(Nýjustu) útúrsnúningar andstæðinga forsætisráðherra

Kjartan Atli Kjartansson fyrrum frambjóðandi Bjartrar framtíðar og blaðamaður Vísis er duglegur að skrifa fréttir af Evrópusambandsmálum. Í dag birtir hann frétt þar sem Eiríkur Bergmann snýr á herfilegan hátt út úr orðum forsætisráðherra á þingi í dag.

Það er alveg ljóst að frjálst flæði fjármagns er eitt af fjórfrelsinu svokallaða innan ESB og EES. Það stendur heldur ekki til að slaufa því.  Þetta vita allir sem á annað borð fylgjast eitthvað með Evrópumálum eða efnahagsmálum. Þetta veit forsætisráðherra að sjálfsögðu mæta vel og það er alveg ljóst að Eiríkur Bergmann hefur frjótt hugmyndaflug ef hann heldur í alvöru að forsætisráðherra viti þetta ekki.

Því kemur það verulega á óvart að einhver haldi að augljósir útúrsnúningar eins og í þessari frétt standist skoðun.

Takmarkanir á flæði krónunnar eins og annarra gjaldmiðla er eitthvað sem hefur verið til umræðu frá því að fjármálakrísan hófst. Umræðan, og orð forsætisráðherra á Alþingi í dag, snýst ekki um eiginleg höft heldur hvort það eigi að hafa einhverjar hraðahindranir í flæðinu.

Hagfræðingar hafa notað samlíkinguna um olíuflutningaskip þar sem olíunni er skipt í hólf svo að hún hendist ekki frá einum stað til annars og skapi óstöðugleika. Þarna er einkum verið að tala um flæði milli fjármálastofnana og milli seðlabanka og viðskiptabanka. Þegar forsætisráðherra talaði um að ESB væri að skoða slíka hluti á hann við einmitt það en ekki að til standi að ESB setti á landamærahindranir á fjórfrelsið innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Þessi umræða snýr því annars vegar að flæði fjármagns í kerfinu óháð landamærum innan ESB/EES og hins vegar að flæði milli landa þar sem ESB virkar eins og eitt land. Það var enginn að tala um að ESB ætli að leggja fjórfrelsið af, síst af öllu forsætisráðherra.

Ummæli forsætisráðherra sem Eiríkur Bergmann snýr út úr koma fram í fréttinni. Þau eru svona:

“Evrópusambandið sjálft er að fara í gegnum það hvort hið algjörlega takmarkalausa flæði fjármagns milli landa kunni ekki að vera hættulegt og rótin af fjármálakrísunni sem stóð frá árinu 2007 og jafnvel fram á þennan dag.”

Þetta kemur einmitt ágætlega fram í þessari skýrslu hér, Capital flows in the Euro Area. Hún fjallar um efni þessu tengd og er gerð fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (DG ECFIN) í apríl í fyrra. Í niðurstöðukafla hennar segir m.a.

The extraordinary boom in debt-creating capital flows during the 2003-2007 pre-crisis period was a major contributory factor to the current crisis in the euro area. In turn, the subsequent behaviour of capital flows has been central in understanding the amplitude and transmission of the crisis itself. … Our empirical analysis highlights some important points. In terms of the pre-crisis period, the surge in cross-border debt flows outstripped equity flows, such that risk- absorbing capacity was compromised. Identifying the sources of the general complacency about financial risk during this period (across the advanced economies and across both creditor and debt countries) warrants further investigation and reinforces the case for a more robust macro-financial surveillance framework at both national and international levels.

Ég er nú yfirleitt tiltölulega seinþreyttur til vandræða en það er hreint óþolandi að búa við að það sé aftur og aftur snúið út úr einföldum hlutum sem forsætisráðherra segir á þennan hátt. Það virðist vera orðið einhvers konar sport hjá fámennum hópi að gera orð hans tortryggileg af engu tilefni. Jafnvel hátíðarræður og hefðbundin orðræða um samtakamátt þjóðarinnar fær ekki frið fyrir svona kafbátahernaði.

Þegar menn til dæmis tapa sér yfir því þegar Sigmundur Davíð segir efnislega það sama og Vigdís Finnbogadóttir sagði í mörgum ræðum sínum virðist augljóst að það skipti ákveðinn hóp fólks meira máli hver segir hlutina en hvað er sagt.

Og svo veigrar maður sér við því að benda á útúrsnúningana í hvert sinn vegna þess að þá er básúnað að maður sé sívælandi og það sé nú ekki mark takandi á því þegar bévaður “spunameistarinn” opnar á sér túlann. Það verður væntanlega líka sagt um þennan pistil. Svona er nú pólitíkin skemmtileg.

En það kemur ekki til greina að ég láti það fljúga í þetta sinn að Vísir geti birt frétt sem snýr sannleikanum á haus með þessum hætti upp úr engu án þess að nokkur maður bendi á delluna.

Það sem forsætisráðherra sagði á þingi í dag var einfaldlega rétt.

 

Hinir leyndardómsfullu leyndardómar ráðgjafahópsins

Stundum er undarlega bjánalegt hvernig fréttir eru settar fram og hvernig miðlarnir virðast í sumum tilfellum ljósrita skringilegheitin hver eftir öðrum án þess að pæla mikið í innihaldinu.

Í dag hafa t.d. gengið fréttir um að ráðgjafahópur um afnám fjármagnshafta hafi verið “skipaður með leynd” í nóvember. Þetta er jafnvel fullyrt á RÚV í kvöld, að ráðgjafar hafi verið “skipaðir með leynd”.

Orðalagið virðist eiga uppruna sinn í frétt Vsis frá því um miðjan daginn og dreifast þaðan út á aðra miðla eins og með kalkipappír. Ekki kemur það fram í svarinu við fyrirspurninni sem verið var að fjalla um, svo mikið er víst. Blaðamanni Vísis hefur mögulega þótt “Stjórnvöld skipuðu ráðgjafa með leynd” vera spennuþrungnari fyrirsögn og líklegri til að veiða músasmelli á internetinu en “Engin formleg tikynning send út um ráðgjafahóp”.

Nú man ég eftir nokkrum samtölum við áhugasama blaðamenn frá því í nóvember í fyrra (og síðar í janúar,) um þennan ágæta ráðgjafahóp þar sem ég var ekki að leyna því neitt sérstaklega að hann yrði skipaður. Blaðamennirnir og miðlarnir sem birtu fréttirnar upp úr þessum samtölum virtust hins vegar búnir að gleyma þeim í dag.

Til að það sé á hreinu þá var leyndin nú ekki meiri en svo að það voru fluttar af því fréttir í nokkrum miðlum í nóvember um að skipan þessa hóps væri á lokametrunum (til dæmis þessi hér: http://www.vb.is/frettir/98438/). Það var rætt um það í þessum fréttum hvert hlutverk hans væri og fjallað um þá sem skipaðir voru í hópinn. Ég man ekki betur en að Morgunblaðið hafi meira að segja slegið upp nöfnum ráðgjafanna og fjallað um þá í þessu samhengi.

Ótrúlega auðvelt er líka að finna fréttir frá byrun janúar þar sem ráðgjafarnir sex eru nafngreindir og fjallað um hlutverk þeirra, að þeir hafi fundað reglulega og að þeir muni leggja fram formlegar tillögur (til dæmis hér: http://ruv.is/frett/radgjafahopur-fundad-reglulega ). Google er góður vinur að eiga í nauð.

Ölu þessu virðast mínir ágætu vinir og kunningjar í blaðamannastétt bara hafa gleymt í dag. Skyndilega var þetta allt hulið einhverri heimatilbúinni og dularfullri leynd.

Kommon.

Það var vissulega ekki send út nein formleg tilkynning um skipan hópsins eða hlutverk hans en það er algerlega fráleitt að halda því fram að ráðgjafarnir hafi verið “skipaðir með leynd”. Þessi hópur og hlutverk hans hefur ekki verið neitt leyndarmál í marga mánuði. Allir sem fylgjast með fréttum gátu vitað af honum.

Já, og eitt enn.

Næst þegar orðhákurinn Björn Valur Gíslason sér ástæðu til að gerast stóryrtur og góla á þá sem nú standa í brúnni fyrir ógagnsæi, halda hlutum frá þingheimi og standa fyrir aðför að lýðræðinu, þá legg ég til að hann standi upp frá tölvunni, rölti yfir að speglinum og stari í hann í svolitla stund á meðan hann rifjar upp hversu mjög ríkisstjórninni sem hann studdi svo grimmilega á síðasta kjörtímabili var annt um að Alþingismenn og almenningur fengju alveg pottþétt ekki að sjá einn einasta stafkrók af Icesave samningunum hans Svavars Gestssonar sem hefðu gert íslenska ríkið gjaldþrota.

Við hin munum nefnilega ágætlega eftir því.

Skuldalækkun: Af dæmum og meðaltölum (heillandi fyrirsögn, ekki satt?)

Nokkur umræða hefur skapast um dæmið sem sett var fram í síðustu viku um möguleg áhrif leiðréttingar á heimili miðað við ákveðnar forsendur.

Eins og ég benti á í fyrri pistli þá er ómögulegt að setja fram dæmi sem dugar fyrir öll tilvik, hvert tilvik er einstakt. Í slíkum útreikningum skiptir t.d. máli hvaða vextir eru á viðkomandi láni, hvenær það var tekið, hversu mikið lifir eftir af lánstímanum, hverjar eftirstöðvarnar eru nú, hvort fyrri aðgerðir hafa komið til og hvaða verðbólgu er reiknað með til næstu ára.

Þetta tiltekna dæmi er því sett fram út frá því að viðkomandi heimili hafi nægar tekjur til að geta nýtt sérseignarsparnaðarleiðina til fulls (1,5 milljónir) og að það fái um meðalhöfuðstólsleiðréttingu (1 milljón). 

Út frá ákveðnum lánstíma, ákveðnum vöxtum og ákveðnum verðbólguforsendum má þá gera ráð fyrir að ráðstöfunartekjur hækki um 22 þúsund krónur þegar leiðréttingin er öll komin fram.

Eins og gjarnt er um reikningsdæmi þá breytist niðurstaðan ef einhver af þessum tölum breytist. Þetta tiltekna dæmi er því aðeins það, eitt dæmi um það sem mögulega getur gerst. Af því er ekki hægt að ráða hvernig leiðréttingin reiknast út fyrir heimilin almennt.

Meðaltölur segja auðvitað aldrei alla söguna en gefa samt ákveðna hugmynd um hvað málið snýst.

 

 

Nýjustu fréttir: Sannleikur eða lygi?

Ótrúlegasta fólk er nú farið að éta upp delluna um að skuldaleiðréttingarnar séu minni en hafi verið lofað fyrir kosningar.

Sérstaklega er furðulegt að sjá þennan spuna stjórnarandstöðunnar fullyrtan af þaulreyndu fólki í blaðamannastétt, eins og Agli Helgasyni og tveimur fréttamönnum RUV.

Í Speglinum í gær fullyrti Arnar Páll Hauksson að leiðréttingin væri “minni en lofað var”. Í pistli í dag fullyrti Egill Helgason að það sé “deginum ljósara að skuldaniðurfellingarnar séu ekki af þeirri stærðargráðu sem var lofað fyrir kosningar”. Og í Kastljósi í kvöld fullyrti Þóra Arnórsdóttir að skuldaleiðréttingin sé minni en lofað var fyrir kosningar.

Allt eru þetta rangar fullyrðingar. Það er eitt að fréttamenn vísi í málflutning stjórnmálamanna og annað að þeir fullyrði sjálfir á þennan hátt í fréttaskýringum og spurningum.

Þessar furðulegu fullyrðingar vísa í lygina um að lofað hafi verið 300 milljarða niðurfærlsu lána og sérstaklega að Sigmundur Davíð hafi lofað einhverju slíku. Það er einfaldlega rangt.

Lítum á nokkrar staðreyndir varðandi þennan spuna.

1. Hvergi er minnst á 300 milljarða (eða aðrar tölur í þessu samhengi) í kosningastefnu eða upplýsingaefni Framsóknarflokksins frá því fyrir kosningar. Þar stendur aðeins: “Við viljum að svigrúm sem skapast við uppgjör þrotabúa bankanna verði nýtt til að leiðrétta stökkbreytt verðtryggð húsnæðislán.” Þannig var “stóra loforðið” orðað.

Nú er frumvarp um leiðréttingu komið inn í þingið með ákveðnum millileik sem byggir á skattlagningu. Þegar svigrúmið skapast munum við nýta það til að vinna hraðar niður leiðréttingarhluta lánanna. Það er því einfaldlega verið að efna þetta loforð.

2. Frambjóðendur Framsóknar lofuðu ekki 300 milljörðum í skuldaniðurfærslu í málflutningi sínum fyrir kosningar. Þeir tóku skýrt fram að dæmið væri mun flóknara en árið 2009 og því væri ekki hægt að negla niður ákveðna prósentu eða heildartölu. Það yrði að koma í ljós þegar væri farið að reikna þetta út. Þetta vissum við. Þess vegna sögðum við það svona, einmitt til að lofa ekki einhverju sem við gætum ekki staðið við.

Hvaðan kemur þá spuninn um 300 milljarðana?

3. Talan 240  milljarðar kom inn í umræðuna fyrir kosningar eftir að einhver reiknaði út að verðtryggðar húsnæðisskuldir væru í heild 1200 milljarðar og 20% af því væru 240 milljarðar. Það var nú ekki flóknara. Talan 300 milljarðar komst á flug með bloggum Össurar Skarphéðinssonar og málflutningi Samfylkingarinnar sem hélt því fram að Framsókn lofaði 20% niðurfærslu lána og blandaði því svo við umræðuna um svigrúmið vegna bankanna. Eins og er rakið hér að ofan var það beinlínis rangt. Engri ákveðinni prósentu var lofað fyrir kosningar 2013.

4. Í þættinum forystusætið á RUV, tveim vikum fyrir kosningar var Sigmundur Davíð þráspurður af Sigmari Guðmundssyni um vogunarsjóði og svigrúm sem gæti skapast við uppgjör þrotabúa bankanna. Hann var m.a. spurður hvort hann gæti ábyrgst það að við uppgjör þrotabúanna myndi skapast 300 milljarða svigrúm. Hann sagði að peningarnir væru til og að hann gæti ábyrgst að féð yrði notað til að koma til móts við heimilin.

Hvergi í þessum þætti segir Sigmundur Davíð að allir þessir 300 milljarðar, allt féð eða allt svigrúmið, yrðu notað í skuldaleiðréttingu. Hvergi. Ýmsir halda því samt fram að einmitt þarna hafi 300 ma. loforðið komið. En það þarf ekki annað en að horfa á þáttinn og hlusta á samhengi spurninga og svara til að heyra að það er beinlínis rangt. Í öðrum viðtölum og á fundum um allt land talaði Sigmundur Davíð svo um að svigrúmið mætti líka nýta til að greiða niður skuldir ríkisins.

Ég get alveg skilið að pólitískir andstæðingar grípi til þess sem betur hljómar til að koma höggi á ríkisstjórnina. Það er því miður landlægt í stjórnmálaumræðu.

En þetta er einfaldlega bein lygi. Rakalaus spuni.

Þess vegna er það ótrúlega aumt þegar reyndir fréttamenn eins og Arnar Páll Hauksson og Þóra Arnórsdóttir og einn reyndasti stjórnmálaskýrandi landsins Egill Helgason éta þetta upp gagnrýnilaust og fullyrða að lygin sé sannleikur.

Step your staðreyndatékk upp gott fólk.

Mig langar að bæta við þetta kafla úr pistli Marinó G. Njálssonar þar sem hann rekur vel hvers vegna 300 milljarða niðurfærsla lána hefði aldrei staðið til. Marinó segir:

300 milljarðar

Einhverjum datt í hug að tengja saman ummæli um að 300 milljarðar gætu verið til ráðstöfunar við það að allir þessi 300 milljarðar ættu að fara í leiðréttingu skulda.  Mér vitanlega, og hef ég fylgst mjög vel með umræðunni, þá hefur það aldrei staðið til.  Það sem meira er, að slík upphæð er langt umfram það sem þarf til að leiðrétta þann forsendubrest sem barist hefur verið fyrir að sé leiðréttur.

Tillögur Hreyfingarinnar um leiðréttingu verðtryggðra lána gekk út á að allar verðbætur umfram 2,5% á ári yrðu leiðréttar frá 1.1.2008 til 31.12.2012.  Þrátt fyrir lengra tímabil og meiri leiðréttingu, þá náði upphæð leiðréttinga “bara” upp í 250 ma.kr. og að teknu tilliti til annarra úrræða (að sérstökum vaxtabótum undanteknum) endaði upphæðin í 200 ma.kr.

Hugmyndir Hagsmunasamtaka heimilanna um leiðréttingu forsendubrests umfram 4,0% árlegar verðbætur gaf miðað við sama tímabil um 185 ma.kr. í leiðréttingu og að teknu tilliti til annarra úrræða (á sérstöku vaxtabótanna) væri upphæðin 135 ma.kr.

Það er því ljóst að aldrei hefur staðið til að 300 ma.kr. færu í þessa aðgerð.

Spurningin er því, hvað heyrðu Arnar Páll, Þóra og Egill sem við Marinó heyrðum aldrei?

Leiðréttingin komin til Alþingis

Þá hefur leiðréttingarfrumvörpunum loks verið dreift á Alþingi. Það er frábært að sjá þetta loks vera komið inn í þingið eftir alla vinnuna sem á bak við þau liggur. Nú ríður á að þau fari fljótt og vel í gegn um þinglega meðferð og verði samþykkt fyrir miðjan maí til að fólk geti farið að sækja um lækkun höfuðstóls og ráðstöfun séreignarsparnaðar.

Annars vegar er um að ræða beina höfuðstólslækkun og hins vegar möguleika á að lækka höfuðstól með skattfrjálsri nýtingu séreignasparnaðar. Samanlögð áhrif af þessum tveimur leiðum geta lækkað dæmigert húsnæðislán um 20 prósent.

Umsóknarferlið verður einfalt, Á vef RSK verður sett upp einföld gátt (á veffanginu leidretting.is) þar sem fólk getur notað veflykil Ríkisskattstjóra til að skrá sig inn. Svo þarf bara að gefa upp kennitölu og símanúmer og smella á takka. Þetta er í alvörunni svona einfalt.

Heildarumfang leiðréttingarinnar er um 150 milljarðar króna og aðgerðirnar ná til allt að 100 þúsund heimila, sem eru um 80 prósent allra heimila á landinu. Þetta er almenn aðgerð sem mun lækka greiðslubyrði heimilanna og auka ráðstöfunartekjurnar.

Tæplega helmingur af heildarumfangi höfuðstólsleiðréttingarinnar fer til heimila með árstekjur undir 4 milljónum og 60 prósent til heimila með árstekjur undir 8 milljónum.

Hlutfall fjárhæðar niðurfærslu og árstekna er hærra hjá tekjulægri heimilum en þeim tekjuhærri og meðalfjárhæð niðurfærslu hækkar eftir því sem börn á heimili eru fleiri.

Í dæminu hér að neðan lækkar greiðslubyrðin um 22 þúsund krónur á mánuði. Það munar um minna.

Það er auðvitað ómögulegt að setja fram dæmi sem ná yfir öll tilvik, en þetta er nokkurs konar meðaltilvik þar sem heimili með um 700 þúsund í sameiginlegar tekjur ná að nýta séreignarsparnaðinn að fullu og meðalupphæð beinnar höfuðstólsleiðréttingar er rúmlega 1.1 milljón. Meðaltöl segja auðvitað aldrei alla söguna en gefa samt hugmynd um hvað málið snýst.

Dæmi glæra 1 Dæmi glæra 2

Að auki felast í frumvörpunum ný hugsun í húsnæðismálum, þar sem þeim sem ekki hafa húsnæðislán býðst að njóta sömu skattaafsláttarkjara við söfnun séreignarsparnaðar til að nýta til húsnæðissparnaðar. Þetta kemur til dæmis fólki á leigumarkaði til góða.

Ef allt gengur eftir á Alþingi verður opnað fyrir greiðslu inn á séreignarsparnaðarúrræðin þann 1. júlí og umsóknir um höfuðstólsleiðréttingu þann 15. maí. Fólk ætti svo að sjá áhrifin strax í haust, þegar umsóknartímabilinu lýkur.

 

 

 

Híað til heimabrúks

Stundum er sagt að stjórnmálamenn segi eitthvað “til heimabrúks” í milliríkjadeilum. Þá er yfirleitt átt við að því sem sagt er sé ætlað að styrkja pólitískan málflutning viðkomandi stjórnmálamanns eða stjórnmálaflokks í stjórnmálastreðinu heima fyrir eða koma höggi á pólitíska andstæðinga, fremur en að tala fyrir sameiginlegum hagsmunum þjóðarinnar út á við.

Þetta þykir svona almennt séð ekki sérlega sterkt og oft á tíðum er minna mark tekið á viðkomandi stjórnmálamönnum og ummælum þeirra sem þannig tala heldur “til heimabrúks” en af skynsemi um mál í alþjóðlegu samhengi. Í sumum tilfellum getur slíkur kúrekaháttur jafnvel spillt fyrir meira en orðið er.

Oft á tíðum hafa íslenskir stjórnmálamenn gagnrýnt erlenda stjórnmálamenn fyrir þetta í málum sem hafa varðað hagsmuni íslensku þjóðarinnar á erlendum vettvangi. Ummæli skoskra stjórnmálamanna um makríldeiluna hafa t.d. stundum verið stimpluð “til heimabrúks” og þannig fundin léttvæg í umræðunni og jafnvel þótt skemma fyrir.

En þetta kemur líka fyrir íslenska stjórnmálamenn.

Árni Páll Árnason og Össur Skarphéðinsson hafa verið ötulir við heimabrúkið í ummælum sínum um makríldeiluna síðan í gærkvöldi. Báðir hafa þeir reynt að bera í bætifláka fyrir ESB en skella skuldinni á Noreg og Færeyinga og meinta vanhæfni íslenskra ráðherra.

Sko.

Í fyrsta lagi er þessi “þetta er okkur sjálfum að kenna” lína nú orðin svolítið þreytt.

Í öðru lagi eru það þrír aðilar sem eru sökudólgar í málinu, Noregur, ESB og Færeyjar. Þessi þrjú ríki semja sín á milli án Íslands. Það er óttalegt yfirklór að halda því fram að sökin liggi eitthvað meira eða minna hjá einum aðila ein hinum. Slíkt setja pólitíkusar bara fram “til heimabrúks”.

Í þriðja lagi voru það ekki ráðherrar eða stjórnmálamenn sem sátu í samninganefndinni sem tókst ekki að ná samningum heldur þrautreyndir samningamenn. Að skella skuld vegna undirferlis annarra ríkja við samningaborðið á ráðherra eða vanhæfni stjónmálamanna er því bara, já þið gátuð einmitt upp á því: “Til heimabrúks”.

Og í fjórða lagi hafa samninganefnd Íslands og ráðherrar sameiginlega haldið mjög vel á lofti skýrum málstað Íslands í allri þessari deilu, þ.e. að samningar um veiði á makrílstofninum skuli byggjast á sjálfbærum veiðum á vísindalegum grunni ráðgjafar alþjóða hafrannsóknaráðsins. Það er bara einföld staðreynd.

Og hér eru nokkrar staðreyndir í viðbót.

Áratugalöng og árangursrík reynsla Íslands af sjálfbærum veiðum byggðum á vísindalegri ráðgjöf hefur skilað mun betri nýtingu og ástandi fiskistofna við Ísland en hjá flestum öðrum þjóðum.

Í samningaviðræðum um nýtingu makrílstofnsins hefur Ísland alltaf lagt áherslu á samkomulag sem fylgir vísindalegri ráðgjöf til að tryggja sjálfbærar veiðar.

Veiðiráðgjöf Alþjóða hafrannsóknaráðsins (ICES) gerir ráð fyrir 890 þúsund tonna heildarafla makríls fyrir árið 2014.

Samkomulag Íslands og ESB fyrir síðustu samningalotu, á grundvelli sjálfbærra veiða, gekk út á að Ísland fengi aldrei minna en 11,9% leyfilegs heildarafla en til næstu tveggja ára yrði aflinn ekki minni en 123 þúsund tonn (13,8% af veiðiráðgjöf ICES fyrir 2014).

Samkvæmt því samkomulagi, og hækkuðum heildarafla skv. ráðgjöf ICES hefði heildarafli Norðmanna ekki verið skertur miðað við fyrri ár. Veiðar Íslands og Færeyja hefðu því ekki haft nein áhrif á heildarafla Norðmanna. Norðmenn vildu hins vegar meira og lögðu áherslu á að veitt yrði langt umfram veiðiráðgjöf ICES. Íslendingar lögðu áherslu á að virða vísindalega veiðiráðgjöf ICES.

Samningur ESB, Noregs og Færeyja nú gerir ráð fyrir 1047 þúsund tonna afla þessara ríkja, sem er 18% yfir heildarveiðiráðgjöf ICES. Þá á eftir að gera ráð fyrir veiðum Íslendinga, Rússa og Grænlendinga.

Það er því ljóst að samningur ESB, Noregs og Færeyja gerir ráð fyrir ofveiði á makrílstofninum. Ljóst er að heildarveiðin á stofninum getur skv. þessu farið meira en 50% fram úr vísindalegri ráðgjöf.

Evrópusambandið hefur með samningnum við Noreg og Færeyjar svikið fyrra samkomulag við Ísland og þau markmið um sjálfbærar veiðar sem lágu því til grundvallar.

Þá er það ótalið að í síðustu samningalotu reyndi Noregur að koma í veg fyrir að Ísland gæti gert tvíhliða samninga við önnur ríki um heimild til að veiða hluta makrílaflans í lögsögu þeirra. Slíkt er fáheyrt í samningum milli ríkja og algerlega óáslættanlegt. Noregi koma tvíhliða samningar Íslands við önnur ríki ekki við. Ísland hefur komið mótmælum á framfæri við Norðmenn vegna þessa.

Ísland hefur setið undir hótunum ESB um viðskiptaþvinganir vegna ofveiði á makríl. Áður hefur komið fram að slíkar viðskiptaþvinganir eru ólögmætar. Við það bætist nú að sá heildarafli sem ESB hefur samið um við Noreg og Færeyjar er beinlínis byggður á ofveiði. Öll rök ESB fyrir því að beita Ísland viðskiptaþvingunum eru því fallin um sjálf sig. Það væri því fullkominn tvískinnungur ef ESB ætlaði sér að halda slíkum hótunum til streitu.

Vilji Össur og Árni fremur slá sér á lær og hía á pólitíska andstæðinga “til heimabrúks” en taka skynsamlega á sameiginlegum vanda íslensku þjóðarinnar sem kominn er upp í makríldeilunni er svo sem lítið sem við hin getum gert í því.

Nema kannski að benda kurteislega á að það er stundum minnst gagn í þeim sem hæst gala.

 

 

Fleiri erlendir kvikmyndagerðarmenn til Íslands, ekki færri?

Hin pólitíska umræða snýst ekki alltaf um staðreyndir. Það er svo sem löngu vitað. Umræðan um framlög til kvikmyndasjóðs eru ágætt dæmi um þetta. Staðreynd málsins er að það er vissulega veitt minna fé til kvikmyndasjóðs árið 2014 en árið 2013. Hins vegar eru framlög ársins 2014 þau hæstu hingað til ef árið 2013 er ekki talið með.

Framlög til kvikmyndasjóða 2001-2014 deilt

Hér er graf sem sýnir framlög ríkissjoðs til kvikmyndagerðar 2000-2014. Rauði parturinn af súlunni 2013 sýnir það sem bætt var við upprunalegt fjárlagafrumvarp ársins 2013 í framkvæmdaáætlun fyrri ríkissjórnar. Eins og sést var það einstakt tilfelli.

Ástæða þess að ég pota þessu á blað núna er að ein ágæt vinkona mín setti á facebook í gær status sem er ansi lýsandi fyrir ruglið sem verið er að halda fram um að þessi ríkisstjórn veiti miklu minna fé til kvikmyndagerðar en áður hefur verið gert. Statusinn gekk út á að hún deildi frétt um kosningu RadioTimes um að Ísland hefði verið valinn áhugaverðasti tökustaðurinn sem fólk vildi ferðast til, vegna Game of Thrones þáttanna. Með tenglinum fylgdu svo eftirfarandi ummæli:

“Ísland í efsta sæti. Nema hvað. Verður varla þannig á næstunni enda hefur sitjandi ríkisstjórn meiri áhuga á að niðurgreiða orku en á að fá hingað kvikmyndagerðarfólk sem skilur eftir hér stórfé og veitir fjölda fólks vinnu.”

 

Í orðunum liggur sá skilningur, sem hefur mikið verið prédikaður af andstæðingum ríkisstjórnarinnar, að niðurskurður til kvikmyndasjóðs sé svo mikill að nú muni erlendir kvikmyndagerðarmenn ekki lengur koma til Íslands og því verði engin landkynning og ríkisstjórnin sé því að fleygja frá sér tekjum vegna kvikmyndagerðar.   

En ef þessi staðhæfing er skoðuð þá kemur í ljós að hún er della. Þriðja þáttaröð Game of Thrones, sem könnun RadioTimes vísar til, var vissulega sýnd í sjónvarpi árið 2013. Upptökurnar á Íslandi fóru hins vegar fram árið 2012.

Af hverju skiptir það máli?

Jú, sjáið nú til, árið 2012, þegar kvikmyndagerðarmenn og sjónvarpsþáttaupptökufólk flykktist til Íslands til að taka upp Game of Thrones, voru framlög til kvikmyndasjóðs 110 milljónum króna lægri en þau eru fyrir árið 2014.

Bíddu bíddu, lásum við þetta rétt? Já reyndar.

Framlög ríkisstjórnarinnar til kvikmyndasjóðs árið 2014 (sem ítrekað eru sögð munu drepa landkynningu, fæla frá erlenda kvikmyndagerðarmenn og almennt eyða kvikmyndagerð í landinu) eru 110 milljónum króna HÆRRI heldur en þau voru árið 2012 þegar Game of Thrones þættirnir sem þarna er talað um voru teknir upp á Íslandi. Það var 515 milljónir árið 2012 en er tæpar 625 milljónir 2014.

En hvað með hérna, The Secret Life of Walter Mitty eftir Ben Stiller, sem er að gera brjálaða lukku fyrir Ísland erlendis, draga að túrista í bílförmum og er líklega ein besta landkynning ever? Jú, hún var líka tekin upp á Íslandi árið 2012.

Og Oblivion, sem fékk Tom Cruise til að tala svo vel um Ísland svo athygli vakti (sem oft hefur verið vitnað til sem einhvers sem ekki hefði gerst út af öllum þessum niðurskurði)? Jújú, líka tekin upp árið 2012.

Darren Aronofsky kíkti svo líka til Íslands árið 2012 með Russell Crowe, Emmu Watson og fleirum og smellti af nokkrum römmum í Noah.

Punkturinn er þessi:

Ef allir þessir erlendu kvikmyndagerðarmenn og leikarar vildu koma til Íslands árið 2012, þegar framlög til kvikmyndasjóðs voru 515 milljónir, hvers vegna í ósköpunum ættu þeir ekki að vilja koma til Íslands árið 2014 þegar framlög til kvikmyndasjóðs eru 625 milljónir?

Vegna þess að ef röksemdafærslan er svona einföld, er þá ekki líklegra að það verði fleiri kvikmyndagerðarmenn sem vilja koma til Íslands árið 2014 en árið 2012, vegna þess að framlögin eru hærri?

Eða eru menn kannski ekki tilbúnir að standa við stóru orðin þegar þeirra eigin röksemdafærsla er allt í einu farin að vinna beinlínis gegn ályktuninni?

Hér hefur svo ekki verið minnst á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kvikmyndagerðar, sem er auðvitað helsti hvatinn í því að fá erlenda kvikmyndagerðarmenn til Íslands. En af einhverjum ástæðum hentar ekki sumum að tala um þá staðreynd í þessu samhengi. Líklega vegna þess að hin skelfilega nýja ríkisstjórn hefur ekki breytt neinu varðandi það.

Hin pólitíska umræða snýst ekki alltaf um staðreyndir. En það er nú kannski óþarfi að snúa hlutunum fullkomlega á haus.

Af óbærilegu starfsumhverfi aukakílóa.

Eins og alþjóð virðist vita (þökk sé Smartlandinu) er ég búinn að brasast við að binda endi á ýmis sjálfskaparvíti líkamlegs óheilbrigðis undanfarinn mánuð. Og eins og allar Fru Stellur veraldarinnar vita þurfa öll prógrömm svona skref sem þurfa að uppfyllast af hinum óheppnu Salomonum sem ætla að breyta lífi sínu. Það er jú auðvitað part av programmet. Og af því að í þessu tilviki er ég sjálfur bæði Fru Stella og Salomon þá hef ég í vitleysiskasti komið mér í að tilkynna um afrek mín opinberlega í þeim tilgangi að undanskot haldist í lágmarki.

Það er skemmst frá því að segja að ýmislegt hefur tekist vel en annað minna vel. Ég hef sannanlega dragnast á lappir og farið í sund kl. 6:30 fleiri morgna en nokkur maður átti von á fyrirfram, allra síst ég sjálfur. Svo rammt hefur kveðið að þessari sundáráttu að ég er orðinn nánast ómögulegur maður ef ég klikka á þessu og geri þá skurk að því að komast síðar um daginn. Þetta hefur því gengið nokkuð vel, 500 metrar syntir í hvert sinn, þrisvar í viku, og mér telst til að af þessum áskildu sunddögum(þrisvar í viku) hafi ekki nema þrjú skipti fallið niður. Á minn almenna 41 árs gamla sófakartöflumælikvarða jaðrar það við einhvers konar kraftaverk.

Heldur daprari sögum fer á hinn bóginn af gönguferðum og ljóst að það þarf að efna til átaksverkefnis í þeim efnum í febrúar. Engar nefndir, bara efndir.

Matarræði hefur almennt séð horft til bóta þó skekkjumörk hafi þar verið óþarflega mikil. Helst gengur erfiðlega að standast freistingar hins ógurlega súkkulaði-Belsebúbbs (sem er augljós undirdrýsill hins eiginlega Belsebúbbs) sem eltir mig á röndum (bévaður prakkarinn) og skilur eftir laumulegar freistingar fyrir augum mér á fundum og mannamótum (og allir vita að kaloríur sem maður kaupir ekki sjálfur teljast ekki með).

Það sem er langerfiðast er hins vegar þetta með svefntímann, en það var reyndar fyrirséð. Í því samhengi kemur auðvitað alltaf upp hin heimspekilega spurning (sem hefur þjakað mannkynið frá 1950): “Ef manninum var áskapað að fara að sofa fyrir miðnætti, hví, (ó hví), er alltaf svona margt skemmtilegt að horfa á í sjónvarpinu?”. Við skulum segja að lausn sé á vinnslustigi. Já, það hljómar alltaf vel.

Í það heila hefur þessi galskapur þó gengið vonum framar og skilað sér í Jóhannesi sem er almennt hressari og ánægðari með sjálfan sig (heimildarmönnum ber reyndar ekki saman um það hvort skortur hafi verið á sjálfsánægju… “Offramboð” hefur verið nefnt í því samhengi…).

Ánægjuleg þróun hefur einnig verið á aukakílóamarkaðnum, þar sem lögmál framboðs og eftirspurnar hefur árum saman staðið á haus (harðlínufrjálshyggjumönnum til undrunar og armæðu).

Talsmenn aukakílóa lýstu snemma í ferlinu yfir megnri óánægju með breyttan aðbúnað og versnandi kjör. Tvö þeirra hafa síðan séð sér þann kost vænstan að segja upp störfum, enda sé nýtt starfsumhverfi ekki í neinu samræmi við réttmætar væntingar við ráðningarsamning.

Þriðja aukakílóið hefur lýst ítrekuðum áhuga á að láta verða af uppsögn en þjáist því miður af aðskilnaðarkvíða á háu stigi, segir upp á morgnana en laumast aftur inn um bakdyrnar á kvöldin. Grunur leikur á samsæri þar sem um er að ræða þekktan glæpafélaga hins alræmda súkkulaði-Belsebúbbs.

Rannsókn stendur yfir.

 

Að rækta garðinn sinn.

Ég er ekki vanur að strengja áramótaheit og ef ég asnast til þess duga þau venjulega í svona viku. Þannig að ég ætla ekki að strengja áramótaheit. Ég er hins vegar búinn að ákveða að gera nokkra hluti öðruvísi árið 2014 en á síðasta ári. Og vegna þess að eftir (bráðum) 41 ár af samvistum við sjálfan mig er ég farinn að þekkja kauða nokkuð vel er ljóst að utanaðkomandi þrýstingur er nauðsynlegur til að árangri verði náð.

Þetta snýst bara um að breyta nokkrum einföldum hlutum sem saman leiða til svolítið heilbrigðara lífernis. Ég ætla ekki að kaupa mér árskort í líkamsrækt og mæta eins og brjálæðingur fyrstu tvær vikurnar og svo ekki söguna meir. Ég ætla ekki heldur á “í kjólinn eftir jólin” janúarmegrunarátkak djöfulsins, borða bara kotasælu og salatblöð í heilan mánuð (og svo tóma hamborgara með bernes í febrúar þegar geðveikinni linnir).

Nei. Allt þetta hef ég prófað og veit að afleiðingin eru þeir kumpánar sakbitni-Jóhannes og sísvangi-Jóhannes, sem hvorugur eru gaurar sem maður vill hafa með sér á eyðieyju.

Það sem ég ætla hins vegar að gera er (meðal annars) þetta hér:

Setja mér raunhæf markmið. Ég ætla að breyta því sem ég veit að ég get breytt, og hef breytt áður. Ég ætla að gera ráð fyrir skekkjumörkum á planinu og ekki tapa mér yfir því að það gangi ekki allt fullkomlega upp. Ef eitthvað klikkar þá gengur það bara betur á morgun. Ég ætla að hugsa markmiðin mín til mátulegs tíma. Planið verður því endurmetið þann 3. apríl.

Borða reglulega yfir daginn. Ég ætla að borða morgunmat fyrir klukkan átta, fá mér bita klukkan 10, borða hádegisverð klukkan 12, fá mér bita um miðjan daginn og kvöldmat fyrir kl. 20. Og svo ætla ég ekki að borða meira eftir klukkan 20.

Hreyfa mig 6 daga í viku.. Í janúar ætla ég að synda þrisvar í viku og ganga þrisvar í viku. Og hér er grundvallaratriði: Ég er búinn að festa frátekinn tíma fyrir það í dagatalinu. Markmið janúarmánaðar er fyrst og fremst að byggja upp vana, ekki að ná neinum afrekum. Synda 0,5 km í hvert sinn og ganga 30 mínútur í hvert sinn. Rólegt og raunhæft.

Fá betri svefn. Ég ætla að fara að sofa fyrir miðnætti sunnudaga – föstudaga. Þetta er ekki síst nauðsynlegt þar sem ég ætla að vera mættur í sundlaugina kl. 6:30 þrjá daga í viku. Þetta verður klárlega það sem mun reynast erfiðast.

Elda og borða hollari mat. Skipuleggja innkaupin og eldamennskuna á heimilinu betur fram í tímann á mánaðarbasis. Það sparar jú líka peninga.

Stóra markmiðið með þessu öllu er ekki endilega að ná af mér aukakílóum, þó ég muni ekki hata það ef eitthvað af kosningaspikinu hverfur á braut. Markmiðið næstu þrjá mánuði er að vinna í að breyta hugarfarinu, breyta gamalgrónu hegðurnarmynstri sem hefur gert mig að síþreyttum, lötum, feitum fertugum kalli. Ef mér tekst að verða að svolítið hressari og ögn minna feitum fertugum kalli þá er takmarkinu náð.

Jæja. Þá er ég búinn að skrifa þetta niður, sem var fyrsta skrefið í planinu.

Þetta lítur mun erfiðara út svona svart á hvítu en þegar ég var bara að hugsa um það.

Óboj, hvað hef ég gert…

 

 

Af ótímabærum hringsnúningum S&P

Lánsmatshæfisfyrirtæki, sem flestir Íslendingar kannast við eftir stórleik og á stundum senuþjófnað í Icesave deilunni á undanförnum árum, eru áhugaverð fyrirbæri.

Í morgun sendi eitt þeirra, Standard & Poor’s, frá sér breytingu á horfum fyrir Ísland, horfurnar eru nú taldar neikvæðar,en reyndar með því fororði að það geti hæglega breyst aftur í stöðugar þegar meiri upplýsingar koma fram um fyrirætlanir stjórnvalda.

Í sjálfu sér hefur þessi breyting lítil sem engin áhrif og því engin ástæða til að hlaupa upp til handa og fóta. Það er hins vegar ýmislegt sérstakt við ákvörðun á á þessum grunni á þessum tímapunkti og ekki síður við rökstuðninginn, t.d. samhengi við rökstuðning sumra af fyrri ákvarðanir sama fyrirtækis.

Stjórnvöld hafa þegar sent S&P athugasemdir og mótmæli vegna ákvörðunarinnar, þar sem m.a. er bent á að ákvörðun fyrirtækisins er ótímabær og illa grundvölluð og færð rök fyrir því mati.

Meðal annars má nefna að rökstuðningur S&P fyrir ákvörðuninni byggir á þeirri ályktun fyrirtækisins að líkur séu á að skuldastaða ríkissjóðs hækki umtalsvert í kjölfar aðgerða vegna skuldavanda heimila. Að mati stjórnvalda er þessi ályktun algerlega ótímabær og ófaglega unnin. Í rökstuðningi S&P sjálfum er t.d. sérstaklega bent á að skv. ályktun Alþingis muni nánari útfærsla liggja fyrir í nóvember 2013. Samt sem áður er tekin ákvörðun um breytingu á horfum út frá ónógum upplýsingum. Við þetta er að bæta að fyrirtækið kaus að nýta sér ekki boð forsætisráðuneytisins og Seðlabankans um sérstakan fund til að fara ítarlegar yfir áform um skuldaleiðréttingu, grundvöll þeirra og áætlanir um fjármögnun.

Í þessu ljósi er líka eðlilegt að rifja upp að lánshæfismatsfyrirtæki og Íslendinga hefur áður greint á um leiðir og aðferðir á undanförnum árum, t.d. varðandi Icesave málið.

Það er í því samhengi  sérstaklega athyglivert að aðalrökstuðningur þessa nýjasta mats S&P, þ.e. að frekari skuldaleiðrétting húsnæðislána geti valdið aukinni skuldsetningu ríkissjóðs upp á um eða yfir 10% af landsframleiðslu, stangast algerlega á við útgefið mat S&P frá 29. janúar 2010 þar sem sagði að ef Icesave samningar yrðu óvænt samþykktir í þjóðaratkvæðagreiðslu í mars 2010 myndi lánshæfismat haldast óbreytt en ef ekki myndi fyrirtækið hugsanlega lækka matið um eitt til tvö stig.

Þegar haft er í huga að þessi samþykkt Icesave samninganna hefði haft í för með sér aukna skuldsetningu ríkissjóðs um meira en 10% af landsframleiðslu er augljóst að fyrirtækið er ekki sjálfu sér samkvæmt í grundvallarrökum fyrir mati sínu gagnvart Íslandi.

Stjórnvöld og aðrir hljóta að telja það eðlilega kröfu til lánsmatshæfisfyrirtækja að þau séu sjálfum sér samkvæm í mati og rökstuðningi og að mat þeirra byggi á staðreyndum og nákvæmum upplýsingum en ekki ótímabærum getgátum.