Hvers vegna kannast Píratar ekki við eigin stefnu og málflutning?

Í gær sakaði Birgitta Jónsdóttir kapteinn Pírata forsætisráðherra um að fara með þvætting þegar hann benti á að tillögur Pírata um lögbundna grunnframfærslu myndu kosta um 100 milljarða á mánuði, 1200 milljarða á ári – sem er t.d. meira en tvöfaldar tekjur ríkisins árið 2013.

Birgitta afneitaði málinu þrívegis í ræðustóli Alþingis, vildi í fyrsta lagi ekki kannast við að slík borgaralaun væru stefna Pírata því aðeins ætti að kanna málið, í annan stað virtist hún vilja drepa málinu á dreif með því að ítreka að það væri bara lagt fram af varaþingmanni flokksins og í þriðja lagi þvertók hún fyrir að Píratar vildu að upphæð grunnframfærslu á Íslandi væri 300 þúsund krónur á mann á mánuði.

Fjölmiðlar brugðust að sjálfsögðu hressilega við og slógu hver á fætur öðrum upp fyrirsögnum um að Birgittu þætti skelfing að hlusta á þvætting forsætisráðherra. Hvergi virtist gerð tilraun til þess að fjalla gagnrýnið um málefnið sem var til umræðu eða greina rök þeirra sem það ræddu. Það skal því gert hér.