Innheimtugleði

Sá ánægjulegi atburður gerðist í morgun að ég fékk símtal frá innheimtuþjónustunni Motus. Sko í alvöru ánægjulegi því að tilgangurinn var að tilkynna mér að ég hefði ofgreitt skuld og af því Motus gerir ekki ekki neitt þá ætlaði þetta vinalega lögfræðifyrirtæki að endurgreiða mér 15 þúsundkallinn sem ég átti inni hjá þeim.

Mér fannst þetta fallega gert. Á síðustu mánuðum hef ég nefnilega mun oftar átt samskipti við þetta fyrirtæki sem snúast um að þau langar að seilast dýpra í vasa mína eftir aurum sem eru ekki til. Í því felst svosem enginn áfellisdómur yfir Motus, þar á bæ eru menn bara að innheimta það sem þeim er falið af öðrum og ég hef alltaf fengið skilningsríkt viðmót hjá þeim (sem er meira en hægt er að segja um sumar aðrar lögfræðistofur sem hafa haft af mér afskipti í sama tilgangi). Það sem ég hef hins vegar tekið vel eftir er að sum fyrirtæki eru farin að senda smáreikninga í lögfræðiinnheimtu miklu fyrr en áður. Ætli megi draga einhverjar ályktanir af því?

Athugasemdir: