Hinir leyndardómsfullu leyndardómar ráðgjafahópsins

Stundum er undarlega bjánalegt hvernig fréttir eru settar fram og hvernig miðlarnir virðast í sumum tilfellum ljósrita skringilegheitin hver eftir öðrum án þess að pæla mikið í innihaldinu.

Í dag hafa t.d. gengið fréttir um að ráðgjafahópur um afnám fjármagnshafta hafi verið “skipaður með leynd” í nóvember. Þetta er jafnvel fullyrt á RÚV í kvöld, að ráðgjafar hafi verið “skipaðir með leynd”.

Orðalagið virðist eiga uppruna sinn í frétt Vsis frá því um miðjan daginn og dreifast þaðan út á aðra miðla eins og með kalkipappír. Ekki kemur það fram í svarinu við fyrirspurninni sem verið var að fjalla um, svo mikið er víst. Blaðamanni Vísis hefur mögulega þótt “Stjórnvöld skipuðu ráðgjafa með leynd” vera spennuþrungnari fyrirsögn og líklegri til að veiða músasmelli á internetinu en “Engin formleg tikynning send út um ráðgjafahóp”.

Nú man ég eftir nokkrum samtölum við áhugasama blaðamenn frá því í nóvember í fyrra (og síðar í janúar,) um þennan ágæta ráðgjafahóp þar sem ég var ekki að leyna því neitt sérstaklega að hann yrði skipaður. Blaðamennirnir og miðlarnir sem birtu fréttirnar upp úr þessum samtölum virtust hins vegar búnir að gleyma þeim í dag.

Til að það sé á hreinu þá var leyndin nú ekki meiri en svo að það voru fluttar af því fréttir í nokkrum miðlum í nóvember um að skipan þessa hóps væri á lokametrunum (til dæmis þessi hér: http://www.vb.is/frettir/98438/). Það var rætt um það í þessum fréttum hvert hlutverk hans væri og fjallað um þá sem skipaðir voru í hópinn. Ég man ekki betur en að Morgunblaðið hafi meira að segja slegið upp nöfnum ráðgjafanna og fjallað um þá í þessu samhengi.

Ótrúlega auðvelt er líka að finna fréttir frá byrun janúar þar sem ráðgjafarnir sex eru nafngreindir og fjallað um hlutverk þeirra, að þeir hafi fundað reglulega og að þeir muni leggja fram formlegar tillögur (til dæmis hér: http://ruv.is/frett/radgjafahopur-fundad-reglulega ). Google er góður vinur að eiga í nauð.

Ölu þessu virðast mínir ágætu vinir og kunningjar í blaðamannastétt bara hafa gleymt í dag. Skyndilega var þetta allt hulið einhverri heimatilbúinni og dularfullri leynd.

Kommon.

Það var vissulega ekki send út nein formleg tilkynning um skipan hópsins eða hlutverk hans en það er algerlega fráleitt að halda því fram að ráðgjafarnir hafi verið “skipaðir með leynd”. Þessi hópur og hlutverk hans hefur ekki verið neitt leyndarmál í marga mánuði. Allir sem fylgjast með fréttum gátu vitað af honum.

Já, og eitt enn.

Næst þegar orðhákurinn Björn Valur Gíslason sér ástæðu til að gerast stóryrtur og góla á þá sem nú standa í brúnni fyrir ógagnsæi, halda hlutum frá þingheimi og standa fyrir aðför að lýðræðinu, þá legg ég til að hann standi upp frá tölvunni, rölti yfir að speglinum og stari í hann í svolitla stund á meðan hann rifjar upp hversu mjög ríkisstjórninni sem hann studdi svo grimmilega á síðasta kjörtímabili var annt um að Alþingismenn og almenningur fengju alveg pottþétt ekki að sjá einn einasta stafkrók af Icesave samningunum hans Svavars Gestssonar sem hefðu gert íslenska ríkið gjaldþrota.

Við hin munum nefnilega ágætlega eftir því.

Athugasemdir: