Fíllinn lætur ekki plata sig

Internetið er soldið eins og fíllinn, það gleymir engu. Jafnvel þegar fólk leggur töluvert á sig til að gleyma, eða fá aðra til að gleyma, á internetið það til að dúkka upp og minna á gömul sannindi.

Í því samhengi varð mér hugsað til Icesave málsins þegar fréttir birtust af því að Hollendingar hefðu selt kröfur sínar í þrotabú Landsbankans. Á internetinu má einmitt finna ýmsan fróðleik úr sex ára fréttaflutningi, rökræðum og rifrildi þjóðarinnar um það mál allt saman.

Síðustu misseri hafa ýmisir lagt nokkuð á sig til að fá fólk til að gleyma því sem þeir gerðu í því máli árið 2009. Sú barátta hefur aðallega gengið út á eftirfarandi röksemdafærslu í ýmsum útgáfum í ræðu og riti:

Að vegna þess að fullar heimtur verða í þrotabú Landsbankans hafi Icesave málið í raun aldrei verið það mikla þrætuepli sem það varð, Allur Icesave höfuðstóllinn hefði alltaf verið borgaður úr þrotabúinu og skattgreiðendur hefðu því getað samþykkt allt saman áhyggjulaust.

Semsagt: Þeir sem þusuðu á móti Icesave samningunum voru bara með óþarfa vesen, þrotabúið átti alltaf fyrir öllu saman, bingó.

Bæði Steingrímur J. Sigfússon og Svavar Gestsson eru meðal þeirra sem hafa otað þessari nýju söguskoðun að landsmönnum.

Gallinn er að þetta er svona “svo langt sem það nær” sannleikur. Það er að segja, jú það er rétt að þrotabú Landsbankans mun eiga fyrir höfuðstólnum. Hins vegar sleppa hinir ágætu postular hinnar endurskoðuðu Icesve-sögu að nefna það í sömu andrá að það fylgdu þessum höfuðstól vextir.

Alveg heilmiklir vextir.