Að gefnu tilefni

Á laugardaginn birtist enn ein yfirlýsingin frá Reykjavík Media, Kastljósi og fleirum þar sem undirritaðir stilla sjálfum sér upp með geislabaug og vængi og öðrum sem lygurum.

Það minnti mig á það þegar svipuð yfirlýsing birtist frá sömu aðilum í vor þar sem farið var rangt með samtal sem ég átti við Nils Hanson ritstjóra hjá sænska ríkissjónvarpinu þann 11. mars síðastliðinn. Þar er reyndar farið rangt með fleira en byrjum á þessu. Í kjölfarið birti Ríkisútvarpið tvær fréttir með viðtölum við Hanson þar sem hann krítaði áfram liðugt um þetta samtal. Ég hef ekki kosið að tjá mig mikið um það eða annað varðandi þetta opinberlega en held að þegar öllu er á botninn hvolft sé rétt að fara aðeins yfir nokkra hluti varðandi samskipti mín við þetta fjölmiðlafólk.

Í byrjun mars fékk ég símtöl og tölvupósta frá Jóhannesi Kristjánssyni þar sem óskað var eftir viðtali við forsætisráðherra fyrir sænska ríkissjónvarpið. Jóhannes kynnti sig sem milligönguaðila og það staðfestu Svíarnir.  Það var lygi.