Erlend fjárfesting og viðhorf almennings. Hvernig breytir maður svoleiðis?

Viðhorf til erlendrar fjárfestingar - Mynd: Vísir.isÍ morgun birtist frétt um að Íslendingar séu almennt neikvæðir í garð erlendrar fjárfestingar. Könnunin var rædd á fundi SA, SI og Íslandsstofu um erlenda fjárfestingu, og þar spurt hvort erlend fjárfesting sé blessun eða böl. Það kom ekki á óvart að fundarmenn voru á eitt sáttir um að hún væri mikil blessun og að meira þyrfti til. Það er vissulega auðvelt og skynsamlegt að taka undir.

Hinu átti ég ekki von á, að öllum sem þar tjáðu sig kom á óvart hversu neikvæða skírskotun erlend fjárfesting hefur í hugum almennings. Það er niðurstaða sem ég hefði þvert á móti talið fyrirfram gefna.

Það ætti ekki að þurfa annað en að skoða sögu undanfarinna ára, umræðu á þingi, í fjölmiðlum, kaffistofum og fjölskylduboðum til að komast að því að allt sem tengist peningum, fjármagnseigendum, stórfyrirtækjum, fjárfestingu og öðru í þeim ranni er mjög neikvætt gildishlaðið í hugum venjulegs fólks sem ekki sýslar með stórar fjárhæðir á degi hverjum. Það er augljóslega ekkert skrýtið. Og það hefur vissulega margt breyst frá hruni, en ekki þetta, enda hefur almenn umræða frekar viðhaldið þessari tilfinningu hjá fólki.

Í slíku umhverfi hættir fólk jafnvel til að líta svo á að til sé nokkuð sem heitir “eðlileg viðskipti” og grunnafstaðan hneigist fremur í þá átt að öll viðskipti og fjárfestingar séu til þess gerð að skerða hlut “venjulegs fólks”.

Þetta er ekki einskorðað við Ísland, enda skulum við ekki falla í þá gryfju að telja okkur hafa verið eitthvað voða sérstök í efnahagskreppu sem skók heiminn allan þó að skellurinn hafi verið harðari og vandamálin sum hver verið af öðrum toga  en annarra þjóða. Það nægir að skoða umræðu og niðurstöður Brexit kosninganna í Bretlandi og kosningaáróður og -sigur Donald Trump í Bandaríkjunum til að sjá að þessi hugsun er frekar að styrkjast en hitt, og hefur nú þegar töluverð pólitísk og efnahagsleg áhrif beggja vegna Atlantshafsins – sem og hjá okkur í því miðju.

Auðvitað er stjórnmálaþróun á þessu svæði miklu dýpra rannsókanrefni en þetta en það verður ekki litið fram hjá því að þessi þróun er ein af afleiðingum alþjóðlegu efnahagskreppunnar eða hefur að minnsta kosti verið hraðari vegna hennar.

Tvennt er kannski sérlega athyglivert í samhengi erlendrar fjárfestingar og viðhorfa gagnvart henni.

Í fyrsta lagi getum við horft til landa sem áttu við erfiða krísu að stríða á svipuðum tíma og við Íslendingar, en hafa náð að rétta úr kútnum gagnvart fjárfestingu á annan og betri hátt en við. Hér er Írland gott dæmi. Þrátt fyrir að ganga í gegn um gríðarlega innri gengisfellingu með tilheyrandi launalækkunum og atvinnuleysi og að leggja svimandi upphæðir í að bjarga innlendum bönkum til að þóknast Evrópusambandskerfinu hafa Írar náð að byggja sig hraðar upp en mörgum þótti líklegt. Afleiðinga gætir auðvitað enn og mun gera áfram. Varðandi fjárfestingar búa Írar hins vegar að því að hafa opnað hagkerfið fyrir þeim og sett niður skýran ramma töluvert áður en hrunið varð og gátu því byggt á góðum grunni hvað það varðaði. Á ýmsan máta eru Íslendingar engu síðri í samanburði við Írland þegar litið er til þess hvernig þessi lönd hafa unnið sig út úr erfiðum (og vissulega ólíkum) efnahagsaðstæðum en þegar kemur að erlendri fjárfestingu erum við enn of aftarlega á merinni.

Það hlýtur því að vera áleitin spurning hvernig við ætlum að vinna markvisst að því að bæta okkur. Þar hlýtur að vera fyrsta mál á dagskrá að læra af þeim þjóðum sem gert hafa vel í þessum efnum. Þar gætum við byrjað strax á því að ráðfæra okkur við Möltu sem hefur náð ótrúlegum árangri með skýrri stefnumörkun og markvissum lagabreytingum á undanförnum árum. Það hafa verið ýmis samtöl við Möltu á undanförnum árum og bæst hefur við þekkinguna okkar megin, en það vantar enn að breyta lærdómnum í skýra stefnu hjá íslenskum stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum um að ganga í þetta mál af festu og ákveðni.

Í öðru lagi vakti athygli mína að aftur og aftur kom fram á fundinum í morgun að nauðsynlegt væri að “breyta viðhorfi almennings til erlendrar fjárfestingar” – að “fræða almenning um kosti hennar”. Hér er ágætt að minnst þess  í upphafi að við megum aldrei gleyma að þetta eru ekki tveir hópar – viðskiptalífið sem telur erlenda fjárfestingu góða og almenningur sem telur hana vonda. Ef við drögum fólk í slíka dilka er umræðan töpuð áður en hún hefst. Við erum ein þjóð og samtalið verður að eiga sér stað á þeim grundvelli.

Einhver gæti spurt hvers vegna það þurfi að breyta viðhorfi almennings – eru það ekki aðallega fyrirtækin og stjórnmálamenn, ráðherrar og stjórnkerfið sem þurfa að hafa jákvætt viðhorf til erlendrar fjárfestingar svo að hún laðist að landinu?

Skiptir almenningur einhverju máli?

Svarið er auðvitað já. Almenningur og viðhorf almennings skiptir alltaf máli. Oft öllu máli.

Það er jú almenningur í landinu sem ræður því hverjir veljast úr þeim hópi til þess að stýra lagasetningu um þessi og önnur málefni. Ef fólk er almennt neikvætt gagnvart erlendri fjárfestingu er líklegra að stjórnmálamenn, fulltrúar almennings, leggi litla áherslu á að auka hana og bæta fjárfestingaumhverfi almennt.

Ég kýs hins vegar að draga ákveðna línu milli þess að “breyta viðhorfi almennings gagnvart” og að “fræða almenning um”. Það er mun auðveldara að fræða, koma upplýsingum á framfæri til að fólk geti myndað sér skoðun á grundvelli bestu upplýsinga og tekið upplýstar ákvarðanir, heldur en að breyta viðhorfi.

Viðhorf fólks mótast nefnilega af fleiru en upplýsingum. Það mótast líka af tilfinningum og skoðun náungans, samræðum við aðra og umræðu í samfélaginu.

Ef við erum sammála að til að bæta efnahagslíf og afkomu og auka þekkingu á Íslandi sé rétt að ýta undir erlenda fjárfestingu hljótum við að vilja fræða og breyta viðhorfi almennings á Íslandi til erlendrar fjárfestingar.

Til þess er hins vegar ekki nægilegt að skrifa nokkrar greinar um hvað erlend fjárfesting sé frábær, eða halda seminör um hvað hún hefur í sögunni fært Íslendingum mikla tækniþekkingu og færni á nýjum sviðum. Auglýsingaherferðir um velgengni fyrirtækja og vitundarvakning um hvað stór hluti Íslendinga vinnur hjá fyrirtækjum sem flokkast sem erlend fjárfesting eða í afleiddum störfum munu heldur ekki skila almennri viðhorfsbreytingu. Allt er þetta gott og blessað til að koma upplýsingum á framfæri en meira þarf til.

Margir þekkja að breytingastjórnun í hópi fólks, t.d. í fyrirtæki eða stofnun, getur verið það erfiðasta sem  hægt er að ganga í gegn um. Það getur verið mikið átak að breyta viðhorfi starfsmanna í litlu fyrirtæki gagnvart t.d. nýju tölvukerfi eða nýju skipuriti. Að breyta viðhorfi heillar þjóðar virðist í samanburði óyfirstíganlegt verkefni. En það er það ekki.

Alveg eins og í litla fyrirtækinu snýst vel heppnuð breyting um að snúa við fyrirfram mótuðum viðhorfum og láta jákvæðni gagnvart breytingunni vinnast innan frá. Og þar hef ég ákveðna skoðun á því hver forsendan er.

Við Íslendingar þurfum sem þjóð að vaxa upp úr Hruninu (með stórum staf). Við þurfum að hætta að skilgreina okkur sjálf, afkomu okkar, stjórnmálalínur, viðskipti og allt annað í samfélaginu út frá tíu ára gömlum atburðum. Það gerist auðvitað ekki á einni nóttu.

Þessi breyting þaf að koma innan frá og eins og svo oft er fyrsta skrefið að viðurkenna vandamálið. Við þurfum að þora að tala um að hrunið lifir ennþá innra með okkur öllum. Sjokkið, hræðslan við afkomu fjölskyldunnar, reiðin og hinar eðlilegu tilfinningarnar sem vöknuðu hjá okkur öllum eru þarna ennþá eins og kalblettur innst í hjartanu. Þær verða líklega þar eins lengi og við lifum. Það sem við verðum að læra, og tala um, er að hætta að láta þær stjórna því hvernig við högum okkur og dæmum lífið í kringum okkur. Við megum ekki arfleiða börnin okkar að kalblettinum.

Þegar ég gifti mig voru margir sem læddu að mér því ráði að hvað sem kæmi upp á í hjónabandinu væri mikilvægt að fara aldrei reið og ósátt að sofa. Íslenska þjóðin er ennþá að fara að sofa ósátt við sjálfa sig, nærri tíu árum eftir áfallið.

Þetta á við okkur öll, og ekki síður stjórnmálamenn, fjölmiðla, álitsgjafa og stjórnendur fyrirtækja en aðra. Því að þeim mun lengur sem við látum Hrunið stýra umræðunni í samfélaginu þá munum við leyfa Því að viðhalda viðhorfum sem til lengdar munu hefta íslenskt efnahagslíf og seinka því að við náum að byggja upp betra samfélag fyrir komandi kynslóðir.

Það er kominn tími til að við tökumst á við þetta í alvöru. Í því felst ekki að gleyma, hætta að tala um það sem gerðist eða setja viðvörunarbjöllurnar fyrir blinda augað. Lærum af því, rannsökum það, tölum um það, lagfærum afleiðingarnar eins og best er unnt, finnum leiðir til að bæta okkur og samfélagið svo að slíkt gerist ekki aftur. Það er nauðsynlegt. En hættum að vera föst í hringrás tilfinningaumræðu sem leiðir bæði af því og til þess að Hér Varð Hrun.

Það er auðvelt að segja þetta en risastórt, erfitt og áralangt þjóðarátak að gera það.

Svona breytingar  verða ekki af sjálfu sér. Og til að koma aftur að upphafsefni pistilsins þá getur það að setja fram skýra stefnu varðandi erlenda fjárfestingu og bæta almennan ramma um eðlilegt viðskiptaumhverfi verið eitt atriði af fjölmörgum til að hjálpa okkur áleiðis. Þá þurfum við að taka umræðuna, ákvarða hvað okkur þykir réttur almennur rammi, skoða orsakir og afleiðingar og mynda okkur skoðun og stefnu til framtíðar.

Í því samtali geta allir tekið þátt, og því almennari þátttaka þeim mun betra. Og það er með slíku opnu samtali byggðu á góðum upplýsingum sem viðhorfin breytast smám saman.

 

Hvar ertu, Júróvisjón-úmpff-tisssj hjarta míns? 

AP_1905_SwedenVOL2-13Íslensku Júróvisjónlögin hætta bara ekki að valda vonbrigðum. Það skal í upphafi viðurkennast að ég er ætíð maður sleggjudóma þegar kemur að Júró. Er stórkostlega fylgjandi glamrokkihressleika og almennu showmanship brjálæði í keppninni. Þessi yfirferð skyldi því skoðast í ljósi þess að ég er maður með mission – að þrýsta á meira stuð í júró. Til útskýringar fannst mér It’s My Life með rúmenska vampírumanninum Cezar stjarnfræðilega miklu betra árið 2013 en danski berfætti táradalurinn hennar Emmelie de Forest sem vann það ár. Ég er maður sem finnst Sigur Rós almenn leiðindi en Lordi, Páll Óskar og Pertti Kurikan Nimipäivät alger snilld. Nöff said.

Þó að keppnin hafi gefið af sér margar góðar ballöður og rólegheit (A Monster Like Me kemur t.d. upp í hugann og Is it True? í íslenska samhenginu) þá vil ég almennt hafa stuð. Og það hefur bara að allt of stórum hluta vantað í íslensku undankeppnina undanfarin ár. Reyndar hefur stuðhlutfallið minnkað stórlega almennt í keppninni undanfarin ár. Þar er bévítans dómnefndunum um að kenna. Smá meira um það neðar. En fyrst íslenska stöffið.

Ekki misskilja, það eru alveg hreint ágæt sönglög þarna inn á milli. Fátt sem er fullkomlega drepleiðinlegt, nokkrar svolítið sætar melódíur. En Júróvisjónsnilld? Neeeh. Í því samhengi er þessi íslenska undankeppni ferleg eyðimörk í ár. Sennilega mun Makedóníuheilkennið læsa klónum í mig með tímanum og láta mér finnast fleiri og fleiri lög bara alveg ágæt eftir skrilljón hlustanir. Ég ætla samt að reyna að bólusetja mig fyrir því í ár. Sjáum til.

Það vantar allt Úmpla! í þetta. Alla úmpffúmpff þéttur bassi tisssjtisssj krispí taktur stemmingsslagara. Varför finns där inga Schlager her? For Helvete!

Hverju er um að kenna?

 

Er íslenska Hægt-og-hljótt-Gunna-Þórðar-ballöðupopphefðin kannski bara of rígnegld í okkur? Þjóð í hlekkjum Það-sem-enginn-sér-hugarfarsins? Af hverju er það orðið eitthvað lögmál að 80% allra framlaga í Söngvakeppni sjónvarpsins séu almennt líkari BirtuÞá veistu svariðSjúbbídú og  *hryll* Ég á líf, en snilld eins og Minn hinsti dansThis is My lifeEitt lag enn og All out of luckAkkuru? Akkuru það? Akkuru gerum við þetta? Akkuru?

En ekki hlusta bara á rassálfana. Lítum á afurðir ársins.

Það besta sem innsend lög buðu upp á í þetta sinn er því miður að stórum hluta álíka áhugavert og meðaltalið af Júróvisjónframlögum Portúgal. Engum finnst þau almenn Júró-snilld nema Reyni Þór Eggertssyni. Almenn niðurstaða um íslensku lögin í ár er semsagt: Á köflum ágæt lög, en algjört slappelsi í Júróvisjónsamhenginu. Eitt stórfínt Júróvisjónlag, tvö til þrjú ágæt lög, restin svona meeeh og svo tvær instant pissupásur.

Skoðum’etta aðeins betur.

Í fyrsta lagi tekur það fullt af lögum í ár alveg mínútu eða meira að byrja. Í keppni í sjónvarpi þar sem lögin mega bara vera þrjár mínútur þá er góð regla að láta eitthvað áhugavert gerast á fyrstu mínútunni. Það er furðuleg árátta hjá íslenskum lagahöfundum að eyða þriðjungi af tímanum í intró eða óþarflega rólegt upphafsvers (jafnvel mörg). Lærum af Sylvíu Nótt og Til hamingju Ísland. Tíu sekúndur af kick ass upptakti og svo beint inn í brjálæðið.

Langbesta lagið í ár, besta júróvisjónlagið og eina lagið sem heldur ennþá algerlega sjó eftir fjórðu og fimmtu hlustun, er Heim til þín með Júlí Heiðari og Þórdísi Birnu. Það er annað árið í röð sem þau eiga besta lagið í íslensku undankeppninni. Vel af sér vikið. Ef þið efist um orð mín hlustið þá á þetta lag og ímyndið ykkur að það sé danskt júróvisjónlag. Svona í stíl við Never Ever Let me Go með Rollo & King. Þetta er einfaldlega lag sem virkar á stóra sviðinu. Létt og skemmtilegt, stemmingstaktur, flottur söngur, fínn texti og sætt samspil. Og jafnvel betra á ensku en íslensku. Ég er klár á því að Þau Júlí og Þórdís eiga eftir að ná vel saman á sviðinu og slátra þessari undankeppni. Þetta er sigurlagið í ár gott fólk. Heyrðuð það fyrst hér.

Skárstu framlögin í ár fyrir utan það eru þrjú, fyrst Bambaramm með Hildi Kristínu og Ég veit það með Svölu Björgvins. Bæði þessi lög eru smá hress, fínar laglínur, flottur söngur, bassinn og takturinn að gera sig. Ég á samt alltaf smá von á því að Svala fari að syngja um jólin, kannski er það bara miðaldra ég í ósjálfráðu nostalgíukasti. Það er líka eitthvað skemmtilegt við stílinn hjá Hildi Kristínu sem tikkar inn í “spes íslenska söngkonan” boxið, Björk, Nanna í OMAM þið vitið. Staðalmyndin af skrýtnu íslensku stelpunni. Syndrómið sem býr til týpur eins og Riley Blue í Sense8.

Svo yljar alltaf gömlum Júrónörd þegar veðjað er á gamalreynda textasnilld eins og “Bamm-baramm-baramm-bamm”. Ding-dinga-dong og Hubba Hule lifðu. En Amambanda gerði það ekki. Og enginn man í dag eftir hinu Abba-Júróvisjónlaginu, Ring Ring, sem komst ekki einu sinni i í lokakeppnina árið 1973 (ókei við munum kannski eftir því en ekki sem júrólagi). Þeir eru tvíeggjað sverð þessir bulltextar.

Gallinn er að það er vonlaust að þessi tvö lög  eða rest nái nokkrum einasta árangri í lokakeppninni. Og í því liggur vandinn. Íslenska undankeppnin er stappfull af þokkalegri tónlist sem á núll séns í að komast upp úr riðlinum í lokakeppni Júróvisjón. Neeei segir þú? Ísland bar Valentine Lost og Unbroken á örmum sér. Evrópa gaf miskunnarlausan þumal niður. I rest my case. Heim til þín er eina lagið sem á raunverulegan séns á að komast upp úr riðlinum.

Þriðja lagið í þessum 2-4 sæti hópi er Nótt með Aroni Hannesi Hilmarssyni sem gerir alvöru atlögu að skemmtistaðastemmingunni og gerir það vel. Þetta er alvöru lag, sérstaklega í ensku útgáfunni. Það veltur mikið á sviðsframkomunni en ef hún heppnast vel kæmi ekki á óvart að Nótt steli óvænt senunni og geri atlögu að yfirburðum Júlí Heiðars og Þórdísar Birnu.

En hvað með hin?

Þú og ég með Kristinu Bærendsen og Páli Rósinkranz er sæt kántríballaða, væri flott í rómantískri dramasýningu á sviði Borgarleikhússins en því miður klassísk tissepause á Júrósviðinu. Það sama má segja um Treystu á mig með Sólveigu Ásgeirsdóttur nema hvað leikritið er skemmtilegt barnaleikrit með alvörugefnum undirtón í Þjóðleikhúsinu.

Svo eru þessi óeftirminnilegu, þar sem vantar erynaorminn sem suðar í heilanum eftir hlustun.

Til þín með Arnari Jónssyni og Rakel Pálsdóttur gerir heiðarlega tilraun til að vera stóri dúettinn í keppninni í ár og að vissu leyti heppnast það ágætlega. Lagið er hins vegar allt of hægt og rólegt til að eiga séns og nær ekki nægilega stórum hápunkti. Það vantar alveg Whitney Houston klímaxið í það.

Mér við hlið með Rúnari Eff hverfur jafn hratt út um annað eyra mitt og ég næ að spila það inn um hitt. Mér finnst það bara ágætt á meðan ég hlusta en um leið og ég hætti að hlusta þá man ég ekkert eftir því. Það vantar alveg húkkið. Júró gefur því miður ekki afslætti af slíku.

Ástfangin og Skuggamynd eru ágætar tónsmíðar en ná ekki að fanga hlustandann almennilega.

Ástfangin með Lindu Hartmans er soldið eins og kvikmyndin Lost in Translation, voða flott og vel sungið, en það gerist ósköp lítið.Skuggamynd með Ernu Mist Pétursdóttur hefur flotta uppbyggingu, það er góður slurkur af Wrecking Ball fíling í því (sem í minni bók er mikið lof, Miley Cyrus er jú Madonna vorra tíma), en það fellur í “of lengi að byrja” gryfjuna, keyrir ekki nægilega snemma inn á stuðið og tapar því athyglinni.

Og að síðustu koma þessi sem er erfitt að skilgreina.

Hvað með þig með Daða Frey Péturssyni virðist vera fyrsta júróvisjónlagið (og eitt af fáum almennt síðan Da-da-da með Trio) sem er spilað á Casio VL-1. Það er nettur Berndsen fílingur í þessu sem er að gera sig ágætlega, bara fínt popplag, en á Júróvisjónsviðinu er þetta álíka hittari og Divine með Sébastien Tellier. Og áður en hipsterar landsins stökkva á fætur með vaggandi putta til varnar Sébastien Tellier þá bendi ég á að Divine endaði í 19. sæti af 25 í lokakeppninni – sem það var bara með í því að Frakkland er eitt af fimm stóru löndunum sem þarf ekki að taka þátt í riðlakeppninni. Átti aldrei séns annars.

Karabíska off beat stáltrommu-klukkuspilið í Þú hefur dáleitt mig með Aroni Brink fer svo að lokum bara skelfilega í taugarnar á mér, Ég er alltaf að bíða eftir rastarapparanum sem kemur aldrei. Hvar er hann? Af hverju er segir enginn “One time, man – komdumeðkomdumeðkomdumeð yaaah” með þykkum Jamaíkahreim í þessu júróvisjónlagi óuppfylltra væntinga? Hví?!

Það er svo ekki hægt að klára þennan rant án þess að minnast á textasnilld ársins (fyrir utan Bammbarammbarammbarammrammbamm) sem er klárlega “Klukkan hringir korter í 7, langar að snooza til allvega 2”. Klöppum fyrir því. Takk fyrir. Takk.

Að lokum legg ég að Ríkisútvarpinu sem fulltrúa okkar Íslendinga á vettvangi Eurovision að taka nú Jon Ola Sand út undir vegg þegar færi gefst í Kiev í maí og benda honum kurteislega en ákveðið á að þetta 50% dómnefndafyrirkomulag er bæði að drepa allt stuðið og gleðina sem einkenndi seinni gullöld Júróvisjón á fyrsta áratug aldarinnar, OOOG hefur sýnt sig að er frjórri grundvöllur fyrir rammpólitíska stigagjöf en símakosningin (sem sást ótrúlega skýrt og greinilega í úrslitum keppninnar í fyrra þegar helmingur dómnefnda gaf besta lagi keppninnar ekkert stig því að það kom frá Rússlandi). Ef kurteis rök virka ekki er reynandi að safna saman klinki úr útvarpsgjaldinu og bara múta mannium. Það má byrja á 16.900 kallinum mínum.

En jæja. Til að summa þetta upp:

Heim til þín vinnur.

Nótt berst hatrammlega um annað sætið við annað hvort Bammbaramm eða Ég veit það.

Ragnhildur Steinunn verður í flottum kjólum, með classy hár og geislandi upphandleggsvöðva. Og þegar öllu er á botninn hvolft, þurfum við eitthvað meira?

Jú. Smá meira.

Hvað viljum við?!

Glam! Rokk! Dansmússík og brjálæði!

Hvenær viljum við það?!

Sem fyrst, ef það er ekki of mikið vesen takk.

Ekki hugsa út fyrir kassann

tardis2Að “hugsa út fyrir kassann” er oft álitið eins konar aðalsmerki í alls konar vinnu. “Kassinn” er þá yfirleitt hið fyrirfram gefna sett af reglum eða viðmiðum í viðkomandi bransa, nú eða í lífinu almennt. Oft felst í því lítið annað en að fá hugmynd sem engum öðrum hefur dottið í hug áður, eða nálgast viðfangsefni með opnum huga og framkvæma eitthvað sem aðrir hafa bara hugsað um.

Þetta getur allt verið gott og blessað. Hins vegar felst í framsetningunni á hugtakinu að við séum almennt föst í alls konar römmum sem eru lítið umbreytanlegir, maður er annað hvort ósköp normal innan í kassanum eða svolítið meira hipp og kúl fyrir utan hann (16 ára dóttir mín segir mér reyndar ítrekað að það sé ekki lengur hipp og kúl að segja hipp og kúl, og dæsir, en látum það standa).

Þessi tvíhyggja er hins vegar, eins og flest tvíhyggja, ósköp takmarkandi og alls ekki “út fyrir kassann” heldur bara frekar rækilega inni í honum. Og það vekur spurninguna hvort að þriðji kosturinn leynist þarna einhvers staðar inn á milli?

Fyrir nokkrum árum fór ég í nokkurra daga ferð til Óðinsvéa á Fjóni með þáverandi samkennurum mínum í Seljaskóla. Við heimsóttum nokkra mjög ólíka skóla, fengum innsýn í danskt menntakerfi og tókum með okkur þá reynslu heim.

Einn af þessum skólum og andinn sem þar ríkti hefur fylgt mér alla tíð síðan.

Ole og Humlehave

Í Óðinsvéum er hverfi sem þykir eitt flóknasta innflytjendahverfi Danmerkur, Vollsmose. Það hefur komist reglulega í fréttir á undanförnum 20 árum fyrir alls konar vandamál. Í grunninn var það byggt sem ódýrt hverfi og þar var mikið af félagslegum íbúðum. Eftir því sem árin liðu safnaðist þangað fólk með lítil efni af ýmsum ástæðum, innflytjendur þeirra á meðal eins og gerist og gengur. Þegar við heimsóttum barnaskólann í hverfinu, Humlehaveskolen, árið 2003 var hverfið þegar orðið þekkt í Danmörku sem “vandamálahverfi” og skólastjórinn orðinn landsþekktur sem jákvæður talsmaður bæði hverfisins og íbúanna þar.

Í þessari heimsókn mættum við um það bil 10 íslenskir kennarar, ferskir úr síðustu heimsókn í “ósköp venjulegan” danskan skóla þar sem nemendasamsetningin var frekar svipuð og í skólum hér á landi og allir réttu kurteislega upp fingurinn ef þeir vildu tala.

Okkur var vísað inn í rúmgóða skólastjóraskrifstofuna þar sem við settumst við fundaborð og biðum komu Ole skólastjóra. Og litum í kring um okkur.

Þessi skólastjóraskrifstofa var hins vegar ekkert venjuleg. Upp um alla veggi héngu fótboltabolir, fótboltafánar og liðstreflar frá ýmsum þjóðum, bæði mörgum frægustu liðum heims og landsliðum sem og minna þekktum.

Við störðum í forundran. Skrifstofan var þakin í þessu dóti. Svo birtist Ole skólastjóri með sterkt kaffi og byrjaði á að afsaka seinkomuna, það hefði nefnilega verið danskur landsleikur í gær.

Ókei, maðurinn var greinilega fótboltaáhugamaður. Hann byrjaði hins vegar á að segja frá skólanum sem hafði tæplega 400 nemendur af um 15 þjóðernum. Nemendasamsetningin var nánast öfug við aðra skóla í borginni, um það bil 90% nemenda koma frá öðrum löndum eða öðrum menningarbakgrunni en þessum hefðbundna danska. Við fylgdumst með kennslu seinna um daginn og þarna réttu nemendur ekki upp fingur í kurteisi heldur var allt svona meira í líkingu við agastigið sem við þekktum úr íslenska skólakerfinu – svona mátulega stíft skulum við segja.

Skólastjórinn sagði viðfangsefnin líka vera nokkuð af öðru tagi, það væri t.d. stundum töluverð vinna að halda nemendum í skólanum þar sem að á mörgum heimilum væri t.d gert ráð fyrir því að þau væru heima að hjálpa til með yngri systkini ef á þyrfti að halda og fleira slíkt. Einnig kæmi það upp að ólíkir menningarheimar tækjust á innan skólans á ýmsan máta alveg eins og utan hans.

Svo leit hann upp á allt fótboltadótið og útskýrði tvennt sem hann gerði til að efla skólaandann og styrkja nemendur. Hann sagði að þegar nýr nemandi kæmi í skólann þá þyrfti jú að útskýra reglurnar, að það þyrfti að mæta í skólann á hverjum degi, að þetta mætti en ekki hitt og svo framvegis. Og nemendur kæmu frá gjörólíkum menningarheimum þar sem að skólar og skólareglur, menning og samskipti milli fólks væru alls konar ólík.

Yfirleitt yrði nýjum nemendum við eins og okkur gestunum, starsýnt á fótboltagræjurnar á veggjunum. Og fótbolti er jú eins alls staðar í heiminum. Sama hvort þú kemur frá Danmörku, Íslandi, Pakistan, Sómalíu eða Kína þá eru þar tvö mörk, einn bolti, ellefu leikmenn í liði, einn sem má taka með höndum og einn dómari.  Sömu reglur gilda fyrir alla. Og allir skilja það og virða.

Líkingin var fullkomin. Og Ole bætti um betur. Í Humlehave var ekki refsing að vera sendur til skólastjórans, það var sóst eftir því. Nemendur báðu jafnvel um það og fengu. Fengu kannski gosflösku og spjall um fótbolta eða hvað sem þörf þótti á. Margir þeirra voru heimagangar á heimili skólastjórans sem hafði dyrnar þar opnar líka fyrir þá sem vildu.

Ramminn getur verið bæði vandamál og lausn

Ég fór út úr Humlehaveskolen sannfærður um að þar hefði mér liðið vel að vinna. Ég er enn sannfærður um það. Og ég hef tekið þessar sáraeinföldu en áhrifaríku hugmyndir skólastjórans timbraða með mér í ansi margt sem ég hef gert síðan.

Það sem hann hafði nefnilega fundið var ekki hvernig hann gæti hugsað út fyrir kassann, heldur hafði hann endurskilgreint kassann upp á nýtt, búið til nýjan kassa, nýjan ramma sem hentaði þeim áskorunum sem hann stóð frammi fyrir dag hvern.

Og það er mikilvægur lærdómur. Rammarnir eru ekki algildir, þeir eru ekki til staðar af því bara og þeir eru ekki óumbreytanlegir. Ramminn er það sem við viljum að hann sé. Kassinn er blekking því við höfum búið hann til sjálf.

Og um leið og við rífum kassann í sundur og röðum honum öðruvísi saman þá eigum við alla möguleika á að púsla honum utan um vandamálið eða láta hann rúma lausnina sem vantar. Lausnin sjálf getur nefnilega sem best legið í því skilgreina sjálfan rammann upp á nýtt.

 

Skoðanir og kannanir

Skoðanakannanirnar um Framsóknarflokkinn og viðhorf til formanns og varaformanns flokksins sem komu út í dag eru áhugaverðar fyrir nokkurra hluta sakir.

Í fyrsta lagi eru þær sammála um eitt: Að Sigmundur Davíð hafi stuðning meirihluta kjósenda Framsóknarflokksins. Það er ánægjulegt að sjá í ljósi þeirra breiðu spjóta sem hefur verið beint að honum að undanförnu.

Í annan stað kemur svolítið á óvart að svona löngu undirbúinni stuðningsmannakönnun skuli vera plantað á forsíðu Fréttablaðsins á þessum tíma á svo augljósan hátt.

Í þriðja lagi er hins vegar ekkert sérstakt undrunarefni að kjósendur annarra flokka vilji sjá annan formann í Framsóknarflokknum en Sigmund Davíð. Hann er ekki beinlínis óumdeildur náungi. Fólk sem fer sínar eigin leiðir og nær árangri með þeim eignast ekki bara vini og viðhlægjendur.

Svo er almennt áhugaverð spurning hvað mikið má lesa úr þeim þætti svona kannana sem spyrja fólk almennt af handahófi um forystufólk einstakra stjórnmálaflokka.

Lítum til dæmis á könnunina sem var birt í apríl fyrir formannskjörið hjá Samfylkingunni. Það var sams konar könnun, handahófsúrtak hjá Gallup, allir flokkar og skoðanir undir.

Oddný Harðardóttir hlaut þar afgerandi stuðning – könnunin sagði skýrt að „flestir landsmenn teldu Oddnýju best til þess fallna að leiða Samfylkinguna“.

Öllum er hins vegar ljóst að Samfylkingin hefur ekki sópað að sér fylgi flestra landsmanna í kjölfar þess að Oddný var kjörin formaður flokksins. Þvert á móti hefur fylgi flokksins nánast ekki hreyfst, það stendur í sömu 8 prósentunum og í apríl.

Að gefnu tilefni

Á laugardaginn birtist enn ein yfirlýsingin frá Reykjavík Media, Kastljósi og fleirum þar sem undirritaðir stilla sjálfum sér upp með geislabaug og vængi og öðrum sem lygurum.

Það minnti mig á það þegar svipuð yfirlýsing birtist frá sömu aðilum í vor þar sem farið var rangt með samtal sem ég átti við Nils Hanson ritstjóra hjá sænska ríkissjónvarpinu þann 11. mars síðastliðinn. Þar er reyndar farið rangt með fleira en byrjum á þessu. Í kjölfarið birti Ríkisútvarpið tvær fréttir með viðtölum við Hanson þar sem hann krítaði áfram liðugt um þetta samtal. Ég hef ekki kosið að tjá mig mikið um það eða annað varðandi þetta opinberlega en held að þegar öllu er á botninn hvolft sé rétt að fara aðeins yfir nokkra hluti varðandi samskipti mín við þetta fjölmiðlafólk.

Í byrjun mars fékk ég símtöl og tölvupósta frá Jóhannesi Kristjánssyni þar sem óskað var eftir viðtali við forsætisráðherra fyrir sænska ríkissjónvarpið. Jóhannes kynnti sig sem milligönguaðila og það staðfestu Svíarnir.  Það var lygi.

Hvers vegna kannast Píratar ekki við eigin stefnu og málflutning?

Í gær sakaði Birgitta Jónsdóttir kapteinn Pírata forsætisráðherra um að fara með þvætting þegar hann benti á að tillögur Pírata um lögbundna grunnframfærslu myndu kosta um 100 milljarða á mánuði, 1200 milljarða á ári – sem er t.d. meira en tvöfaldar tekjur ríkisins árið 2013.

Birgitta afneitaði málinu þrívegis í ræðustóli Alþingis, vildi í fyrsta lagi ekki kannast við að slík borgaralaun væru stefna Pírata því aðeins ætti að kanna málið, í annan stað virtist hún vilja drepa málinu á dreif með því að ítreka að það væri bara lagt fram af varaþingmanni flokksins og í þriðja lagi þvertók hún fyrir að Píratar vildu að upphæð grunnframfærslu á Íslandi væri 300 þúsund krónur á mann á mánuði.

Fjölmiðlar brugðust að sjálfsögðu hressilega við og slógu hver á fætur öðrum upp fyrirsögnum um að Birgittu þætti skelfing að hlusta á þvætting forsætisráðherra. Hvergi virtist gerð tilraun til þess að fjalla gagnrýnið um málefnið sem var til umræðu eða greina rök þeirra sem það ræddu. Það skal því gert hér.

Blekkingabullið.

Á síðustu árum hafa pistlar Sigrúnar Davíðsdóttur um Icesave og afnám hafta í Speglinum á köflum haft yfirbragð sjónhverfinga. Nú í vikunni barst enn á ný slíkur pistill í gegn um útvarp allra landsmanna þar sem þessi helsti rannsakandi Spegilsins á sviði efnahagsmála, (a.m.k. þegar Þórólfur Matthíasson er upptekinn) sagði frá því sem hún kallaði blekkingar og sjónarspil stjórnvalda við kynningu á áætlun um afnám hafta.

Það er léleg rannsóknarblaðamennska að éta bara upp helstu þræði spunalopans sem Samfylkingin prjónaði saman í hasti á dögunum, og setja fram í Ríkisútvarpinu sem staðreyndir.

Í pistlinum lepur Sigrún ítrekað upp þá lygasögu að í kynningu á áætlun um afnám hafta í júní hafi sú leið til lausnar á vandanum sem slitabúin hafa nú kosið að fara, að uppfylla stöðugleikaskilyrði stjórnvalda með frjálsum framlögum í stað skattheimtu, aðeins verið „nefnd í aukasetningu“.

Reyndar er allur pistillinn byggður á þessum útgangspunkti. Sem útskýrir hvers vegna pistillinn er uppfullur af rangindum.

Vill hinn raunverulegi Ólafur Jón Sívertsen vinsamlegast standa upp?

Fréttagúrkan getur af sér sitthvað skemmtilegt.

Einn af pistlahöfundum fréttaveitunnar Hringbrautar er hinn yfirlýsingaglaði Ólafur Jón Sívertsen. Honum er mjög í nöp við ríkisstjórnina enda fjalla nánast allir pistlar hans um hana á einhvern hátt. Þá fer Ólafur Jón þessi  ekki í grafgötur með að hann hafi sérstakan ímigust á Framsóknarflokknum.

Hinn geðþekki dagskrár- og ritstjóri Hringbrautar, Sigmundur Ernir Rúnarsson, fyrrum alþingismaður Samfylkingarinnar, hefur nokkrum sinnum skrifað fréttir úr pistlum Ólafs þessa.

Tvær þeirra tróna nú á forsíðu fréttamiðilsins og báðar fara þær lofsamlegum orðum um téðan Ólaf Jón og gefa orðum hans vægi, segja hann sérlegan innanbúðarmann í utanríkismálum og diplómasíu.

Þetta er athyglivert, ekki síst þar sem það er t.d. nokkuð augljóst að það sem hinn leyndardómsfulli Ólafur Jón skrifar um nýlega Brusselför forsætisráðherra, og Hringbraut birti sérstaka frétt upp úr, er ósköp skringilegt rugl.

Tekjujöfnuður á Íslandi 2014 var sá mesti frá upphafi mælinga

Hagstofa Íslands birti í morgun þá frétt að árið 2014 var tekjujöfnuður á Íslandi sá mesti frá upphafi mælinga. Þetta eru niðurstöður lífskjararannsóknar Hagstofunnar, þar sem fram kemur að tekjujöfnuður eykst milli áranna 2013 og 2014. Gini stuðullinn lækkar úr 24 niður í 22,7 (en var hæstur 29,6 árið 2009).

Gini stuðullinn 2014

Þetta eru frábær tíðindi og með þeim er rækilega staðfest að jöfnuður á Íslandi hefur aukist á þessu kjörtímabili. Hagstofan bendir á að ástæða þessa árangurs sé að ráðstöfunartekur þeirra sem hafi lægstar og miðtekjur hafi hækkað á meðan hæsti tekjuhópurinn hafi staðið í stað.

Sveitarstjórnarmönnum fjarstýrt frá Alþingi?

Fulltrúar Bjartrar framtíðar á þingi og í sveitarstjórnum hafa helst barið sér á brjóst fyrir að stunda „ný vinnubrögð“ í stjórnmálum. Stundum hefur þótt vanta útskýringu á því í hverju „nýju vinnubrögðin“ séu fólgin. Helst hefur á Bjartri framtíð skilist að „ný vinnubrögð“ séu „ekki gömlu vinnubrögðin“ – án þess að það sé útskýrt nánar.

Til að skilja hvað felst í þessum nýju vinnubrögðum Bjartrar framtíðar er því álitlegast að leita dæma í verkum þingmanna og sveitarstjórnarfulltrúa flokksins.

Nýjasta dæmið er að finna í umfjöllun umhverfis og samgöngunefndar Alþingis um frumvarp forsætisráðherra um verndarsvæði í byggð. Þar gerðist það á fundi í síðustu viku að umsagnaraðilar komu fyrir nefndina. Á fundinum kom fram að skipulagsráð Hafnarfjarðar hefði daginn áður skilað jákvæðri umsögn til Alþingis um frumvarpið og stutt það (eins og fram kemur í fundargerð ráðsins frá 5. maí):