Orð eru til alls fyrst.

Ég hlusta gjarnan á útvarpið á morgnana. Þar heyri ég oft áhugaverðar og málefnalegar umræður og vel rökstuddar skoðanir á þjóðmálunum.

Í morgun heyrði ég hins vegar pistlahöfund Ríkisútvarpsins kalla mig tækifærissinnaðan þjóðrembingsrusta og rasista og fullyrða að ég dreifi hatursáróðri. Hún sagði mig vilja deila og drottna, etja saman trúarhópum og hatast við útlendinga. Ég var kallaður ófreskja og sakaður um blygðunarlaust kynþáttahatur, að telja sjálfan mig æðri öðrum kynþáttum, og líkt við nasista undir rós.

Ætli kennarar barnanna minna hafi verið að hlusta? Eða kannski mamma?

Morgunútvarp RÚV virðist hafa talið að það væri mikilvægt að þetta fólk, og þjóðin öll, kynntist því hvers konar ómenni ég er. Hvers vegna? Því að ég er framsóknarmaður.

Sem slíkur sit ég daglega undir opinberum ásökunum alls konar fólks sem þekkir mig ekki neitt um að vegna þess að ég aðhyllist frjálslynda félagshyggju og kýs Framsókn sé ég töluvert heimskari en annað fólk og hugsi um fátt annað en hvernig ég geti skarað eld að minni eigin köku og níðst á þeim sem minna mega sín í samfélaginu. (Flettið upp í kommentakerfi að eigin vali, eða bara facebook).

Ég hef lært að til að komast fram úr rúminu á morgnana þarf maður að bíta á jaxlinn og leiða þessa daglegu drullu hjá sér, þó að á stundum geti það verið sárt, sérstaklega þegar það bitnar á fjölskyldunni. Fólk í öllum stjórnmálaflokkum þekkir þá tilfinningu.

Það er hins vegar fjári erfitt að leiða það hjá mér þegar verðandi borgarstjóri kallar mig þjóðernispópúlískan hægri öfgamann í beinni útsendingu í sjónvarpi og hinir í settinu kinka bara kolli og taka undir.

Í orðum Dags felst nákvæmlega sú aðferð sem hann vill gagnrýna, þ.e. stimplun fjöldans fyrir framkomu fárra. Hann skiptir heiminum upp í “okkur” og “hina”, segir að “við” þurfum að gefa framsóknarfólki, “hinum”, svigrúm til að sýna að það sé nógu gott, hvort flokkurinn sé stjórntækur.

Það er líka furðuleg lífsreynsla að heyra ókunnuga konu stimpla mig og alla sem einhverntíma hafa gefið Framsókn atkvæði sitt sem þjóðhættulega kynþáttahatara í útvarpi allra landsmanna.

Sif Sigmarsdóttir fellur í sömu gildru og Dagur, verður það sem hún gagnrýnir. Hún tekur hóp fólks, þá sem kjósa Framsókn, og stimplar þá alla með stóra rasistastimplinum sínum fyrir málflutning fárra úr hópnum. Skilaboðin eru ótvíræð: Framsóknarmenn eru kynþáttahatarar allir með tölu. Þjóðhættulegt fólk. „Hinir“, sem „við“ þurfum að stöðva. „Við“ og „hinir“.

Þessi aðferð til að einangra einn hóp í samfélaginu er alveg jafn óásættanleg sama hvaða hópur á í hlut. Slíkar alhæfingar bæta ekki neinu við gagnrýna og uppbyggilega rökræðu um samfélagsmál heldur ýta undir öfgar. Það höfum við svo sannarlega séð að undanförnu.

Ofsinn í umræðunni og þær stóryrtu yfirlýsingar sem þar hafa fallið eru langt frá uppbyggilegri rökræðu og engum til gagns.

Opinber umræða um flókin eða viðkvæm mál sem varða beint fólk og hópa í samfélaginu getur verið mjög vandasöm. Ég trúi því að málflutningur sem ýtir undir andúð á minnihlutahópum eigi ekki að líðast. En málflutningur sem krítar hóp fólks um allt land upp sem boðbera haturs og mannfyrirlitningar er ekki eðlilegur heldur.

Hvorugt stuðlar að yfirvegaðri rökræðu um flókin samfélagsmál.

Ég kannast ekki við að hafa þær skoðanir sem Sif Sigmarsdóttir og Dagur Eggertsson gera mér upp í fjölmiðlum. Ég kannast reyndar ekki við að neitt af því sem þau tala um sé hluti af stefnu Framsóknarflokksins sem ég hef starfað í síðastliðin þrjú ár. Stefnuskrá flokksins er skýr og verk flokksins í ríkisstjórn, bæði síðastliðið ár og áður hafa sýnt á mjög skýran hátt að Framsóknarflokkurinn berst fyrir jafnrétti og mannréttindum og hafnar hatursorðræðu.

Samtal og samvinna er líka líklegri til að leysa ágreining eða komast að skynsamlegri niðurstöðu en upphrópanir og öfgar. Alltaf. Ég væri gjarnan til í að setjast niður með þeim Sif og Degi og ræða málin í rólegheitunum, renna yfir grunnstefnuskrá Framsóknarflokksins og velta vöngum yfir því hvernig við getum saman stuðlað að gagnkvæmri virðingu allra hópa í samfélaginu. Það er full þörf á því. 

Það er reynsla mín að slík samtöl séu á allan hátt uppbyggilegri og líklegri til að skila jákvæðri og gagnlegri niðurstöðu en að úthrópa náungann opinberlega og ala á andúð í hans garð.

Athugasemdir: