Sveitarstjórnarmönnum fjarstýrt frá Alþingi?

Fulltrúar Bjartrar framtíðar á þingi og í sveitarstjórnum hafa helst barið sér á brjóst fyrir að stunda „ný vinnubrögð“ í stjórnmálum. Stundum hefur þótt vanta útskýringu á því í hverju „nýju vinnubrögðin“ séu fólgin. Helst hefur á Bjartri framtíð skilist að „ný vinnubrögð“ séu „ekki gömlu vinnubrögðin“ – án þess að það sé útskýrt nánar.

Til að skilja hvað felst í þessum nýju vinnubrögðum Bjartrar framtíðar er því álitlegast að leita dæma í verkum þingmanna og sveitarstjórnarfulltrúa flokksins.

Nýjasta dæmið er að finna í umfjöllun umhverfis og samgöngunefndar Alþingis um frumvarp forsætisráðherra um verndarsvæði í byggð. Þar gerðist það á fundi í síðustu viku að umsagnaraðilar komu fyrir nefndina. Á fundinum kom fram að skipulagsráð Hafnarfjarðar hefði daginn áður skilað jákvæðri umsögn til Alþingis um frumvarpið og stutt það (eins og fram kemur í fundargerð ráðsins frá 5. maí):

16. 1504390 – Frumvarp til laga um verndarsvæði í byggð, 629. mál til umsagnar
Niðurstaða fundar:
Skipulags- og byggingarráð styður frumvarpið. Í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-20125 eru slík svæði skilgreind sem hverfisverndarsvæði.
http://www.hafnarfjordur.is/stjornkerfi/fundargerdir/DisplayMeeting.aspx?id=1504008F

Þá brá hins vegar svo við á nefndarfundinum að Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar tjáði fundarmönnum að það væri nú ekki bitið úr nálinni með þetta, hann væri þá þegar í sambandi við Hafnarfjörð um málið (þar sem Björt framtíð er í meirihluta í bæjarstjórn) og sagði óvíst að þetta yrði endanleg niðurstaða.

Og viti menn. Strax morguninn eftir eftir var haldinn sérstakur fundur í skipulagsráði Hafnarfjarðar þar sem umsögn bæjarins um frumvarpið var eina málið á dagskrá. Á fundinum var jákvæða umsögnin um frumvarp forsætisráðherra dregin til baka af óútskýrðum ástæðum. Þvínæst var fundi slitið.

1. 1504390 – Frumvarp til laga um verndarsvæði í byggð, 629. mál til umsagnar
Niðurstaða fundar:
Skipulags- og byggingarráð dregur umsögn sína dags. 5. maí sl. til baka og gefur ekki umsögn um málið.
http://www.hafnarfjordur.is/stjornkerfi/fundargerdir/DisplayMeeting.aspx?id=1505004F

Það er því augljóst að hin nýju vinnubrögð Bjartrar framtíðar virðast meðal annars felast í því að þegar fram koma frumvörp frá pólitískum andstæðingum Bjartrar framtíðar tali þingmenn Bjartrar framtíðar sérstaklega við sveitarstjórnarmenn Bjartrar framtíðar til að sjá til þess að jákvæðar umsagnir um þau frumvörp séu dregnar til baka.

Þetta heitir á íslensku að alþingismenn handstýri umsögnum sveitarfélaga til að þær henti pólitískum markmiðum.

Það er með elstu verkfærum í kistu klækjastjórnmálanna.

Athugasemdir: