lágtekjumörkum eða í hættu á félagslegri einangrun sem mælst hefur síðastliðin tíu ár.

Í alþjóðlegum samanburði árið 2013 er Ísland í öðru sæti yfir Evrópulönd þegar kemur að jöfnuði, aðeins Noregur var fyrir ofan okkur. Í þessum nýju tölum hefur Ísland færst á þann stað sem Noregur var þá – er með sama gildi jöfnuðar og efsta landið á listanum var árið áður.

Þetta eru afar góðar fréttir.

Niðurstöðurnar sýna að Íslendingar geta borið höfuðið hátt þegar kemur að samanburði við nágrannaþjóðir um þessa þætti. Jöfnuður í samfélaginu er næstum sá mesti í Evrópu og hlutfall fólks undir lágtekjumörkum er næstum það minnsta í Evrópu. Það eru staðreyndir sem stundum gleymast í hinu daglega þrefi stjórnmálanna.

Þessi góði árangur á að vera okkur hvatning til að gera enn betur. Við viljum að sjálfsögðu vera efst í báðum þessum mælingum.

Athugasemdir: