Að rækta garðinn sinn.

Ég er ekki vanur að strengja áramótaheit og ef ég asnast til þess duga þau venjulega í svona viku. Þannig að ég ætla ekki að strengja áramótaheit. Ég er hins vegar búinn að ákveða að gera nokkra hluti öðruvísi árið 2014 en á síðasta ári. Og vegna þess að eftir (bráðum) 41 ár af samvistum við sjálfan mig er ég farinn að þekkja kauða nokkuð vel er ljóst að utanaðkomandi þrýstingur er nauðsynlegur til að árangri verði náð.

Þetta snýst bara um að breyta nokkrum einföldum hlutum sem saman leiða til svolítið heilbrigðara lífernis. Ég ætla ekki að kaupa mér árskort í líkamsrækt og mæta eins og brjálæðingur fyrstu tvær vikurnar og svo ekki söguna meir. Ég ætla ekki heldur á “í kjólinn eftir jólin” janúarmegrunarátkak djöfulsins, borða bara kotasælu og salatblöð í heilan mánuð (og svo tóma hamborgara með bernes í febrúar þegar geðveikinni linnir).

Nei. Allt þetta hef ég prófað og veit að afleiðingin eru þeir kumpánar sakbitni-Jóhannes og sísvangi-Jóhannes, sem hvorugur eru gaurar sem maður vill hafa með sér á eyðieyju.

Það sem ég ætla hins vegar að gera er (meðal annars) þetta hér:

Setja mér raunhæf markmið. Ég ætla að breyta því sem ég veit að ég get breytt, og hef breytt áður. Ég ætla að gera ráð fyrir skekkjumörkum á planinu og ekki tapa mér yfir því að það gangi ekki allt fullkomlega upp. Ef eitthvað klikkar þá gengur það bara betur á morgun. Ég ætla að hugsa markmiðin mín til mátulegs tíma. Planið verður því endurmetið þann 3. apríl.

Borða reglulega yfir daginn. Ég ætla að borða morgunmat fyrir klukkan átta, fá mér bita klukkan 10, borða hádegisverð klukkan 12, fá mér bita um miðjan daginn og kvöldmat fyrir kl. 20. Og svo ætla ég ekki að borða meira eftir klukkan 20.

Hreyfa mig 6 daga í viku.. Í janúar ætla ég að synda þrisvar í viku og ganga þrisvar í viku. Og hér er grundvallaratriði: Ég er búinn að festa frátekinn tíma fyrir það í dagatalinu. Markmið janúarmánaðar er fyrst og fremst að byggja upp vana, ekki að ná neinum afrekum. Synda 0,5 km í hvert sinn og ganga 30 mínútur í hvert sinn. Rólegt og raunhæft.

Fá betri svefn. Ég ætla að fara að sofa fyrir miðnætti sunnudaga – föstudaga. Þetta er ekki síst nauðsynlegt þar sem ég ætla að vera mættur í sundlaugina kl. 6:30 þrjá daga í viku. Þetta verður klárlega það sem mun reynast erfiðast.

Elda og borða hollari mat. Skipuleggja innkaupin og eldamennskuna á heimilinu betur fram í tímann á mánaðarbasis. Það sparar jú líka peninga.

Stóra markmiðið með þessu öllu er ekki endilega að ná af mér aukakílóum, þó ég muni ekki hata það ef eitthvað af kosningaspikinu hverfur á braut. Markmiðið næstu þrjá mánuði er að vinna í að breyta hugarfarinu, breyta gamalgrónu hegðurnarmynstri sem hefur gert mig að síþreyttum, lötum, feitum fertugum kalli. Ef mér tekst að verða að svolítið hressari og ögn minna feitum fertugum kalli þá er takmarkinu náð.

Jæja. Þá er ég búinn að skrifa þetta niður, sem var fyrsta skrefið í planinu.

Þetta lítur mun erfiðara út svona svart á hvítu en þegar ég var bara að hugsa um það.

Óboj, hvað hef ég gert…

 

 

Athugasemdir: