Af húsaleigusparnaði Fiskistofu

Hún var svolítið spes fréttin í gær um Fiskistofu og leiguverð í Borgum á Akureyri. Forsenda fréttarinnar er að “talað hafi verið um” að Fiskistofa eigi að fá húsnæði þar. Í kjölfarið er svo rætt um hversu hátt leiguverð sé í Borgum og að aðrar stofnanir séu því á förum þaðan. Punkturinn með fréttinni virðist sá að þetta séu skilaboðin frá stjórnvöldum og Fiskistofustjóri meira að segja fenginn til að mótmæla því.

En þegar betur er að gáð virðist enginn hafa “talað um” að Fiskistofa verði hýst í Borgum nema aðrir blaðamenn, t.d. blaðamenn Viðskiptablaðsins sem bentu á að ríkið hefði þar húsaleigusamning. Enda hefur engin ákvörðun verið tekin um þetta.

Blaðamaðurinn setur fram forsendur um hvar stofnunin gæti verið staðsett, hvað hún þurfi stórt húsnæði og skrifar frétt út frá þeim. Niðurstaðan úr forsendunum er að leigukostnaður í Borgum yrði um 48 milljónir á ári. Fréttin snýst svo um að þetta sé óskaplega dýrt. 

En gáum að tvennu.

Lausleg athugun á leiguverði á Akureyri leiðir í ljós að almennt verð á fermeter er þar um 1000-1600 kr. Miðað við hærri töluna og 1000 fermetra gæti árlegur leigukostnaður Fiskistofu á Akureyri því orðið um 19 milljónir.

Í dag er leigukostnaður við húsnæði Fiskistofu í Hafnarfirði rúmar 55 milljónir á ári. Miðað við þetta væri því tugmilljóna sparnaður á leigukostnaði Fiskistofu fólginn í því að leigja húsnæði á Akureyri annars staðar en í Borgum.

Og jafnvel þó að leigt yrði í Borgum væri 7 milljóna króna sparnaður af því á ári miðað við núverandi kostnað.

Þennan punkt, að flutningur Fiskistofu til Akureyrar sparaði milljónir í húsaleigukostnað á ári, vantaði hins vegar alveg í fréttina í gær. En kannski kemur önnur frétt um það?

 

 

 

Athugasemdir: