Illugi og Elliði bíta í tunguna á sér. Stefna Framsóknar á landsfundi íhaldsins.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Eyjum hefur hingað til ekki verið fyrirferðarmikill í landsmálapólitík.  Honum var hins vegar á laugardag sigað á Framsókn með grein í Morgunblaðinu. Enda var það í samræmi við að forysta Sjálfstæðisflokksins nýtti fyrstu tvo daga landsfundarins til að marg lýsa því yfir að verðtrygging yrði ekki afnumin og að ekkert yrði gert til að leiðrétta skuldir heimilanna. Það væri barasta ekki hægt og því væri stefna Framsóknar í málinu ómöguleg.

Þessi afstaða forystu Sjálfstæðisflokksins kom svo sem ekkert á óvart. Bjarni Benediktsson tók það enda skýrt fram í Kryddsíldinni um áramótin að hann hefði ekki áhuga á leiðréttingu skulda heimilanna, aðeins að lagfæra úrræði vinstri stjórnarinnar.

Svo rammt kvað að þessum málflutningi á landsfundi íhaldsins, að á laugardag virtist sem sjálfstæðismenn litu á Framsókn sem höfuðandstæðinga sína í komandi kosningum en ekki vinstri flokkana. Illuga Gunnarssyni var orðið sérlega heitt í hamsi yfir þessu þegar málið var rætt í fyrirspurnartíma forystunnar, enda búinn að fara mikinn í fjölmiðlum um hvað Framsókn væri að lofa upp í ermina á sér með því að vilja skipa sérfræðingahóp til að útfæra afnám verðtryggingar og leita leiða til að leiðrétta stökkbreytt húsnæðislán heimilanna.

Grein Elliða var runnin af sama meiði. Bein skilaboð frá forystu Sjálfstæðisflokksins. Albaníuleiðin með viðkomu í Vestmannaeyjum.  Greinin var svo sem fyndin en flest í henni rangt. Sett í samhengi við landsfundinn virtist höfuðtilgangur hennar satt að segja vera að sannfæra landsfundarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um stefnu forystunnar.

Það var því verulega vandræðalegt fyrir Elliða og Illuga þegar kom í ljós að stór hluti af landsfundarfulltrúum var bara alls ekki sammála þeim og forystu flokksins. Hreint óskaplega ósammála satt að segja. Svo svakalega ósammála að á endanum neyddist Bjarni Benediktsson sjálfur til að fara í pontu á síðustu stundu og leggja fram sáttatillögur um verðtryggingar- og skuldaleiðréttingarmál. Því að landsfundurinn var alls ekki tilbúinn að samþykkja stefnu forystunnar.

Og hver er þá niðurstaðan? Sjálfstæðisflokkurinn kemur út úr landsfundi sínum með stefnu í verðtryggingar- og skuldamálum sem er hreinlega byggð á nákvæmlega sömu markmiðum og stefna Framsóknar, en gengur bara skemur í orðalagi.

Þeir Elliði, Illugi og félagar hljóta að bíta í tunguna á sér. Nú er Sjálfstæðisflokkurinn búinn að ákveða – eins og Framsókn – að markvissar aðgerðir um leiðréttingu skulda heimilanna og að koma í veg fyrir að verðtryggð húsnæðislán verði áfram normið á lánamarkaði skuli vera forgangsverkefni á fyrsta ári næstu ríkisstjórnar. Sjálfstæðisflokkurinn er einnig búinn að ákveða – eins og Framsókn – að taka upp „lyklalög“ eins og Lilja Mósesdóttir lagði til á sínum tíma. Og síðast en ekki síst er Sjálfstæðisflokkurinn búinn að ákveða að taka upp tillögu Framsóknar um skattaafslátt vegna greiðslu húsnæðislána.

Framsókn hefur á kjörtímabilinu stundum verið legið á hálsi fyrir að „elta íhaldið“. En er það einhver spurning lengur hver það er sem eltir?

Eftir þessa sveiflukenndu atburðarás landsfundarins (og svipað flökt forystu Sjálfstæðisflokksins í öðrum málum, t.d. Icesave) er ekki annað hægt en að velta því fyrir sér hvor flokkurinn er líklegri til að standa staðfastur og sameinaður um stefnumál sín eftir kosningar. Það er í það minnsta ljóst að miðað við stóryrtar yfirlýsingar við upphaf landsfundarins er forysta Sjálfstæðisflokksins er alls ekki sammála þeirri stefnu sem landsfundurinn samþykkti að lokum.

Yfirskrift landsfundar Sjálfstæðisflokksins var „í þágu heimilanna“. Og skilaboð fundarins eru augljós. Forysta Sjálfstæðisflokksins þarf að fara að hlusta meira á eigin grasrót, sérstaklega þegar kemur að málefnum heimilanna.

Eitt enn.

Það er þrátt fyrir allt rétt að þakka Elliða Vignissyni fyrir greinina þá arna. Það er nefnilega mjög þarft að bæjarstjórinn rifji það upp, nú rétt fyrir kosningar, að í samstarfi flokkanna tveggja á síðasta áratug lét Sjálfstæðisflokkurinn framsóknarmenn ítrekað eina um að svara fyrir erfið mál og beitti þá sveitarstjórnarmönnum og öðrum gjarnan fyrir forystu flokksins á þennan hátt.

Ef Sjálfstæðismenn ætla nú aftur að taka upp slíka hegðan má Elliði Vignisson gjarnan koma því til skila til yfirboðara sinna að framsóknarmenn hafa lært af reynslunni og munu hafa þetta í huga í framhaldinu.

Innheimtugleði

Sá ánægjulegi atburður gerðist í morgun að ég fékk símtal frá innheimtuþjónustunni Motus. Sko í alvöru ánægjulegi því að tilgangurinn var að tilkynna mér að ég hefði ofgreitt skuld og af því Motus gerir ekki ekki neitt þá ætlaði þetta vinalega lögfræðifyrirtæki að endurgreiða mér 15 þúsundkallinn sem ég átti inni hjá þeim.

Mér fannst þetta fallega gert. Á síðustu mánuðum hef ég nefnilega mun oftar átt samskipti við þetta fyrirtæki sem snúast um að þau langar að seilast dýpra í vasa mína eftir aurum sem eru ekki til. Í því felst svosem enginn áfellisdómur yfir Motus, þar á bæ eru menn bara að innheimta það sem þeim er falið af öðrum og ég hef alltaf fengið skilningsríkt viðmót hjá þeim (sem er meira en hægt er að segja um sumar aðrar lögfræðistofur sem hafa haft af mér afskipti í sama tilgangi). Það sem ég hef hins vegar tekið vel eftir er að sum fyrirtæki eru farin að senda smáreikninga í lögfræðiinnheimtu miklu fyrr en áður. Ætli megi draga einhverjar ályktanir af því?

Allt í plati?

samfotrölliðSamfylkingin lýsir því yfir á facebook í dag að Katrín Júlíusdóttir fjármála- og efnahagsráðherra hafi sagt í vikulokunum á Rás 2 á laugardag að við „verðum að losna undan verðtryggingunni og það gerum við best með því að fara inn í alþjóðlegan sterkan gjaldmiðil.“ Þar á hún væntanlega við að lausn Samfylkingarinnar á verðtryggingarvandanum sé að ísland taki upp evruna.

Þessi ummæli Katrínar koma þrátt fyrir allt á óvart, því að í október 2012 skilaði samráðsnefnd fjármálaráðherra um mótun gengis- og peningastefnu áliti sínu, einmitt til Katrínar Júlíusdóttur. Þessi samráðsnefnd var skipuð fulltrúum allra flokka á Alþingi auk fulltrúa ASÍ og SA.

Samráðsnefndin komst að þverpólitískri samhljóða niðurstöðu – einróma áliti (hversu oft gerist það á Íslandi?). Grípum niður í frétt fjármálaráðuneytisins frá 16. október 2010:

Að mati nefndarmanna er ekki hægt að gera ráð fyrir upptöku annarrar myntar á næstu árum.  Því er mikilvægt að tryggja trausta  peningastefnu með þjóðhagsvarúðartækjum og ábyrgð í opinberum fjármálum á grundvelli fjármálareglna sem taka mið af þróun efnahagslífsins.  Slíkt er grundvöllur góðrar hagstjórnar óháð fyrirkomulegi gengismála og peningastefnu.  Almennt telja nefndarmenn að á næstu árum sé sjálfstæð peningastefna eini valkosturinn og trúverðug hagstjórn sem tekur mið af aðstæðum og hagsveiflum sé grundvallaratriði.

Þetta er skýrt: Sjálfstæð peningastefna er eini kosturinn næstu árin og nauðsynlegt er að vinna innan þess ramma. Og undir þetta kvitta ASÍ, SA og Samfylkingin áamt öllum hinum,

Allir þessir aðilar eru sammála um, eftir margra mánaða vinnu og viðtöl við sérfræðinga, að krónan verður gjaldmiðill Íslendinga næstu árin. Skjót upptaka evru er bara einfaldlega ekki í spilunum. Það er almennt viðurkennd staðreynd. Efnahagslegur veruleiki sem allir flokkar þurfa að átta sig á og vinna samkvæmt. Það þýðir að það þarf að taka á skuldum heimilanna og verðtryggingunni innan þess ramma.

Um þetta var t.d. fjallað á RÚV, í Viðskiptablaðinu, í Morgunblaðinu og á Vísi.is. Ég minnist þess ekki að Katrín eða Árni Páll hafi þá séð ástæðu til að andmæla þessari niðurstöðu opinberlega.

En nú styttist í kosningar og þá galgopast þau fram á fjölmiðlavöllinn (ásamt fleirum) með yfirlýsingar um að skjót upptaka evru sé lausnin á öllum vanda. En hvað ætlar þetta ágæta fólk að segja við kjósendur eftir kosningar? Allt í plati?

Fulltrúi Samfylkingarinnar í samráðsnefndinni var Þórunn Sveinbjarnardóttir, sem nýlega var ráðin aðstoðarmaður formanns Samfylkingarinnar. Þannig að þegar Árni Páll geysist fram á fjölmiðlavöllinn með sömu rök og Katrín um að skjót upptaka evru sé eina lausnin á efnahagsvandanum, gjaldeyrishöftunum, vaxtastiginu, verðbólgunni og matvælaverðinu (og öllu hinu), þá er alltént gott að vita að á bak við hann stendur Þórunn og hvíslar í eyra hans að það sé blekking, því að “á næstu árum sé sjálfstæð peningastefna eini valkosturinn og trúverðug hagstjórn sem tekur mið af aðstæðum og hagsveiflum sé grundvallaratriði”. Það hlýtur hún að gera, því hún hefur lært siðfræði og veit að það er ljótt að plata.