Steingrímur Joð gasprar um Icesave

Steingrímur J. Sigfússon virðist nú enn og aftur vera að reyna að endurskrifa söguna varðandi Icesave málið og fjárhagslegar afleiðingar þeirra samninga um málið sem hann og Svavar Gestsson stóðu fyrir árið 2009.

Í umræðum á þingi í dag reynir hann að slá ryki í augu fólks varðandi fjárhæðirnar og um leið kasta rýrð á skuldaleiðréttingar ríkisstjórnarinnar. Steingrímur segir:

Það er ágætis samanburður ef við segjum að miðað við síðustu útreikninga, núvirta útreikninga fjármálaráðuneytisins, á því hvað upphaflegi Icesave samningurinn hefði kostað, voru það um 70 milljarðar króna.

Svo bætir hann við að kostnaður við skuldaleiðréttingar ríkisstjórnarinnar muni kosta um 150 milljarða, séu sem sagt miklu dýrari en Icesave!

Þetta er stórkostlega óforskammað hjá Steingrími.

Í fyrsta lagi ber hann saman núvirta tölu um Icesave (70 ma.) og ónúvirta tölu um skuldaleiðréttingar (150 ma.) . Það er eins og að bera saman epli og appelsínur og til þess eins gert að afvegaleiða umræðuna Steingrími í hag.

Í öðru lagi segir hann ekkert um á hvaða prósentu þessi undarlega Icesave tala hans er núvirt. Í kynningu á Svavarssamningunum var gert ráð fyrir 6% núvirðingu, sem flestir gagnrýnendur samningsins voru sammála um að væri algerlega óraunhæf forsenda.

Í þriðja lagi þarf að spyrja hvaðan þessi 70 milljaðra tala verður til. Í kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins sem gert var sérstaklega að ósk (og eftir forskrift) Svavar Gestssonar frá 7. maí 2012  kemur fram að heildar vaxtakostnaður við Svavarssamninginn (sem Steingrímur er að vísa í) hefði verið 248 milljarðar króna og hreinn kostnaður ríkissjóðs þar af a.m.k. 211 milljarðar. Núvirtur hreinn kostnaður (m.v. 6%) skv. þessum útreikningum fjármálaráðuneytisins hefði verið a.m.k. 137 milljarðar.

Eins og sjá má í töflunni hér að neðan er  í þeim tölum gert ráð fyrir rúmlega fullum endurheimtum í þrotabú Landsbankans og núvirðingu m.v. 6%. Það væri því ágætt ef Steingrímur benti á það hvernig þessi núvirta kostnaðartala (sem verður fyrst og fremst til vegna vaxtagreiðslna) hefur lækkað um 67 milljarða síðan þann 7. maí 2012? Í hvaða nýju útreikninga fjármálaráðuneytisins er hann að vísa í?

Icesave kostnaður SG

Í fjórða lagi sést af þessu að ef Steingrímur ætlar að bera saman sambærilegar kostnaðartölur, ónúvirtar, vegna Svavarssamningsins annars vegar og skuldaleiðréttinga hins vegar þá er samanburðurinn svona:
Svavarssamningurinn:  248 milljarðar,
Skuldaleiðréttingar:      150 milljarðar.

Í fimmta lagi, og þetta er grundvallaratriði, er Steingrímur að bera saman annars vegar 248 milljarða greiðslur í erlendum gjaldeyri úr ríkissjóði og TIF, út úr landinu til erlendra kröfuhafa Landsbankans, krónur sem þá nýtast ekki nokkrum manni á Íslandi framar, tapað fé.

Hins vegar er um að ræða 150 milljarða skuldaleiðréttingar, beina lækkun á höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána heimila í landinu og möguleika á skattlausum húsnæðissparnaði, þar sem krónurnar koma íslenskum heimilum og almenningi til góða með beinum hætti og haldast inni í hagkerfinu, valda margfeldisáhrifum og örva efnahagslífið. 

Það er ekkert annað en hreinn og klár blekkingarleikur úr pontu Alþingis ef Steingrímur J. Sigfússon ætlar í alvöru að reyna að telja almenningi trú um að fyrri kosturinn hefði nýst þeim betur en sá síðari!

Að lokum má svo skjóta því inn hér að nú þegar fréttir eru fluttar af því vandamáli sem Landsbankaskuldabréfið er fyrir greiðslujöfnuð Íslands ættu menn máske að rifja það upp á hvers vakt það vandamál varð til og hvernig var að gerð þess staðið af sama valdafólki og stóð að Svavarssamningunum.

 

 

 

 

Athugasemdir: