Fleiri erlendir kvikmyndagerðarmenn til Íslands, ekki færri?

Hin pólitíska umræða snýst ekki alltaf um staðreyndir. Það er svo sem löngu vitað. Umræðan um framlög til kvikmyndasjóðs eru ágætt dæmi um þetta. Staðreynd málsins er að það er vissulega veitt minna fé til kvikmyndasjóðs árið 2014 en árið 2013. Hins vegar eru framlög ársins 2014 þau hæstu hingað til ef árið 2013 er ekki talið með.

Framlög til kvikmyndasjóða 2001-2014 deilt

Hér er graf sem sýnir framlög ríkissjoðs til kvikmyndagerðar 2000-2014. Rauði parturinn af súlunni 2013 sýnir það sem bætt var við upprunalegt fjárlagafrumvarp ársins 2013 í framkvæmdaáætlun fyrri ríkissjórnar. Eins og sést var það einstakt tilfelli.

Ástæða þess að ég pota þessu á blað núna er að ein ágæt vinkona mín setti á facebook í gær status sem er ansi lýsandi fyrir ruglið sem verið er að halda fram um að þessi ríkisstjórn veiti miklu minna fé til kvikmyndagerðar en áður hefur verið gert. Statusinn gekk út á að hún deildi frétt um kosningu RadioTimes um að Ísland hefði verið valinn áhugaverðasti tökustaðurinn sem fólk vildi ferðast til, vegna Game of Thrones þáttanna. Með tenglinum fylgdu svo eftirfarandi ummæli:

“Ísland í efsta sæti. Nema hvað. Verður varla þannig á næstunni enda hefur sitjandi ríkisstjórn meiri áhuga á að niðurgreiða orku en á að fá hingað kvikmyndagerðarfólk sem skilur eftir hér stórfé og veitir fjölda fólks vinnu.”

 

Í orðunum liggur sá skilningur, sem hefur mikið verið prédikaður af andstæðingum ríkisstjórnarinnar, að niðurskurður til kvikmyndasjóðs sé svo mikill að nú muni erlendir kvikmyndagerðarmenn ekki lengur koma til Íslands og því verði engin landkynning og ríkisstjórnin sé því að fleygja frá sér tekjum vegna kvikmyndagerðar.   

En ef þessi staðhæfing er skoðuð þá kemur í ljós að hún er della. Þriðja þáttaröð Game of Thrones, sem könnun RadioTimes vísar til, var vissulega sýnd í sjónvarpi árið 2013. Upptökurnar á Íslandi fóru hins vegar fram árið 2012.

Af hverju skiptir það máli?

Jú, sjáið nú til, árið 2012, þegar kvikmyndagerðarmenn og sjónvarpsþáttaupptökufólk flykktist til Íslands til að taka upp Game of Thrones, voru framlög til kvikmyndasjóðs 110 milljónum króna lægri en þau eru fyrir árið 2014.

Bíddu bíddu, lásum við þetta rétt? Já reyndar.

Framlög ríkisstjórnarinnar til kvikmyndasjóðs árið 2014 (sem ítrekað eru sögð munu drepa landkynningu, fæla frá erlenda kvikmyndagerðarmenn og almennt eyða kvikmyndagerð í landinu) eru 110 milljónum króna HÆRRI heldur en þau voru árið 2012 þegar Game of Thrones þættirnir sem þarna er talað um voru teknir upp á Íslandi. Það var 515 milljónir árið 2012 en er tæpar 625 milljónir 2014.

En hvað með hérna, The Secret Life of Walter Mitty eftir Ben Stiller, sem er að gera brjálaða lukku fyrir Ísland erlendis, draga að túrista í bílförmum og er líklega ein besta landkynning ever? Jú, hún var líka tekin upp á Íslandi árið 2012.

Og Oblivion, sem fékk Tom Cruise til að tala svo vel um Ísland svo athygli vakti (sem oft hefur verið vitnað til sem einhvers sem ekki hefði gerst út af öllum þessum niðurskurði)? Jújú, líka tekin upp árið 2012.

Darren Aronofsky kíkti svo líka til Íslands árið 2012 með Russell Crowe, Emmu Watson og fleirum og smellti af nokkrum römmum í Noah.

Punkturinn er þessi:

Ef allir þessir erlendu kvikmyndagerðarmenn og leikarar vildu koma til Íslands árið 2012, þegar framlög til kvikmyndasjóðs voru 515 milljónir, hvers vegna í ósköpunum ættu þeir ekki að vilja koma til Íslands árið 2014 þegar framlög til kvikmyndasjóðs eru 625 milljónir?

Vegna þess að ef röksemdafærslan er svona einföld, er þá ekki líklegra að það verði fleiri kvikmyndagerðarmenn sem vilja koma til Íslands árið 2014 en árið 2012, vegna þess að framlögin eru hærri?

Eða eru menn kannski ekki tilbúnir að standa við stóru orðin þegar þeirra eigin röksemdafærsla er allt í einu farin að vinna beinlínis gegn ályktuninni?

Hér hefur svo ekki verið minnst á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kvikmyndagerðar, sem er auðvitað helsti hvatinn í því að fá erlenda kvikmyndagerðarmenn til Íslands. En af einhverjum ástæðum hentar ekki sumum að tala um þá staðreynd í þessu samhengi. Líklega vegna þess að hin skelfilega nýja ríkisstjórn hefur ekki breytt neinu varðandi það.

Hin pólitíska umræða snýst ekki alltaf um staðreyndir. En það er nú kannski óþarfi að snúa hlutunum fullkomlega á haus.

Athugasemdir: