EES pirringurinn

Uppáhalds álitsgjafi Íslands, hinn ágæti Lars Christiansen, ræddi Ísland, alþjóðavæðingu og ESB í viðtalinu á RUV í gær. Á honum var að skilja að hann átti sig ekki alveg á um hvað EES samningurinn snýst. Lars segir:

það kemur fyrir að sú umræða flækist í umræðuna um aðild Íslands að ESB. Það má sjálfsagt opna fyrir erlent vinnuafl og flæði fjármagns án þess að vera í ESB. Það er önnur umræða […] En það er ekkert leyndarmál að ég vona að Íslendingar sæki út fyrir landsteina…Þið skylduð íhuga það.

Þetta komment hjá Lars er lidt pinsamt. Við Íslendingar íhuguðum þetta með frjálst flæði vinnuafls og fjármagns nefnilega fyrir rúmum 20 árum og ákváðum að við vildum fá svoleiðis. Og tókum frjálst flæði vöru og þjónustu með í kaupin. Þið vitið, þarna fjórfrelsið sem ESB byggist á. Það er í gildi á Íslandi þó við séum ekki aðilar að ESB. EES samningurinn sér til þess. Og það er hið besta mál.

Áróðurstrikk í umræðunni

Lars fyrirgefst að þekkja ekki alveg grundvallaratriði EES samningsins en þessi framsetning beinir athyglinni enn og aftur að þeirri furðulegu skilgreiningu að aðeins sé tvennt í boði,

a) frelsi og alþjóðaviðskipti með aðild að ESB eða b) einangrun og sauðalitasamfélag utan ESB.

Þessi árátta hefur verið áberandi í ESB umræðunni hér á landi, sem er kannski skiljanlegt þar sem það er eitt elsta trikkið í áróðursbókinni að setja bara upp algerlega svart hvíta valkosti fyrir almenning. En það er bara áróðurstrikk. Raunveruleikinn er ekkert svona. Raunveruleikinn er eins og svo oft í lífinu nær meðalveginum, sem í tilfelli Íslands er

c) Samningurinn um evrópska efnahagssvæðið.

Leiður á leiðara

Í dag birti Fréttablaðið leiðara með fyrirsögninni “Pirringurinn vex í Framsóknarflokki”. Þessi leiðari virðist lítið annað en upprifjun á forsíðufrétt blaðsins frá deginum áður. Og hann er jafn mikil della og fréttin.

Á milli fréttar og leiðara bentu ég og nokkrir þingmenn Framsóknar á að þessi frétt væri rugl, enginn hefði orðið var við að framsóknarmenn væru sérstaklega ósáttir við EES samninginn eða pirraðri á göllum hans en áður. Þvert á móti,  þeir teldu samninginn hafa þjónað vel sínu hlutverki.

Ályktun leiðarans er byggð á orðum Frosta Sigurjónssonar um að það sé eðlilegt að meta og skoða kosti og galla langtímasamstarfs eins og EES og Schengen reglulega. Leiðarahöfundi virðist finnast það eitthvað óeðlileg hugsun. Í það minnsta spyr hann:

Landinu verður varla stýrt eftir pirringi einstakra stjórnmálamanna eða stjórnmálflokks, er það nokkuð?

Þetta er hreinlega fáránleg ályktun leiðarahöfundar. Það má benda á, (eins og ég gerði reyndar í gær) því leiðarahöfundur sér ekki ástæðu til að nefna í samhenginu þó það æpi á alla sem fylgst hafa með umræðu um EES samninginn undanfarin ár, að Norðmenn létu gera yfirgripsmikið mat á EES samningnum fyrir nokkru, sem skilað var í stórri og mikilli skýrslu. Enginn hefur hingað til talið það til marks um “vaxandi pirring” heldur þykir þar á ferð eðlileg og tímabær skoðun á langtíma samstarfi við ESB og tillögur um hvernig megi bæta það.

Á Íslandi er líka í þegar gangi skoðun á ákveðnum þáttum EES samningsins, meðal annars hjá Stýrihópi stjórnarráðsins um framkvæmd EES samningsins sem forsætisráðherra skipaði á síðasta ári og mun að líkindum skila áfangaskýrslu á næstunni.

Það verður ekki betur séð en að leiðarahöfundur hafi í dag fallið í sömu gryfju og Lars Christensen og fleiri þegar kemur að Evrópuumræðunni, að setja veröldina upp í svarthvíta möguleika.

Máske er þessi umtalaði pirringur frekar hjá þeim sem sjá fram á að sitja uppi með EES samninginn í stað aðildar að ESB?

Villuljós

Allir hlutir hafa kosti og galla, líka EES samningurinn. En ég hef ekki orðið var við annað en að Framsóknarfólk sé almennt álíka sátt við EES og fólk í öðrum flokkum. Það er hins vegar eðlilegt að skoða hvað við getum gert betur og lagfært á því sviði eins og öllum öðrum sviðum. Fólk úr flestum flokkum hefur margoft bent á ýmislegt sem betur megi fara varðandi EES samninginn og framkvæmd hans. Össur Skarphéðinsson hefur t.d. sagst vera þeirrar skoðunar að EES samningurinn standist ekki stjórnarskrá og fært fyrir því rök. Þetta er ekkert nýtt. Að einhver úr Framsóknarflokknum bendi á þetta er engin yfirlýsing um einangrunarhyggju eða uppsögn á EES samningnum.

Að setja slíkt fram í leiðara útbreiddasta dagblaðs landsins eins og gert er í morgun er í besta falli til þess fallið að villa um fyrir lesendum.

Umræðunni verður varla stýrt eftir sleggjudómum einstakra leiðarahöfunda eða fjölmiðla, er það nokkuð?

Athugasemdir: