Erlend fjárfesting og viðhorf almennings. Hvernig breytir maður svoleiðis?

Viðhorf til erlendrar fjárfestingar - Mynd: Vísir.isÍ morgun birtist frétt um að Íslendingar séu almennt neikvæðir í garð erlendrar fjárfestingar. Könnunin var rædd á fundi SA, SI og Íslandsstofu um erlenda fjárfestingu, og þar spurt hvort erlend fjárfesting sé blessun eða böl. Það kom ekki á óvart að fundarmenn voru á eitt sáttir um að hún væri mikil blessun og að meira þyrfti til. Það er vissulega auðvelt og skynsamlegt að taka undir.

Hinu átti ég ekki von á, að öllum sem þar tjáðu sig kom á óvart hversu neikvæða skírskotun erlend fjárfesting hefur í hugum almennings. Það er niðurstaða sem ég hefði þvert á móti talið fyrirfram gefna.

Það ætti ekki að þurfa annað en að skoða sögu undanfarinna ára, umræðu á þingi, í fjölmiðlum, kaffistofum og fjölskylduboðum til að komast að því að allt sem tengist peningum, fjármagnseigendum, stórfyrirtækjum, fjárfestingu og öðru í þeim ranni er mjög neikvætt gildishlaðið í hugum venjulegs fólks sem ekki sýslar með stórar fjárhæðir á degi hverjum. Það er augljóslega ekkert skrýtið. Og það hefur vissulega margt breyst frá hruni, en ekki þetta, enda hefur almenn umræða frekar viðhaldið þessari tilfinningu hjá fólki.

Í slíku umhverfi hættir fólk jafnvel til að líta svo á að til sé nokkuð sem heitir “eðlileg viðskipti” og grunnafstaðan hneigist fremur í þá átt að öll viðskipti og fjárfestingar séu til þess gerð að skerða hlut “venjulegs fólks”.

Þetta er ekki einskorðað við Ísland, enda skulum við ekki falla í þá gryfju að telja okkur hafa verið eitthvað voða sérstök í efnahagskreppu sem skók heiminn allan þó að skellurinn hafi verið harðari og vandamálin sum hver verið af öðrum toga  en annarra þjóða. Það nægir að skoða umræðu og niðurstöður Brexit kosninganna í Bretlandi og kosningaáróður og -sigur Donald Trump í Bandaríkjunum til að sjá að þessi hugsun er frekar að styrkjast en hitt, og hefur nú þegar töluverð pólitísk og efnahagsleg áhrif beggja vegna Atlantshafsins – sem og hjá okkur í því miðju.

Auðvitað er stjórnmálaþróun á þessu svæði miklu dýpra rannsókanrefni en þetta en það verður ekki litið fram hjá því að þessi þróun er ein af afleiðingum alþjóðlegu efnahagskreppunnar eða hefur að minnsta kosti verið hraðari vegna hennar.

Tvennt er kannski sérlega athyglivert í samhengi erlendrar fjárfestingar og viðhorfa gagnvart henni.

Í fyrsta lagi getum við horft til landa sem áttu við erfiða krísu að stríða á svipuðum tíma og við Íslendingar, en hafa náð að rétta úr kútnum gagnvart fjárfestingu á annan og betri hátt en við. Hér er Írland gott dæmi. Þrátt fyrir að ganga í gegn um gríðarlega innri gengisfellingu með tilheyrandi launalækkunum og atvinnuleysi og að leggja svimandi upphæðir í að bjarga innlendum bönkum til að þóknast Evrópusambandskerfinu hafa Írar náð að byggja sig hraðar upp en mörgum þótti líklegt. Afleiðinga gætir auðvitað enn og mun gera áfram. Varðandi fjárfestingar búa Írar hins vegar að því að hafa opnað hagkerfið fyrir þeim og sett niður skýran ramma töluvert áður en hrunið varð og gátu því byggt á góðum grunni hvað það varðaði. Á ýmsan máta eru Íslendingar engu síðri í samanburði við Írland þegar litið er til þess hvernig þessi lönd hafa unnið sig út úr erfiðum (og vissulega ólíkum) efnahagsaðstæðum en þegar kemur að erlendri fjárfestingu erum við enn of aftarlega á merinni.

Það hlýtur því að vera áleitin spurning hvernig við ætlum að vinna markvisst að því að bæta okkur. Þar hlýtur að vera fyrsta mál á dagskrá að læra af þeim þjóðum sem gert hafa vel í þessum efnum. Þar gætum við byrjað strax á því að ráðfæra okkur við Möltu sem hefur náð ótrúlegum árangri með skýrri stefnumörkun og markvissum lagabreytingum á undanförnum árum. Það hafa verið ýmis samtöl við Möltu á undanförnum árum og bæst hefur við þekkinguna okkar megin, en það vantar enn að breyta lærdómnum í skýra stefnu hjá íslenskum stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum um að ganga í þetta mál af festu og ákveðni.

Í öðru lagi vakti athygli mína að aftur og aftur kom fram á fundinum í morgun að nauðsynlegt væri að “breyta viðhorfi almennings til erlendrar fjárfestingar” – að “fræða almenning um kosti hennar”. Hér er ágætt að minnst þess  í upphafi að við megum aldrei gleyma að þetta eru ekki tveir hópar – viðskiptalífið sem telur erlenda fjárfestingu góða og almenningur sem telur hana vonda. Ef við drögum fólk í slíka dilka er umræðan töpuð áður en hún hefst. Við erum ein þjóð og samtalið verður að eiga sér stað á þeim grundvelli.

Einhver gæti spurt hvers vegna það þurfi að breyta viðhorfi almennings – eru það ekki aðallega fyrirtækin og stjórnmálamenn, ráðherrar og stjórnkerfið sem þurfa að hafa jákvætt viðhorf til erlendrar fjárfestingar svo að hún laðist að landinu?

Skiptir almenningur einhverju máli?

Svarið er auðvitað já. Almenningur og viðhorf almennings skiptir alltaf máli. Oft öllu máli.

Það er jú almenningur í landinu sem ræður því hverjir veljast úr þeim hópi til þess að stýra lagasetningu um þessi og önnur málefni. Ef fólk er almennt neikvætt gagnvart erlendri fjárfestingu er líklegra að stjórnmálamenn, fulltrúar almennings, leggi litla áherslu á að auka hana og bæta fjárfestingaumhverfi almennt.

Ég kýs hins vegar að draga ákveðna línu milli þess að “breyta viðhorfi almennings gagnvart” og að “fræða almenning um”. Það er mun auðveldara að fræða, koma upplýsingum á framfæri til að fólk geti myndað sér skoðun á grundvelli bestu upplýsinga og tekið upplýstar ákvarðanir, heldur en að breyta viðhorfi.

Viðhorf fólks mótast nefnilega af fleiru en upplýsingum. Það mótast líka af tilfinningum og skoðun náungans, samræðum við aðra og umræðu í samfélaginu.

Ef við erum sammála að til að bæta efnahagslíf og afkomu og auka þekkingu á Íslandi sé rétt að ýta undir erlenda fjárfestingu hljótum við að vilja fræða og breyta viðhorfi almennings á Íslandi til erlendrar fjárfestingar.

Til þess er hins vegar ekki nægilegt að skrifa nokkrar greinar um hvað erlend fjárfesting sé frábær, eða halda seminör um hvað hún hefur í sögunni fært Íslendingum mikla tækniþekkingu og færni á nýjum sviðum. Auglýsingaherferðir um velgengni fyrirtækja og vitundarvakning um hvað stór hluti Íslendinga vinnur hjá fyrirtækjum sem flokkast sem erlend fjárfesting eða í afleiddum störfum munu heldur ekki skila almennri viðhorfsbreytingu. Allt er þetta gott og blessað til að koma upplýsingum á framfæri en meira þarf til.

Margir þekkja að breytingastjórnun í hópi fólks, t.d. í fyrirtæki eða stofnun, getur verið það erfiðasta sem  hægt er að ganga í gegn um. Það getur verið mikið átak að breyta viðhorfi starfsmanna í litlu fyrirtæki gagnvart t.d. nýju tölvukerfi eða nýju skipuriti. Að breyta viðhorfi heillar þjóðar virðist í samanburði óyfirstíganlegt verkefni. En það er það ekki.

Alveg eins og í litla fyrirtækinu snýst vel heppnuð breyting um að snúa við fyrirfram mótuðum viðhorfum og láta jákvæðni gagnvart breytingunni vinnast innan frá. Og þar hef ég ákveðna skoðun á því hver forsendan er.

Við Íslendingar þurfum sem þjóð að vaxa upp úr Hruninu (með stórum staf). Við þurfum að hætta að skilgreina okkur sjálf, afkomu okkar, stjórnmálalínur, viðskipti og allt annað í samfélaginu út frá tíu ára gömlum atburðum. Það gerist auðvitað ekki á einni nóttu.

Þessi breyting þaf að koma innan frá og eins og svo oft er fyrsta skrefið að viðurkenna vandamálið. Við þurfum að þora að tala um að hrunið lifir ennþá innra með okkur öllum. Sjokkið, hræðslan við afkomu fjölskyldunnar, reiðin og hinar eðlilegu tilfinningarnar sem vöknuðu hjá okkur öllum eru þarna ennþá eins og kalblettur innst í hjartanu. Þær verða líklega þar eins lengi og við lifum. Það sem við verðum að læra, og tala um, er að hætta að láta þær stjórna því hvernig við högum okkur og dæmum lífið í kringum okkur. Við megum ekki arfleiða börnin okkar að kalblettinum.

Þegar ég gifti mig voru margir sem læddu að mér því ráði að hvað sem kæmi upp á í hjónabandinu væri mikilvægt að fara aldrei reið og ósátt að sofa. Íslenska þjóðin er ennþá að fara að sofa ósátt við sjálfa sig, nærri tíu árum eftir áfallið.

Þetta á við okkur öll, og ekki síður stjórnmálamenn, fjölmiðla, álitsgjafa og stjórnendur fyrirtækja en aðra. Því að þeim mun lengur sem við látum Hrunið stýra umræðunni í samfélaginu þá munum við leyfa Því að viðhalda viðhorfum sem til lengdar munu hefta íslenskt efnahagslíf og seinka því að við náum að byggja upp betra samfélag fyrir komandi kynslóðir.

Það er kominn tími til að við tökumst á við þetta í alvöru. Í því felst ekki að gleyma, hætta að tala um það sem gerðist eða setja viðvörunarbjöllurnar fyrir blinda augað. Lærum af því, rannsökum það, tölum um það, lagfærum afleiðingarnar eins og best er unnt, finnum leiðir til að bæta okkur og samfélagið svo að slíkt gerist ekki aftur. Það er nauðsynlegt. En hættum að vera föst í hringrás tilfinningaumræðu sem leiðir bæði af því og til þess að Hér Varð Hrun.

Það er auðvelt að segja þetta en risastórt, erfitt og áralangt þjóðarátak að gera það.

Svona breytingar  verða ekki af sjálfu sér. Og til að koma aftur að upphafsefni pistilsins þá getur það að setja fram skýra stefnu varðandi erlenda fjárfestingu og bæta almennan ramma um eðlilegt viðskiptaumhverfi verið eitt atriði af fjölmörgum til að hjálpa okkur áleiðis. Þá þurfum við að taka umræðuna, ákvarða hvað okkur þykir réttur almennur rammi, skoða orsakir og afleiðingar og mynda okkur skoðun og stefnu til framtíðar.

Í því samtali geta allir tekið þátt, og því almennari þátttaka þeim mun betra. Og það er með slíku opnu samtali byggðu á góðum upplýsingum sem viðhorfin breytast smám saman.

 

Athugasemdir:

Leave a Reply