Juncker dregur upp vindubrúna

Ræða Jean-Claude Junckers nýkjörins forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá því í gær var áhugaverð. Sérstaklega hefur yfirlýsing hans um að á kjörtímabili hans næstu fimm árin verði engin ný aðildarríki tekin inn í Evrópusambandið vakið athygli.

Þessi yfirlýsing forseta framkvæmdastjórnarinnar hefur ekki síst áhrif á ríki eins og Ísland sem hafa stöðu umsóknarríkja. Juncker segir m.a. í ræðunni (eins og hún er gefin út á prenti):

The EU needs to take a break from enlargement so that we can consolidate what has been achieved among the 28. This is why, under my Presidency of the Commission, ongoing negotiations will continue, and notably the Western Balkans will need to keep a European perspective, but no further enlargement will take place over the next five years.

Þetta er nokkuð skýrt, en samt sem áður hefur borið á því í umræðunni hér á Íslandi að einhverjir túlki þetta sem svo að nú sé einmitt lag að halda áfram viðræðum. Þegar nánar er að gáð sést að það er nú kannski ekki alveg þannig.

Í fréttum BBC (og fleiri miðla) er haft eftir Juncker í ræðustól Evrópuþingsins:

“Over the next five years, there won’t be any new member states acceding to the European Union. It’s hard to imagine that one of the candidate states with whom we are negotiating will have, in time, met all the accession criteria.”

[Orðalagið “hard to imagine” hjá BBC er jafnvel of vægt hér, þegar litið er til þess að Juncker notar hið þýska “unvorstellbar“. “Inconcievable” eða “unthinkable” væri nær lagi, eða “óhugsandi” eins og þýðandi Stöðvar 2 notaði í kvöldfréttum.]

Í kjölfar umræðu um örlög sjálfstæðs Skotlands staðfesti skrifstofa Junckers svo að orð hans ættu við ríki sem stæðu utan við Evrópusambandið og þá sérstaklega umsóknarríki eins og Ísland.

Þetta er því skýrt.

Juncker segir að næstu fimm ár verði engin ný ríki aðilar að ESB. Það á einnig við um núverandi umsóknarríki, þar á meðal Ísland.

Hann segir að þó viðræður geti haldið áfram við umsóknarríki sé óhugsandi að nokkurt þeirra muni á þessum tíma uppfylla öll skilyrði aðildar (accession criteria). Ísland er þar meðtalið.

Nú munu einhverjir hugsanlega vilja hártogast um þetta. Það er því ágætt að rifja upp að það sem Juncker er að vísa í þegar hann talar um accession criteria er, eins og lesa má á vef stækkunarskrifstofu ESB, að umsóknarríki þurfi að hafa uppfyllt pólitísk og efnahagsleg grunnskilyrði og hafi samþykkt og tekist á hendur á skilvirkan hátt skyldur aðildar, svo sem nánar er kveðið á um í Kaupmannahafnarskilyrðunum svokölluðu.

Á sama stað á vef stækkunarskrifstofunnar er ítrekað það sem ESB hefur áður bent Íslendingum á, bæði bréflega og á ótal fundum, að skilyrði aðildar að Evrópusambandinu felist í því að umsóknarríki taki upp allt regluverk sambandsins í 35 köflum (‚aquis‘ – það sem hefur verið samþykkt) sem sé óumsemjanlegt:

What is negotiated?

The conditions and timing of the candidate’s adoption, implementation and enforcement of all current EU rules (the “acquis“).These rules are divided into 35 different policy fields (chapters), such as transport, energy, environment, etc., each of which is negotiated separately.

They are not negotiable:

  • candidates essentially agree on how and when to adopt and implement them.
  • the EU obtains guarantees on the date and effectiveness of each candidate’s measures to do this.

Other issues discussed:

  • financial arrangements (such as how much the new member is likely to pay into and receive from the EU budget (in the form of transfers)
  • transitional arrangements – sometimes certain rules are phased in gradually, to give the new member or existing members time to adapt. [Feitletrun ESB]

Niðurstaðan er því einföld og skýr.

Nýkjörinn forseti framkvæmdastjórnarinnar hefur tekið af öll tvímæli af sinni hálfu um að Ísland verði ekki aðili að Evrópusambandinu næstu 5 árin. Það breytir reyndar ekki miklu miðað við núverandi stöðu enda engin áform uppi um aðild af hálfu ríkisstjórnar Íslands.

Þetta samræmi þýðir að við hér á Íslandi getum því snúið okkur að öðrum verkefnum af fullum krafti og hætt að eyða tíma og orku í að munnhöggvast um ESB aðild.

Þetta þýðir líka að  allir eiga að geta áttað sig á því að upptaka evru hér á landi er ekki til umræðu að minnsta kosti næstu 7 árin. Allir ættu því að geta sameinast um að gera gjaldmiðilinn sem við höfum nú þegar eins stöðugan og frekast er unnt með því að byggja upp efnahag landsins, lækka skuldir, halda niðri verðbólgu og svo framvegis. Það er nefnilega góð hugmynd að vinna markvisst í átt að Maastricht skilyrðunum hvort sem stefnan er tekin á aðra mynt einhverntíma í óljósri framtíð eða ekki.

Að lokum má í þessu samhengi, nú þegar ljóst er að Evrópusambandið mun ekki ljá máls á aðild Íslands fyrr en árið 2019, spyrja þess hvaða trúverðugleika þeir sem fyrir kosningar 2009 sögðu þjóðinni að aðildarviðræður myndu taka 18 mánuði hafa fyrir fullyrðingum um nauðsyn áframhaldandi aðildarviðræðna í dag? Kosningaloforðið um 18 mánuðina er nú orðið fimm ára gamalt. Á heilu kjörtímabili tókst þeim sem harðast sóttu aðild ekki einu sinni að fá ESB til að birta rýniskýrslu um sjávarútvegsmál, hvað þá meira. Þó er það líklega það eina sem Íslendingar eru sammála um í Evrópumálum, að sjávarútvegsmál séu einn mikilvægasti og erfiðasti hluti viðræðnanna og aðlögunarinnar að regluverki sambandsins.

En í kvöld heldur formaður Samfylkingarinnar áfram að kyrja sama sönginn, og segir að þessi afdráttarlausa lokun forseta framkvæmdastjórnar ESB sýni það eitt að mikilvægt sé að halda áfram með aðildarviðræður. Við höfum öll séð stjórnmálamenn fagna varnarsigrum þegar fokið er í flest skjól, en líklega sjaldan eins fimlega og þarna.

Þegar(eða ef?) Juncker slakar vindubrúnni niður á ný árið 2019 verða liðin tíu ár frá því að forkólfar Samfylkingarinnar fullyrtu að aðildarviðræðurnar myndu taka 18 mánuði. Þessi “ESB og evra er handan við hornið” söngur er því orðinn algerlega óbrúklegur og ekki í neinu sambandi við raunveruleikann. Ísland verður ekki aðili að ESB næstu fimm árin og Ísland mun ekki eiga möguleika á að taka upp evru næstu 7 árin í það minnsta. Það er einföld staðreynd.

Horfumst nú í augu við raunveruleikann. Hættum að rífast um Evrópusambandið og einbeitum okkur að þeim risaverkefnum sem eru beint fyrir framan okkur, eins og uppbyggingu atvinnulífs, eflingu fjárfestingar, afnámi fjármagnshafta, verðstöðugleika, stöðugum gjaldmiðli, auknum kaupmætti og bættum lífskjörum.

Lausnirnar munu ekki koma frá Evrópusambandinu. Við þurfum að gera þetta sjálf. Saman.

Athugasemdir: