Leiðréttingin skiptir meira máli ef verðbólga hækkar

Fjölmiðlar keppast í dag við að selja fólki fyrirsagnir um að verðbólga muni éta upp leiðréttinguna.

Það er vissulega rétt að hærri verðbólga hækkar verðtryggðar skuldir og það er mikilvægt að vinna gegn verðbólgu á öllum vígstöðvum.

En verðbólga hækkar ekki það sem búið er að taka í burtu. Sá hluti lána sem búið er að færa niður bætist ekki á aftur. Því er það rangt að tala um að verðbólga éti upp leiðréttinguna. Ávinningurinn af leiðréttingunni heldur gildi sínu.

Þannig skiptir leiðréttingin fólk í raun meira máli ef verðbólga hækkar, vegna þess að óleiðrétt lán hefði hækkað enn meira en leiðrétta lánið gerir. Munurinn á greiðslum er satt að segja sláandi.

66 heildargreiðslur þrjár verðbólguspárHér sést að ef verðbólga er 6% borga hjón sem tóku svona lán árið 2007 heilum 22 milljónum minna af láninu en þau hefðu gert ef þau hefðu ekki fengið leiðréttingu.

Til samanburðar borga þau um 10 milljónum minna ef verðbólgan er 2%.

Munurinn á greiðslum ef verðbólga er 2% eða 6% er því um 12 milljónir króna.

Það eru 12 milljónir sem þessi hjón geta notað í eitthvað annað en að greiða af láninu. Það eru 12 milljón krónur úr launaumslaginu sem fara beint í vasann en ekki beint í bankann. Beinlínis vegna leiðréttingarinnar.

Það er eitt mikilvægasta hagsmunamál okkar allra að halda aftur af verðbólgunni. En það er alveg ljóst að verðbólga étur ekki upp ávinning fólks af leiðréttingunni. Sá ávinningur heldur gildi sínu þótt verðbólga hækki.

Því að það sem hefur verið tekið í burtu hækkar ekki.

Athugasemdir: