Leiðréttingin skiptir meira máli ef verðbólga hækkar

Fjölmiðlar keppast í dag við að selja fólki fyrirsagnir um að verðbólga muni éta upp leiðréttinguna.

Það er vissulega rétt að hærri verðbólga hækkar verðtryggðar skuldir og það er mikilvægt að vinna gegn verðbólgu á öllum vígstöðvum.

En verðbólga hækkar ekki það sem búið er að taka í burtu. Sá hluti lána sem búið er að færa niður bætist ekki á aftur. Því er það rangt að tala um að verðbólga éti upp leiðréttinguna. Ávinningurinn af leiðréttingunni heldur gildi sínu.

Þannig skiptir leiðréttingin fólk í raun meira máli ef verðbólga hækkar, vegna þess að óleiðrétt lán hefði hækkað enn meira en leiðrétta lánið gerir. Munurinn á greiðslum er satt að segja sláandi.

EES pirringurinn

Uppáhalds álitsgjafi Íslands, hinn ágæti Lars Christiansen, ræddi Ísland, alþjóðavæðingu og ESB í viðtalinu á RUV í gær. Á honum var að skilja að hann átti sig ekki alveg á um hvað EES samningurinn snýst. Lars segir:

það kemur fyrir að sú umræða flækist í umræðuna um aðild Íslands að ESB. Það má sjálfsagt opna fyrir erlent vinnuafl og flæði fjármagns án þess að vera í ESB. Það er önnur umræða […] En það er ekkert leyndarmál að ég vona að Íslendingar sæki út fyrir landsteina…Þið skylduð íhuga það.

Þetta komment hjá Lars er lidt pinsamt. Við Íslendingar íhuguðum þetta með frjálst flæði vinnuafls og fjármagns nefnilega fyrir rúmum 20 árum og ákváðum að við vildum fá svoleiðis. Og tókum frjálst flæði vöru og þjónustu með í kaupin. Þið vitið, þarna fjórfrelsið sem ESB byggist á. Það er í gildi á Íslandi þó við séum ekki aðilar að ESB. EES samningurinn sér til þess. Og það er hið besta mál.

Traustur vinur kvikmyndagerðar

Björn B. Björnsson kvikmyndagerðarmaður skrifar furðulega grein í Fréttablaðið á föstudag þar sem staðreyndum um stuðning ríkisins við kvikmyndagerð er enn og aftur snúið á haus. Björn nefnir helst þrennt sem rök fyrir því að Framsókn og ríkisstjórnin hafi komið illa fram við kvikmyndagerð:

  1. Að ríkistjórnin hafi staðið fyrir gríðarmiklum niðurskurði til kvikmyndasjóða og að sá niðurskurður standi enn yfir. 
  2. Að viðvarandi óvissa ríki um kvikmyndagerð á Íslandi vegna þessa niðurskurðar
  3. Að þingmenn og ráðherrar Framsóknar hafi ekki staðið við það sem þeir sögðu

Byrjum á fyrsta atriðinu. Fyrir nokkru síðan skrifaði ég pistil um framlög til kvikmyndagerðar þar sem ég sýndi fram á að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hlytu að laða að fleiri erlenda kvikmyndagerðarmenn til Íslands en ekki færri. 

Fíllinn lætur ekki plata sig

Internetið er soldið eins og fíllinn, það gleymir engu. Jafnvel þegar fólk leggur töluvert á sig til að gleyma, eða fá aðra til að gleyma, á internetið það til að dúkka upp og minna á gömul sannindi.

Í því samhengi varð mér hugsað til Icesave málsins þegar fréttir birtust af því að Hollendingar hefðu selt kröfur sínar í þrotabú Landsbankans. Á internetinu má einmitt finna ýmsan fróðleik úr sex ára fréttaflutningi, rökræðum og rifrildi þjóðarinnar um það mál allt saman.

Síðustu misseri hafa ýmisir lagt nokkuð á sig til að fá fólk til að gleyma því sem þeir gerðu í því máli árið 2009. Sú barátta hefur aðallega gengið út á eftirfarandi röksemdafærslu í ýmsum útgáfum í ræðu og riti:

Að vegna þess að fullar heimtur verða í þrotabú Landsbankans hafi Icesave málið í raun aldrei verið það mikla þrætuepli sem það varð, Allur Icesave höfuðstóllinn hefði alltaf verið borgaður úr þrotabúinu og skattgreiðendur hefðu því getað samþykkt allt saman áhyggjulaust.

Semsagt: Þeir sem þusuðu á móti Icesave samningunum voru bara með óþarfa vesen, þrotabúið átti alltaf fyrir öllu saman, bingó.

Bæði Steingrímur J. Sigfússon og Svavar Gestsson eru meðal þeirra sem hafa otað þessari nýju söguskoðun að landsmönnum.

Gallinn er að þetta er svona “svo langt sem það nær” sannleikur. Það er að segja, jú það er rétt að þrotabú Landsbankans mun eiga fyrir höfuðstólnum. Hins vegar sleppa hinir ágætu postular hinnar endurskoðuðu Icesve-sögu að nefna það í sömu andrá að það fylgdu þessum höfuðstól vextir.

Alveg heilmiklir vextir.

Juncker dregur upp vindubrúna

Ræða Jean-Claude Junckers nýkjörins forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá því í gær var áhugaverð. Sérstaklega hefur yfirlýsing hans um að á kjörtímabili hans næstu fimm árin verði engin ný aðildarríki tekin inn í Evrópusambandið vakið athygli.

Þessi yfirlýsing forseta framkvæmdastjórnarinnar hefur ekki síst áhrif á ríki eins og Ísland sem hafa stöðu umsóknarríkja. Juncker segir m.a. í ræðunni (eins og hún er gefin út á prenti):

The EU needs to take a break from enlargement so that we can consolidate what has been achieved among the 28. This is why, under my Presidency of the Commission, ongoing negotiations will continue, and notably the Western Balkans will need to keep a European perspective, but no further enlargement will take place over the next five years.

Þetta er nokkuð skýrt, en samt sem áður hefur borið á því í umræðunni hér á Íslandi að einhverjir túlki þetta sem svo að nú sé einmitt lag að halda áfram viðræðum. Þegar nánar er að gáð sést að það er nú kannski ekki alveg þannig.

Í fréttum BBC (og fleiri miðla) er haft eftir Juncker í ræðustól Evrópuþingsins:

“Over the next five years, there won’t be any new member states acceding to the European Union. It’s hard to imagine that one of the candidate states with whom we are negotiating will have, in time, met all the accession criteria.”

[Orðalagið “hard to imagine” hjá BBC er jafnvel of vægt hér, þegar litið er til þess að Juncker notar hið þýska “unvorstellbar“. “Inconcievable” eða “unthinkable” væri nær lagi, eða “óhugsandi” eins og þýðandi Stöðvar 2 notaði í kvöldfréttum.]

Í kjölfar umræðu um örlög sjálfstæðs Skotlands staðfesti skrifstofa Junckers svo að orð hans ættu við ríki sem stæðu utan við Evrópusambandið og þá sérstaklega umsóknarríki eins og Ísland.

Þetta er því skýrt.

Juncker segir að næstu fimm ár verði engin ný ríki aðilar að ESB. Það á einnig við um núverandi umsóknarríki, þar á meðal Ísland.

Hann segir að þó viðræður geti haldið áfram við umsóknarríki sé óhugsandi að nokkurt þeirra muni á þessum tíma uppfylla öll skilyrði aðildar (accession criteria). Ísland er þar meðtalið.

Nú munu einhverjir hugsanlega vilja hártogast um þetta. Það er því ágætt að rifja upp að það sem Juncker er að vísa í þegar hann talar um accession criteria er, eins og lesa má á vef stækkunarskrifstofu ESB, að umsóknarríki þurfi að hafa uppfyllt pólitísk og efnahagsleg grunnskilyrði og hafi samþykkt og tekist á hendur á skilvirkan hátt skyldur aðildar, svo sem nánar er kveðið á um í Kaupmannahafnarskilyrðunum svokölluðu.

Á sama stað á vef stækkunarskrifstofunnar er ítrekað það sem ESB hefur áður bent Íslendingum á, bæði bréflega og á ótal fundum, að skilyrði aðildar að Evrópusambandinu felist í því að umsóknarríki taki upp allt regluverk sambandsins í 35 köflum (‚aquis‘ – það sem hefur verið samþykkt) sem sé óumsemjanlegt:

What is negotiated?

The conditions and timing of the candidate’s adoption, implementation and enforcement of all current EU rules (the “acquis“).These rules are divided into 35 different policy fields (chapters), such as transport, energy, environment, etc., each of which is negotiated separately.

They are not negotiable:

  • candidates essentially agree on how and when to adopt and implement them.
  • the EU obtains guarantees on the date and effectiveness of each candidate’s measures to do this.

Other issues discussed:

  • financial arrangements (such as how much the new member is likely to pay into and receive from the EU budget (in the form of transfers)
  • transitional arrangements – sometimes certain rules are phased in gradually, to give the new member or existing members time to adapt. [Feitletrun ESB]

Niðurstaðan er því einföld og skýr.

Nýkjörinn forseti framkvæmdastjórnarinnar hefur tekið af öll tvímæli af sinni hálfu um að Ísland verði ekki aðili að Evrópusambandinu næstu 5 árin. Það breytir reyndar ekki miklu miðað við núverandi stöðu enda engin áform uppi um aðild af hálfu ríkisstjórnar Íslands.

Þetta samræmi þýðir að við hér á Íslandi getum því snúið okkur að öðrum verkefnum af fullum krafti og hætt að eyða tíma og orku í að munnhöggvast um ESB aðild.

Þetta þýðir líka að  allir eiga að geta áttað sig á því að upptaka evru hér á landi er ekki til umræðu að minnsta kosti næstu 7 árin. Allir ættu því að geta sameinast um að gera gjaldmiðilinn sem við höfum nú þegar eins stöðugan og frekast er unnt með því að byggja upp efnahag landsins, lækka skuldir, halda niðri verðbólgu og svo framvegis. Það er nefnilega góð hugmynd að vinna markvisst í átt að Maastricht skilyrðunum hvort sem stefnan er tekin á aðra mynt einhverntíma í óljósri framtíð eða ekki.

Að lokum má í þessu samhengi, nú þegar ljóst er að Evrópusambandið mun ekki ljá máls á aðild Íslands fyrr en árið 2019, spyrja þess hvaða trúverðugleika þeir sem fyrir kosningar 2009 sögðu þjóðinni að aðildarviðræður myndu taka 18 mánuði hafa fyrir fullyrðingum um nauðsyn áframhaldandi aðildarviðræðna í dag? Kosningaloforðið um 18 mánuðina er nú orðið fimm ára gamalt. Á heilu kjörtímabili tókst þeim sem harðast sóttu aðild ekki einu sinni að fá ESB til að birta rýniskýrslu um sjávarútvegsmál, hvað þá meira. Þó er það líklega það eina sem Íslendingar eru sammála um í Evrópumálum, að sjávarútvegsmál séu einn mikilvægasti og erfiðasti hluti viðræðnanna og aðlögunarinnar að regluverki sambandsins.

En í kvöld heldur formaður Samfylkingarinnar áfram að kyrja sama sönginn, og segir að þessi afdráttarlausa lokun forseta framkvæmdastjórnar ESB sýni það eitt að mikilvægt sé að halda áfram með aðildarviðræður. Við höfum öll séð stjórnmálamenn fagna varnarsigrum þegar fokið er í flest skjól, en líklega sjaldan eins fimlega og þarna.

Þegar(eða ef?) Juncker slakar vindubrúnni niður á ný árið 2019 verða liðin tíu ár frá því að forkólfar Samfylkingarinnar fullyrtu að aðildarviðræðurnar myndu taka 18 mánuði. Þessi “ESB og evra er handan við hornið” söngur er því orðinn algerlega óbrúklegur og ekki í neinu sambandi við raunveruleikann. Ísland verður ekki aðili að ESB næstu fimm árin og Ísland mun ekki eiga möguleika á að taka upp evru næstu 7 árin í það minnsta. Það er einföld staðreynd.

Horfumst nú í augu við raunveruleikann. Hættum að rífast um Evrópusambandið og einbeitum okkur að þeim risaverkefnum sem eru beint fyrir framan okkur, eins og uppbyggingu atvinnulífs, eflingu fjárfestingar, afnámi fjármagnshafta, verðstöðugleika, stöðugum gjaldmiðli, auknum kaupmætti og bættum lífskjörum.

Lausnirnar munu ekki koma frá Evrópusambandinu. Við þurfum að gera þetta sjálf. Saman.

Af húsaleigusparnaði Fiskistofu

Hún var svolítið spes fréttin í gær um Fiskistofu og leiguverð í Borgum á Akureyri. Forsenda fréttarinnar er að “talað hafi verið um” að Fiskistofa eigi að fá húsnæði þar. Í kjölfarið er svo rætt um hversu hátt leiguverð sé í Borgum og að aðrar stofnanir séu því á förum þaðan. Punkturinn með fréttinni virðist sá að þetta séu skilaboðin frá stjórnvöldum og Fiskistofustjóri meira að segja fenginn til að mótmæla því.

En þegar betur er að gáð virðist enginn hafa “talað um” að Fiskistofa verði hýst í Borgum nema aðrir blaðamenn, t.d. blaðamenn Viðskiptablaðsins sem bentu á að ríkið hefði þar húsaleigusamning. Enda hefur engin ákvörðun verið tekin um þetta.

Blaðamaðurinn setur fram forsendur um hvar stofnunin gæti verið staðsett, hvað hún þurfi stórt húsnæði og skrifar frétt út frá þeim. Niðurstaðan úr forsendunum er að leigukostnaður í Borgum yrði um 48 milljónir á ári. Fréttin snýst svo um að þetta sé óskaplega dýrt. 

En gáum að tvennu.

Lausleg athugun á leiguverði á Akureyri leiðir í ljós að almennt verð á fermeter er þar um 1000-1600 kr. Miðað við hærri töluna og 1000 fermetra gæti árlegur leigukostnaður Fiskistofu á Akureyri því orðið um 19 milljónir.

Í dag er leigukostnaður við húsnæði Fiskistofu í Hafnarfirði rúmar 55 milljónir á ári. Miðað við þetta væri því tugmilljóna sparnaður á leigukostnaði Fiskistofu fólginn í því að leigja húsnæði á Akureyri annars staðar en í Borgum.

Og jafnvel þó að leigt yrði í Borgum væri 7 milljóna króna sparnaður af því á ári miðað við núverandi kostnað.

Þennan punkt, að flutningur Fiskistofu til Akureyrar sparaði milljónir í húsaleigukostnað á ári, vantaði hins vegar alveg í fréttina í gær. En kannski kemur önnur frétt um það?

 

 

 

Orð eru til alls fyrst.

Ég hlusta gjarnan á útvarpið á morgnana. Þar heyri ég oft áhugaverðar og málefnalegar umræður og vel rökstuddar skoðanir á þjóðmálunum.

Í morgun heyrði ég hins vegar pistlahöfund Ríkisútvarpsins kalla mig tækifærissinnaðan þjóðrembingsrusta og rasista og fullyrða að ég dreifi hatursáróðri. Hún sagði mig vilja deila og drottna, etja saman trúarhópum og hatast við útlendinga. Ég var kallaður ófreskja og sakaður um blygðunarlaust kynþáttahatur, að telja sjálfan mig æðri öðrum kynþáttum, og líkt við nasista undir rós.

Ætli kennarar barnanna minna hafi verið að hlusta? Eða kannski mamma?

Morgunútvarp RÚV virðist hafa talið að það væri mikilvægt að þetta fólk, og þjóðin öll, kynntist því hvers konar ómenni ég er. Hvers vegna? Því að ég er framsóknarmaður.

Sem slíkur sit ég daglega undir opinberum ásökunum alls konar fólks sem þekkir mig ekki neitt um að vegna þess að ég aðhyllist frjálslynda félagshyggju og kýs Framsókn sé ég töluvert heimskari en annað fólk og hugsi um fátt annað en hvernig ég geti skarað eld að minni eigin köku og níðst á þeim sem minna mega sín í samfélaginu. (Flettið upp í kommentakerfi að eigin vali, eða bara facebook).

Ég hef lært að til að komast fram úr rúminu á morgnana þarf maður að bíta á jaxlinn og leiða þessa daglegu drullu hjá sér, þó að á stundum geti það verið sárt, sérstaklega þegar það bitnar á fjölskyldunni. Fólk í öllum stjórnmálaflokkum þekkir þá tilfinningu.

Það er hins vegar fjári erfitt að leiða það hjá mér þegar verðandi borgarstjóri kallar mig þjóðernispópúlískan hægri öfgamann í beinni útsendingu í sjónvarpi og hinir í settinu kinka bara kolli og taka undir.

Í orðum Dags felst nákvæmlega sú aðferð sem hann vill gagnrýna, þ.e. stimplun fjöldans fyrir framkomu fárra. Hann skiptir heiminum upp í “okkur” og “hina”, segir að “við” þurfum að gefa framsóknarfólki, “hinum”, svigrúm til að sýna að það sé nógu gott, hvort flokkurinn sé stjórntækur.

Það er líka furðuleg lífsreynsla að heyra ókunnuga konu stimpla mig og alla sem einhverntíma hafa gefið Framsókn atkvæði sitt sem þjóðhættulega kynþáttahatara í útvarpi allra landsmanna.

Sif Sigmarsdóttir fellur í sömu gildru og Dagur, verður það sem hún gagnrýnir. Hún tekur hóp fólks, þá sem kjósa Framsókn, og stimplar þá alla með stóra rasistastimplinum sínum fyrir málflutning fárra úr hópnum. Skilaboðin eru ótvíræð: Framsóknarmenn eru kynþáttahatarar allir með tölu. Þjóðhættulegt fólk. „Hinir“, sem „við“ þurfum að stöðva. „Við“ og „hinir“.

Þessi aðferð til að einangra einn hóp í samfélaginu er alveg jafn óásættanleg sama hvaða hópur á í hlut. Slíkar alhæfingar bæta ekki neinu við gagnrýna og uppbyggilega rökræðu um samfélagsmál heldur ýta undir öfgar. Það höfum við svo sannarlega séð að undanförnu.

Ofsinn í umræðunni og þær stóryrtu yfirlýsingar sem þar hafa fallið eru langt frá uppbyggilegri rökræðu og engum til gagns.

Opinber umræða um flókin eða viðkvæm mál sem varða beint fólk og hópa í samfélaginu getur verið mjög vandasöm. Ég trúi því að málflutningur sem ýtir undir andúð á minnihlutahópum eigi ekki að líðast. En málflutningur sem krítar hóp fólks um allt land upp sem boðbera haturs og mannfyrirlitningar er ekki eðlilegur heldur.

Hvorugt stuðlar að yfirvegaðri rökræðu um flókin samfélagsmál.

Ég kannast ekki við að hafa þær skoðanir sem Sif Sigmarsdóttir og Dagur Eggertsson gera mér upp í fjölmiðlum. Ég kannast reyndar ekki við að neitt af því sem þau tala um sé hluti af stefnu Framsóknarflokksins sem ég hef starfað í síðastliðin þrjú ár. Stefnuskrá flokksins er skýr og verk flokksins í ríkisstjórn, bæði síðastliðið ár og áður hafa sýnt á mjög skýran hátt að Framsóknarflokkurinn berst fyrir jafnrétti og mannréttindum og hafnar hatursorðræðu.

Samtal og samvinna er líka líklegri til að leysa ágreining eða komast að skynsamlegri niðurstöðu en upphrópanir og öfgar. Alltaf. Ég væri gjarnan til í að setjast niður með þeim Sif og Degi og ræða málin í rólegheitunum, renna yfir grunnstefnuskrá Framsóknarflokksins og velta vöngum yfir því hvernig við getum saman stuðlað að gagnkvæmri virðingu allra hópa í samfélaginu. Það er full þörf á því. 

Það er reynsla mín að slík samtöl séu á allan hátt uppbyggilegri og líklegri til að skila jákvæðri og gagnlegri niðurstöðu en að úthrópa náungann opinberlega og ala á andúð í hans garð.

Rangfærslur DV um grein ráðherra

Af einhverjum ástæðum sér DV sig knúið til að halda því fram að forsætisráðherra fari með rangfærslur mál í grein sinni í Morgunblaðinu á föstudag, um atvinnuleysi, kaupmátt, fjölgun starfa og aukinn jöfnuð.  Það er tóm vitleysa.

Skoðum þetta nánar.

Atvinnuleysi – Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar er skráð atvinnuleysi um 4% eins og ráðherann segir í greininni. DV kýs hins vegar að líta fram hjá þessari tölu og vísa aðeins  í vinnumarkaðskannanir Hagstofunnar. Þess má geta að OECD miðar við skráð atvinnuleysi Vinnumálastofnunar í samanburðarrannsóknum sínum.

Aukinn kaupmáttur – Samkvæmt peningamálum Seðlabankans jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna um 4,3% á árinu 2013 og búist er við svipaðri aukningu á þessu ári. Þetta er meira en tíðkast hefur frá hruni.

Fjölgun starfa – Samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar eru ný störf um 4000, eins og ráðherrann nefnir.

Aukinn jöfnuður –  Það er erfitt að átta sig á því hvað DV er að fara varðandi þetta, enda er ekki miðað við neinar nýjar hagtölur í grein ráðherrans um þetta atriði, heldur rætt almennt um aukinn jöfnuð og meðal annars vísað í hækkun lægstu launa og lækkun skatta á lægri- og millitekjuhópa, sem óneitanlega eykur jöfnuð.

Af þessu má sjá að það er einfaldlega rangt að forsætisráðherra fari með rangfærslur. Allar þessar tölur sem hann nefnir eiga sér réttmæta stoð í opinberum gögnum (sem öll eru aðgengileg ritstjorn DV).

Ég er alveg til í að ræða betur þetta atriði varðandi jöfnuðinn þegar nýjar hagtölur koma fram varðandi það. Ég er klár á að það verður jákvætt og gott samtal.

Vinstri stjórnin: 20 milljarðar til 775 heimila

Síðasta hálmstrá Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í hatrammri baráttu sinni gegn því að heimilin fái leiðréttingu á forsendubresti verðtryggðra húsnæðislána virðist vera að halda því fram að leiðréttingin hygli stóreignafólki og hátekjuhópum.

Ríkisútvarpið gleypti í gær agnið með öngli, sökku og línu, og flutti frétt af því að heilar 230 fjölskyldur sem ættu rétt á leiðréttingu ættu að meðaltali 177 milljónir í hreina eign. Fréttastofan gerir svo tilraun til að éta veiðistöngina líka með því að taka upp fréttina innan um Range Rover bíla. Stay Classy San Diego.

Stjórnarandstæðingar hafa í kjölfarið farið hamförum á samfélagsmiðlum með þessa frétt að vopni og haft hana til marks um að aðgerðir ríkisstjórnarinnar snúist aðeins um að hygla hátekjufólki og auðmönnum.

Þetta er stórkostleg della.

Setjum þennan skrökmálflutning nú í samhengi staðreynda málsins:

Í fyrsta lagi kemur fram í sömu frétt að leiðréttingin nái til 64.500 heimila. Sextíuogfjögurþúsundogfimmhundruð. Það þýðir að þessi 230 heimili sem verið er að skammast yfir eru 0,3% af heildarfjöldanum sem á rétt á aðgerðunum. Semsagt: 97,7% þessara 64.500 heimila (þ.e. 63016 heimili) eiga ekki 177 milljónir að meðaltali í hreina eign.

Í öðru lagi kemur fram í sömu frétt að 18.520 fjölskyldur eigi minna en eina milljón í hreina eign og 18.530 fjölskyldur eigi á milli 1 og 10 milljónir í hreina eign. Semsagt: 37.050 fjölskyldur af þessum 64.500, þ.e. meira en helmingur þeirra (57%), eiga minna en 10 milljónir og þar af eiga 28,7% minna en eina milljón.

Í þriðja lagi er sett sérstakt þak á leiðréttinguna, einmitt til þess að ekkert heimili geti fengið hærri niðurfellingar en 4 milljónir. Þetta er beinlínis gert í þeim tilgangi að koma í veg fyrir tugmilljóna niðurfellingar til hátekjufólks. 

Þessar einföldu staðreyndir sýna

  • að tæplega tveir þriðju þeirra sem njóta leiðréttingarinnar eru fjölskyldur sem eiga minna en 10 milljónir
  • að rúmur fjórðungur þeirra á minna en milljón. 
  • að enginn getur fengið meira en 4 milljónir í niðurfellingar óháð tekjum og eignastöðu

En fyrir alla muni, pössum að enginn fjalli um staðreyndirnar í stóru myndinni. Það gæti skemmt fína, fína áróðurinn um auðmennina og stóreignafólkið.

Skoðum nú aðgerðir ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í samanburði. Hversu vel standast þær gagnrýni sömu flokka á leiðréttinguna. Hversu vel var passað upp á að þær aðgerðir gögnuðust ekki bara hátekjufólki og auðmönnum?

Jú sjáið til, þær kolfalla á prófinu.

Í fyrsta lagi nýttust aðgerðir fyrri ríkisstjórnar aðeins 10% heimila með verðtryggðar húsnæðisskuldir, eða um 7000 heimilum í heild. Heildarupphæðin var 45 milljarðar og 30% þeirrar fjárhæðar sem var varið til 110% leiðarinnar fór til heimila með yfir 10 milljónir í tekjur.

Í öðru lagi fengu 1% heimilanna (775 heimili) nærri helming heildarupphæðarinnar, eða heila 20 milljarða! Já við skulum lesa þetta aftur. 775 heimili fengu 20 milljarða.

Í þriðja lagi fengu þessi 775 heimili öll yfir 15 milljóna niðurfærslu. Meðalniðurfærsla þessara heimila var 26 milljónir króna.  Í aðgerðunum nú fær enginn meira en 4 milljónir.

Í fjórða lagi voru meðaltekjur þessara 775 heimila á mánuði á árinu 2009 um 750 þúsund en um tugur þeirra var með meðaltekjur yfir tvær milljónir króna á mánuði. Dæmi eru um að menn með meira í 2 milljónir í mánaðarlaun hafi fengið meira en 50 milljónir í afskriftir og sömuleiðis dæmi um fólk sem fékk meira en 100 milljónir afskrifaðar.

Í fimmta lagi fengu næstum því öll þessara 775 heimila (95% þeirra) 300 milljónir í sérstakar vaxtabætur frá vinstri stjórninni!  20 milljarða beinar niðurfellingar skulda þóttu greinilega ekki nóg. Það er því heldur klént að heyra Steingrím J. Sigfússon, Árna Pál Árnason og fleiri gagnrýna leiðréttinguna með þeim rökum að sérstakar vaxtabætur nýtist betur fyrir lágtekjufólk og fólk á leigumarkaði.

Staðreyndin er sú að  í leiðréttingunni nú munu heimili með minna en fjórar milljónir í heildartekjur á ári fá hlutfallslega mest í sinn hlut af niðurfærslunni (um 24% af heildarfjárhæðinni). Nærri helmingur af heildarumfangi leiðréttinga fer til heimila með árstekjur undir 6 milljónir króna og rúmlega 60% af umfangi leiðréttinga til heimila með árstekjur undir 8 milljónum.

Það er því hrein lygi að leiðréttingin gagnist aðallega hátekjufólki eða hygli sérstaklega stóreignamönnum umfram aðra. Þeir fyrrverandi ráðherrar sem þannig tala ættu að líta alvarlega til baka á eigin verk.

 

 

Steingrímur Joð gasprar um Icesave

Steingrímur J. Sigfússon virðist nú enn og aftur vera að reyna að endurskrifa söguna varðandi Icesave málið og fjárhagslegar afleiðingar þeirra samninga um málið sem hann og Svavar Gestsson stóðu fyrir árið 2009.

Í umræðum á þingi í dag reynir hann að slá ryki í augu fólks varðandi fjárhæðirnar og um leið kasta rýrð á skuldaleiðréttingar ríkisstjórnarinnar. Steingrímur segir:

Það er ágætis samanburður ef við segjum að miðað við síðustu útreikninga, núvirta útreikninga fjármálaráðuneytisins, á því hvað upphaflegi Icesave samningurinn hefði kostað, voru það um 70 milljarðar króna.

Svo bætir hann við að kostnaður við skuldaleiðréttingar ríkisstjórnarinnar muni kosta um 150 milljarða, séu sem sagt miklu dýrari en Icesave!

Þetta er stórkostlega óforskammað hjá Steingrími.

Í fyrsta lagi ber hann saman núvirta tölu um Icesave (70 ma.) og ónúvirta tölu um skuldaleiðréttingar (150 ma.) . Það er eins og að bera saman epli og appelsínur og til þess eins gert að afvegaleiða umræðuna Steingrími í hag.

Í öðru lagi segir hann ekkert um á hvaða prósentu þessi undarlega Icesave tala hans er núvirt. Í kynningu á Svavarssamningunum var gert ráð fyrir 6% núvirðingu, sem flestir gagnrýnendur samningsins voru sammála um að væri algerlega óraunhæf forsenda.

Í þriðja lagi þarf að spyrja hvaðan þessi 70 milljaðra tala verður til. Í kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins sem gert var sérstaklega að ósk (og eftir forskrift) Svavar Gestssonar frá 7. maí 2012  kemur fram að heildar vaxtakostnaður við Svavarssamninginn (sem Steingrímur er að vísa í) hefði verið 248 milljarðar króna og hreinn kostnaður ríkissjóðs þar af a.m.k. 211 milljarðar. Núvirtur hreinn kostnaður (m.v. 6%) skv. þessum útreikningum fjármálaráðuneytisins hefði verið a.m.k. 137 milljarðar.

Eins og sjá má í töflunni hér að neðan er  í þeim tölum gert ráð fyrir rúmlega fullum endurheimtum í þrotabú Landsbankans og núvirðingu m.v. 6%. Það væri því ágætt ef Steingrímur benti á það hvernig þessi núvirta kostnaðartala (sem verður fyrst og fremst til vegna vaxtagreiðslna) hefur lækkað um 67 milljarða síðan þann 7. maí 2012? Í hvaða nýju útreikninga fjármálaráðuneytisins er hann að vísa í?

Icesave kostnaður SG

Í fjórða lagi sést af þessu að ef Steingrímur ætlar að bera saman sambærilegar kostnaðartölur, ónúvirtar, vegna Svavarssamningsins annars vegar og skuldaleiðréttinga hins vegar þá er samanburðurinn svona:
Svavarssamningurinn:  248 milljarðar,
Skuldaleiðréttingar:      150 milljarðar.

Í fimmta lagi, og þetta er grundvallaratriði, er Steingrímur að bera saman annars vegar 248 milljarða greiðslur í erlendum gjaldeyri úr ríkissjóði og TIF, út úr landinu til erlendra kröfuhafa Landsbankans, krónur sem þá nýtast ekki nokkrum manni á Íslandi framar, tapað fé.

Hins vegar er um að ræða 150 milljarða skuldaleiðréttingar, beina lækkun á höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána heimila í landinu og möguleika á skattlausum húsnæðissparnaði, þar sem krónurnar koma íslenskum heimilum og almenningi til góða með beinum hætti og haldast inni í hagkerfinu, valda margfeldisáhrifum og örva efnahagslífið. 

Það er ekkert annað en hreinn og klár blekkingarleikur úr pontu Alþingis ef Steingrímur J. Sigfússon ætlar í alvöru að reyna að telja almenningi trú um að fyrri kosturinn hefði nýst þeim betur en sá síðari!

Að lokum má svo skjóta því inn hér að nú þegar fréttir eru fluttar af því vandamáli sem Landsbankaskuldabréfið er fyrir greiðslujöfnuð Íslands ættu menn máske að rifja það upp á hvers vakt það vandamál varð til og hvernig var að gerð þess staðið af sama valdafólki og stóð að Svavarssamningunum.