Blekkingabullið.

Á síðustu árum hafa pistlar Sigrúnar Davíðsdóttur um Icesave og afnám hafta í Speglinum á köflum haft yfirbragð sjónhverfinga. Nú í vikunni barst enn á ný slíkur pistill í gegn um útvarp allra landsmanna þar sem þessi helsti rannsakandi Spegilsins á sviði efnahagsmála, (a.m.k. þegar Þórólfur Matthíasson er upptekinn) sagði frá því sem hún kallaði blekkingar og sjónarspil stjórnvalda við kynningu á áætlun um afnám hafta.

Það er léleg rannsóknarblaðamennska að éta bara upp helstu þræði spunalopans sem Samfylkingin prjónaði saman í hasti á dögunum, og setja fram í Ríkisútvarpinu sem staðreyndir.

Í pistlinum lepur Sigrún ítrekað upp þá lygasögu að í kynningu á áætlun um afnám hafta í júní hafi sú leið til lausnar á vandanum sem slitabúin hafa nú kosið að fara, að uppfylla stöðugleikaskilyrði stjórnvalda með frjálsum framlögum í stað skattheimtu, aðeins verið „nefnd í aukasetningu“.

Reyndar er allur pistillinn byggður á þessum útgangspunkti. Sem útskýrir hvers vegna pistillinn er uppfullur af rangindum.

Hvað er satt og rétt?

Hið rétta er (og það getur fólk einfaldlega sannreynt með því að lesa glærurnar og annað efni sem hefur verið aðgengilegt á vefnum síðan í júní) að í glærukynningunni frá 8. júní er fyrst minnst á stöðugleikaskilyrði og endurfjárfestingu til langs tíma á glæru númer þrjú. Reyndar er það svo upp frá því algert grundvallaratriði í kynningunni, og rækilega og ítrekað útskýrt þar (t.d. á glærum 13, 14, 15 og 16), að skattur muni einungis leggjast á slitabúin ef þau geta ekki uppfyllt stöðugleikaskilyrðin með nauðasamningi fyrir áramót. Svo var meira að segja kynnt að kröfuhafar slitabúanna þriggja hefðu þegar skilað tillögum að því hvernig þeir hyggðust uppfylla skilyrðin og losna við skattinn. Þetta gátu allir séð skýrt og skilmerkilega á kynningarfundinum, nema þeir sem sváfu. Í kjölfarið tóku svo fjölmiðlar saman tillögurnar úr bréfum kröfuhafanna og birtu, t.d. Kjarninn. Þetta gat því ekki mikið augljósara verið.

Það var því algerlega augljóst í kynningunni að um tvær mögulegar leiðir var að ræða, annars vegar stöðugleikaskilyrði eða stöðugleikaskatt.

Það er því af sömu ástæðum algerlega rangt hjá Sigrúnu og öðrum sem haldið hafa því fram að stjórnvöld hafi látið eins og önnur lausnin væri betri eða líklegri en hin. Þvert á móti settu stjórnvöld upp ramma sem innihélt tvær leiðir. Ef önnur leiðin, stöðugleikaskilyrðin, reyndist ekki fær tæki hin við, stöðugleikaskatturinn. Það var svo ekki stjórnvalda að ákveða hvor leiðin yrði farin heldur slitabúanna sjálfra.

Fólk virðist vera fljótt að gleyma. Eða kannski er bara þægilegt að gleyma þegar þarf að selja vondan málstað?

Um hvað snýst málið?

Það er einföld staðreynd (sem allir geta athugað sjálfir) að þveröfugt við fullyrðingar Sigrúnar og sumra talsmanna stjórnarandstöðunnar þá snerist stærstur hluti kynningarinnar í júni nefnilega ekki um stöðugleikaskatt heldur um að útskýra sjálfan greiðslujafnaðarvandann og á hvern hátt áætlunin mun leysa hann. Farið var yfir að sá vandi er 1200 milljarðar og að áætlunin gerir ráð fyrir þríþættri lausn. Þessir þrír þættir voru svo útskýrðir.

Það er líka staðreynd að í þeim hluta kynningarinnar sem fjallar um lausn þess hluta vandans sem snýr að slitabúunum er stöðugleikaframlagið útskýrt á svipað mörgum glærum og stöðugleikaskatturinn. Að auki er talað um stöðugleikaskilyrðin á nánast hverri einustu glæru þar sem minnst er á stöðugleikaskatt og ítrekað minnt á að skatturinn leggist aðeins á ef slitabúin ná ekki að uppfylla skilyrðin með framlögum.

Hvernig Sigrúnu Davíðsdóttur og öðrum dettur í hug að halda fram þeim ósannindum að í þessari kynningu hafi aðeins verið minnst á stöðugleikaskilyrði og stöðugleikaframlög í aukasetningu er óskiljanlegt. Að draga svo af þeirri lygasögu heilan pistil um blekkingar ríkisstjórnarinnar er ótrúlega ósvífið.

Staðreynd: Lausn vandans er í fullu samræmi við það sem var kynnt í júní.

Þeir sem þannig tala kjósa að líta fram hjá staðreyndum þó að þeir hljóti að vita betur – til dæmis þeirri meginstaðreynd að áætlunin um afnám hafta gengur út á að leysa risastórt vandamál. Og þeirri staðreynd að þó að vandinn sé stór þá felur lausnin í sér að engin neikvæð áhrif verða á gengi krónunnar, fjármálalegur stöðugleiki er tryggður, skuldir ríkissjóðs lækka gjaldeyrisforði eykst og erlend staða þjóðarbúsins verður sú besta í hálfa öld. Það er magnaður árangur, alveg sama frá hvaða sjónarhorni er litið á það.

Og það þarf ekki að taka mín orð fyrir því. Það má spyrjatil dæmis lánshæfismatsfyrirtækin, Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, stóru erlendu fjármálafjölmiðlana og fleiri slíka aðila sem margir gagnrýnendur núverandi ríkisstjórnar hafa viljað treysta betur en henni.

Í júní var áætluninni fagnað sérstaklega, af öllum stjórnmálaflokkum á þingi og af fjölmörgu fjölmiðlafólki og öðrum sem fylgst hafa með málinu árum saman. Helst mátti skilja á Samfylkingunni þá að þessi bévaði skattur væri nú hálf varasamur en stöðugleikaskilyrði og framlög hins vegar frábær lausn sem einmitt væri smíðuð af þeim sjálfum.

Látum þann tvískinnung vera í bili að sama fólk og þá fagnaði geti nú í sömu setningunni bæði lýst því yfir að lausnin sé ónýt og fagnað því að þeir hafi fundið upp á henni, eins og t.d. Árni Páll hefur ítrekað gert að undanförnu.

Það sem skiptir máli er 

að lausnin er sniðin að verkefninu. Hún leysir vandann án þess að lífskjörum almennings sé ógnað. Það sem er að gerast núna er í fullu samræmi við það sem var kynnt í júní.

Að setja þetta í búning eintómrar tekjuöflunnar (sem sama fólk eyddi reyndar löngum ræðum og viðtölum og útvarpspistlum og blaðagreinum í að vara við á fyrri hluta þessa árs og í nokkur ár þar á undan) og halda því fram að bein tekjuöflun ríkissjóðs sé það eina sem skiptir máli í þessu samhengi er í því ljósi hreint skammarlegur málflutningur.

Það er eina blekkingin hér. Pólitískt sjónarspil í boði Samfylkingarinnar og nú Sigrúnar Davíðsdóttur.

Gjarnan er talað um að það þurfi að hefja stjórnmálaumræðu á Íslandi upp á hærra plan. Fyrrnefndur pistill og málflutningurinn sem hann endurómar sökkvir hins vegar umræðu um afnám hafta niður á sjöunda dýpi.

Athugasemdir: